Setjum lög um heimilisofbeldi
Setjum sérstök lög sem taka á heimilisofbeldi og ofbeldi í nánum samböndum.
Á Íslandi er ekki að finna lagaákvæði sem taka sérstaklega á ofbeldi sem beitt er í nánum samböndum (heimilisofbeldi) heldur eru ákvæði almennra hegningarlaga látin nægja. Sem dæmi má nefna að sök vegna heimilisofbeldis fyrnist eftir sömu reglum og gilda um ofbeldi milli ókunnugra. Þar með er ekki tekið tillit til þess hve þungbært er að kæra ofbeldisverk maka til lögreglu og að erfitt sé að gera það á meðan á sambandinu stendur. Þá er barn sem horfir upp á foreldri sitt beitt ofbeldi ekki skilgreint sem þolandi afbrots í gildandi lögum.
Við, undirrituð, skorum á yfirvöld að endurskoða í heild sinni lög og viðurlög er varða heimilisofbeldi, með það fyrir augum að búa til heilsteypta og skýra löggjöf, annaðhvort með sérkafla í hegningarlög eða með sérstökum lögum, sem taka á öllum þáttum er snúa að heimilisofbeldi.
Þannig verði löggjöf bætt, alvarleiki þessara brota viðurkenndur og fyrir alvöru unnið að því að Ísland verði land þar sem heimilisofbeldi og ofbeldi milli náinna einstaklinga er ekki liðið.
Skrifaðu undir HÉR.