Fara í efni

Sigurbjörg Ágústsdóttir einkaþjálfari í flottu viðtali

Flott viðtal við töff stelpu sem er einkaþjálfari.
Sigurbjörg Ágústsdóttir
Sigurbjörg Ágústsdóttir

Flott viðtal við flotta stelpu sem er einkaþjálfari hjá World Class í Laugum. 

 

Fullt nafn:  Sigurbjörg Ágústsdóttir
 
Segðu okkur aðeins frá þér í stuttu máli og hvaðan ertu?

Sigurbjörg heiti ég Ágústsdóttir og kem frá Vestmannaeyjum. Ég ólst þar upp alla mína barnsæsku og var þar þangað til ég fór í háskólanám í Reykjavík. Hugur minn hallaðist strax að einhverju tengdu líkamanum og svo fór að ég valdi íþróttakennaranámið og tók nuddnám einnig eftir íþróttanámið. Þegar námi var lokið ílengdist ég í höfuðborginni enda hafði ég verið að vinna með skóla hjá World Class og langaði mest að vera þar áfram.

Hvað er best við Vestmannaeyjar þaðan sem þú er upprunnin?

Mér fannst frábært að alast upp úti á landi. Að búa í litlu samfélagi hefur marga kosti. Samheldnin er mikil og allir þekkja alla. Börn eru mjög frjáls og ekki háð skutli foreldra. Maður varð því fljótt sjálfstæður. Íþróttirnar voru aðal félagsstarfið og í íþrótthúsinu var ég meira og minna alla mína frítíma. Ég var í fimleikum í 10 ár en kom líka við í öðrum íþróttum, s.s. handbolta. Ég var líka mikið í sundi og hljóp og var í þolfimi en það var þá að byrja á fullu á þeim tíma.

Hver er besta bók sem þú hefur lesið og ertu að lesa eitthvað núna?

Þegar ég les, les ég efni tengt heilsu. Ég hef mikinn áhuga á öllu sem snýr að hreyfingu, mataræði og samskiptum fjölskyldunnar og vina.

Nefndu þrennt sem þú átt alltaf til í ísskápnum?

Í ísskápnum á ég alltaf til eitthvað grænmeti og ávexti til þess að gera drykk í blender og egg. Ég passa meira upp á að eiga mat sem þarf ekki endilega að vera í ísskáp en það er t.d avacado, hráefni í hrökkkex sem ég baka, möndlusmjör, hnetur og fræ að öllum gerðum svo og 70 % dökkt súkkulaði.

Hver er þinn uppáhaldsmatur?

Uppáhaldsmaturinn minn er lax og flott salat. Þegar ég hins vegar geri vel við mig þá finnst mér nautalund með góðu rauðvínsglasi ómótstæðilegt.

Við hvað starfar þú og hversu lengi hefur þú starfað í þessum geira?

Ég kenni opna hóptíma hjá World Class Laugum, kenni núna 3x í viku Tabata kl: 06:15 á morgnanna og hef gert í mörg ár. Þar fyrir utan er ég með einkaþjálfun en ég hef starfað við þjálfun síðan ég kláraði nám 1995 sem telur nokkur ár :-)

Hvernig heldur þú þér ferskri sem einkaþjálfari?

Til þess að endurnýjast og halda mér ferskri fer ég á öll námsskeið sem ég get sem tengjast heilsueflingu og mataræði. Ég kaupi líka nánast allar bækur sem tengjast heilbrigðum lífsstíl - Síðustu ár hefur orðið gríðarleg heilsuvakning og ekki erfitt að taka þátt í alls konar námsskeiðum og keppnum til þess að endurnærast og hafa gaman af því sem maður starfar við.

Hvað gerir þú þér til gamans annað en að lifa og hrærast í heilsuræktargeiranum?

Mér finnst best að eyða frítíma mínum með fjölskyldunni minni og vinum. Mér finnst gaman að fara út að borða, fara í leikhús, bíó, bjóða í mat, fara á skíði, hjólreiðatúr, fjallgöngu og þess háttar. Allt þetta finnst mér skemmtilegt.

Nú hefur þú keppt í fitness, hvernig var sú reynsla og hafa einhverjar aðrar íþróttir vakið áhuga þinn?

Það að keppa í fitness var mjög skemmtilega reynsla og eitthvað sem ég bý að lengi. Ég keppti tvisvar sinnum hér heima og einu sinni í USA. Ég er mikil keppnismanneskja þannig að allar íþróttir sem tengjast keppni finnst mér spennandi. Í æsku var ég bæði í einstaklingsíþrótt eins og fimleikunum og síðan í hópíþrótt sem handboltinn er. Hvoru tveggja er skemmtilegt. Það er gaman að spila með liði og vera hluti að liðsheild. Það er líka áskorun að hafa áhrif á liðsandann og draga það best fram hjá öllum.

Í einkaþjálfun hefur til dæmis færst í aukana að fóllk komi saman, frekar en að vera eitt hjá þjálfara. Það hefur mjög jákvæð áhrif, ákefðin á æfingunni eykst, samveran nærir félagslegu hliðina og það gerir þetta bæði árangursríkt og skemmtilegt.

Nú heldur þú þér i fínu formi, hvernig gerir þú það og hvað er það besta sem þú gerir eftir æfingu?

Til þess að halda mér í toppformi, æfi ég 4-6x í viku, fer eftir aðstæðum hverja viku. Ég hugsa æfingaplanið alltaf út frá vikunni. Ég lyfti lóðum og brenni og svo að sjálfsögðu spái ég mikið í hvað ég læt ofan í mig. Eftir æfingu finnst mér best að fá mér góðan grænan drykk. Nú er í uppáhaldi hjá mér er Fiber active hjá Joe&Juice en í honum er avacdo, safi úr sítrónu og epli. Síðan bið ég um að láta setja smá ferska myntu út í. Þessi drykkur stendur vel með manni inn í vinnudaginn.

Ef þú ætlar að „tríta“ þig sérlega vel hvað gerir þú?

Ef ég ætla að tríta mig þá bóka ég mig í nudd eða andlitsbað eða eitthvað þess háttar. Stundum ef ég þarf að vera extra dugleg í einhvern tíma, bóka ég nudd og nota það sem gulrót til þess að hvetja mig á þeim tíma sem ég þarf að vera dugleg. Það virkar mjög vel á mig. Toppurinn er auðvita að gera þetta með einhverjum öðrum, t.d manninum mínum, taka góða æfingu og fara saman í trít á eftir.

Hvað segir þú við sjálfa þig þegar þú þarft að takast á við stórt/erfitt verkefni?

Þegar mikið liggur við, er það dagbókin og skipulagið sem bjargar öllu. Skipulag er mitt stærsta og öflugasta verkfæri. Það er ótrúlegt hvað maður getur afkastað og staðið við það sem maður leggur upp með ef maður hefur skipulagt sig vel og gert raunhæfar áætlanir. Svo að sjálfsögðu passa ég svefninn, næringuna og að ala á jákvæðni - þá getur maður ótrúlegustu hluti.

Hvar sérð þú þig fyrir þér eftir 5 ár?

Eftir 5 ár sé ég mig starfa við það sem ég hef mestan áhuga á, heilsueflingu og bætt mig enn frekar sem fagmanneskju.