SKIPTIR RÆKTUNIN MÁLI? - Guðni með hugleiðingu dagsins
Lífræn ræktun fer fram í eðlilegu og náttúrulegu umhverfi þar sem plönturnar fá næringuna beint úr jarðveginum og vatn og sólarljós beint úr umhverfinu. Engar ónátt- úrulegar viðbætur eru notaðar til að örva vöxtinn og borin er virðing fyrir eðlilegu vaxtartímabili plöntunnar.
Í stuttu máli má segja að lífræn ræktun snúist um eðlilegt samhengi og réttan takt plantnanna við náttúrulegt umhverfi sitt. Flestir eða allir sem stunda lífræna ræktun hafa kynnt sér í þaula eðlileg ferli plantnanna og nálgast allan sinn rekstur á forsendum sjálfbærni og hreinleika. Þessar hugsjónir skila sér alla leið í plönturnar sjálfar.
Í hefðbundinni ræktun er öll framvinda pínd áfram, enda ráða þar ferðinni hagkvæmni- og gróðasjónarmið. Ljósi er þrýst inn í plönturnar, vatninu er dælt inn og því stjórnað. Oft á tíðum snerta plönturnar aldrei jörðina heldur eru þær látnar vaxa í tilbúnu umhverfi. Vöxturinn er örvaður með tilbúnum áburði og framvindan vernduð með skordýraeitri. Hefðbundin ræktun snýst um að hraða sem mest á ferlinu til að geta framleitt sem mest á sem stystum tíma. Að sama skapi er ýmsum brögðum beitt til að lengja líftíma ávaxta og grænmetis í hillum verslana.
Við erum að ganga nærri jarðvegi náttúrunnar. Hann hættir að geta gefið af sér, píndur og viðbættur svo lengi og svo mikið að hann glatar eiginleikum sínum. Nákvæmlega það sama gildir um líkamann. Hann hættir að ráða við að vinna úr tilvist okkar og líkaminn sem jarðvegur verður svo rýr að hann getur ekki viðhaldið heilsunni. Þetta breytist ekki fyrr en við lærum að líta á líffæri okkar og frumur sem okkar jarðveg, okkar jurtir – fyrr en við tökum ábyrgð á því hvernig við ræktum okkar eigin flóru.