Skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi hefst á næsta ári
Nú hillir undir að unnt verði að hefja skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi í ársbyrjun 2018 enda hefur Krabbameinsfélagið lagt fram ítarlega aðgerðaráætlun um hana.
Ef aðstæður leyfa má gera ráð fyrir að prófun á framkvæmd skimunarinnar hefjist síðar á þessu ári.
Árlega greinast að meðaltali um 134 tilfelli af krabbameini í ristli og endaþarmi hér á landi, þar af 74 tilfelli hjá körlum og 60 tilfelli hjá konum. Krabbamein í ristli er þriðja algengasta krabbameinið hjá báðum kynjum. Meðalaldur við greiningu er 70 ár hjá báðum kynjum. Líkur á ristilkrabbameini aukast með vaxandi aldri en flestir sem greinast eru á aldrinum 60 ára og eldri (80%). Árlega deyja um 50 sjúklingar af völdum þessara krabbameina. Nýgengi ristilkrabbameins hefur farið vaxandi hjá körlum undanfarna hálfa öld en litlar breytingar hafa orðið á nýgengi meðal kvenna á sama tíma. Minni breytingar hafa orðið á dánartíðni sjúkdómsins.
Undirbúningur skimunar fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi hefur staðið yfir undanfarin tvö ár. Þann 10. júní 2015 fór velferðarráðuneytið þess formlega á leit að Krabbameinsfélag Íslands legði fram tillögur að undirbúningi hópleitar að krabbameini í ristli og endaþarmi, kostnaðargreiningu, boðunar- og innköllunarkerfi, skráningu leitarsögu og greindra krabbameina hjá Krabbameinsskrá, skipulagi aðgerða til að tryggja þátttökuhlutfall og fræðslu til almennings. Jafnframt fól ráðuneytið Embætti landlæknis að skilgreina markhóp og þær aðferðir sem nota skyldi við hóprannsóknina og skyldu tillögur Krabbameinsfélagsins taka mið af því.
Landlæknir hefur mælt með því að hafin verði skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi í aldurshópum 60–69 ára með því að leita að blóði í hægðum annað hvert ár (FIT-próf) hjá þeim sem eru án einkenna frá meltingarvegi . Einnig verði ristilspeglun gerð hjá þeim sem greinast með blóð í hægðum. Ef vel gengur kemur til álita að útvíkka markhópinn fyrir skimun til aldurshópsins á bilinu 50– 74 ára.
Landlæknir