Um skort á sönnunum fyrir virkni lithimnugreininga og ilmkjarnaolíumeðferða
Athugasemdir við ófullægjandi og einhliða svör um óhefðbundnar meðferðir.
Heilsumeistaraskólinn (HMS), selur þriggja ára nám í náttúrulækningum. Augngreiningafræði (þar með talið lithimnugreining) og ilmkjarnaolíufræði eru, ef marka má heimasíðu skólans, tvær af meginstoðum þess sem kennt er þar.
Vefurinn spyr.is veitir þá einföldu og þörfu en jafnframt vandasömu þjónustu að hjálpa lesendum sínum við að afla svara við hverju sem þeim liggur á hjarta. Nýlega fjárfesti norsk-íslenski milljarðamæringurinn Jon Stephenson von Tetzchner í stórum hlut í fyrirtækinu sem rekur vefinn. Á þessum vef var Lilja Oddsdóttir, kennari og einn forstöðumanna HMS, nýlega fengin til þess að svara tveimur spurningum um áðurnefndar aðferðir.
Það er stórmerkilegt og verulega aðfinnsluvert, að vefur sem vill án efa láta taka sig alvarlega sem þjónustufjölmiðill skuli leyfa sér að birta gagrýnislaust, léleg og einhliða svör, um svo mikilvæg efni, frá manneskju sem hefur lifibrauð sitt af því að vera hlutdræg um efnið.
Fyrri spurningin
sem Lilja svarar er: “Hefur virkni lithimnugreiningar verið vísindalega sönnuð?”‘
Svar hennar:
Mér finnst áhugavert að útskýra fyrir fólki sem hefur áhuga hvað augngreining snýst um í raun, (sem er að hjálpa fólki að bæta heilsuna) hún er ekki greiningartæki en mjög áhugaverð leið til að skoða veikleika og styrkleika fólks.
Ég bendi á þennan link á heimasíðu náttúrulæknisins Leonard Mehmauer sem almennar uppýsingar en Leonard hefur margoft komið til Íslands að kenna og stundar rannsóknir á því hvernig sjá megi merki um blóðsykursójafnvægi ( of tengt sykursýki ) í hvítum augans.
Lithimnugreining er ein af þeim greinum óhefðbundinna lækninga sem hefur verið mjög rækilega afsönnuð og það meira að segja vísindalega! Aðferðin á uppruna sinn í hugarburði eins manns í lok 19. aldar. Einfaldlega þá trúa þeir sem stunda þessi fræði að lesa megi upplýsingar um ástand og horfur líkamans út úr merkjum sem sögð eru koma og fara í lithimnu augans.
Til er fjöldi almennilega gerðra rannsókna sem sýna fram á fullkomið gagnsleysi augngreiningaaðferða, sérstaklega lithimnugreiningar. Meðal annars hafa frægir lithimnugreinendur verið látnir reyna sig við að greina alvöru sjúkdóma svo sem krabbamein, nýrna- og gallblöðrusjúkdóm undir eftirliti en árangurinn hefur í hvert skipti verið álíka nákvæmur og ef teningi hefði verið kastað.
Lilja svarar ekki spurningunni um hvort lithimnugreining sé vísindalega staðfest heldur snýr út úr og segir að augngreining sé “ekki greiningartæki”. Þarna slysast hún reyndar sjálf til þess að svara upphaflegu spurningunni neitandi. En hvað er lithimnugreining þá? Sjálf spurningin var reyndar ekki um hvítugreiningu, sem er náskyld og jafn ónýt, en Lilja talar um að sú aðferð geti greint sykurójafnvægi samkvæmt kennaranum og fræðimanninum Leonard Mehlmauer sem Lilja vitnar í með tilburðum. Ekkert er hægt að finna við nokkuð ítarlega leit, sem styður þessa fullyrðingu og rannsóknir herra Leonard Mehlmauers virðast ekki vera birtar neinsstaðar, allavega ekki þar sem venjulega er að finna vísindalegar greinar um bæði hefðbundnar og óhefðbundnar aðferðir. Ekki er heldur neitt að finna á þeirri heimasíðu hans sem Lilja vitnar til, svari sínu til stuðnings. Kannski Lilja eigi afrit af fræðigreinum kennara síns til þess að sýna okkur? Við getum birt þær hér.
Nei, staðreyndin er að hvítugreining er jafn ónýt og lithimnugreining. Lilja og herra Mehlmauer hafa greinilega ekki dug í sér til þess að kyngja sannleikanum og leggja þessa vitleysu til hliðar heldur sperrast við að upphefja augngreiningafræðin í einhverja enn þokukenndari greiningu á “veikleikum og styrkleikum fólks” svo vitnað sé í svar Lilju. Það er alls ekki það sem aðferðafræði augngreininga venjulega er auglýst sem. Þarna er verið að klóra all örvæntingarfullt í bakkann. Kannski er það vegna þess að Lilja á allt sitt undir því að nemendur hennar við HMS trúi á fræðin og haldi áfram að borga skólagjöldin og koma og hlýða á fræði herra Mehlmauers.
Til frekari stuðnings ofansögðu nægir hér að benda á gagnorða grein með ítartilvitnunum á Wikipedia. Þar segir m.a. :
Well-controlled scientific evaluation of iridology has shown entirely negative results, with all rigorous double blind tests failing to find any statistical significance to its claims.
Lausleg þýðing mín:
Gagnreynt vísindalegt mat á lithimnugreiningu hefur leitt í ljós algerlega neikvæðar niðurstöður og vandaðar tvíblindar rannsóknir hafa ekki getað fundið nokkrar tækar sannanir fyrir fullyrðingum um virkni.
Augngreiningar, þar með talin lithimnugreining er sem sagt án nokkurs vafa eintóm vitleysa. Þeir sem selja slíka þjónustu eða kenna slíkt ættu að vita betur og það er góð spurning hvort einhver lögin nái ekki yfir slíka iðju? T.d. Lög um þjónustukaup (2. kafli, 14.gr. ) eða jafnvel Almenn hegningarlög (248. gr eða 253. gr.).
Seinni spurningin
Lilja svarar í sömu lotu spurningunni: “Hefur virkni og öryggi ilmolía sem þið kennið notkun á verið vísindalega sönnuð?”
Svar hennar (nákvæmlega afritað):
“Það sama má segja um spurninguna um kjarnaolíur.
Kjarnaolíurnar sem við í Heilsumeistaraskólanum notum eru hrein náttúruefni (Young Living therapeutic grade- sem tryggir hreinleika og gæði (fundið með mörgum, flóknum og fjölþættum vísindalegum rannsóknum)) og samkvæmt mörgum rannsóknum á eiginleikum þeira geta þær haft fjölmörg jákvæð áhrif á starfsemi og líðan.
Það er hægt að koma og fá nánari upplýsingar um Olíurnar í Olíulindinni Vegmúla 2 og á heimsasíðu Young Living, sömuleiðis má finna margar rannsóknir á vefnum um virkni kjarnaolía.”
Þarna tekst Lilju meira að segja að lauma inn ókeypis auglýsingu fyrir vöruna!
Ilmkjarnaolíumeðferðir er öllu alvarlegra mál en lithimnugreiningin. Þarna er verið að selja og nota efni í meðferðarskyni, sem geta í sjaldgæfum tilvikum gefið skaðleg áhrif (ofnæmi, húðerting, eitrun, hormónvirkni o.fl.) en engar trúverðugar sannanir eru til um gagnsemi þeirra, þvert ofan í fullyrðingar Lilju um margar rannsóknir.
Ítarlegar er fjallað um ilmkjaraolíur annars staðar á þessum vef. (Fært héðan og endurbætt).
Sannleikurinn
Hinn ljóti sannleikur er sá að ilmolíurnar eru framleiddar, auglýstar og seldar fyrst og fremst í gróðaskyni. Lilja Oddsdóttir vitnar í Young Living fyrirtækið sem framleiðir vörunnar sem hún auglýsir og kennir notkun á. Maðurinn á bak við það fyrirtæki, herra D. GaryYoung, er vægast sagt umdeildur og orðspor hans ófagurt. Hann græðir vel á því að framleiða efnin, predíka fyrir sértrúarsöfnuðinum sem safnast hefur kringum trúna á hans fræði, halda úti miklum lygavef um ágæti efnanna og selja þau í gegnum marglaga sölupýramíða. Hversu trúaðir sem sölumennirnir neðar í pýramídanum eru á dásemdir og mátt þessara efna þá er verknaðurinn, að selja vöru með röngum upplýsingum um notagildi og gagnsemi, jafn slæmur. Eina nafnið sem ég get ímyndað mér að réttilega lýsi ilmolíubaróninum sjálfum er Loddari, með stóru L-i. Hvaða titil má þá nota um þá trúgjörnu sem aðstoða hann við að auglýsa og selja vöruna? Græskulausir loddarar kannski.
Að lokum
Óhefðbundnar lækningar halda einmitt áfram að vera óhefðbundnar þangað til þær sanna sig. Eftir það verða þær, eðli málsins samkvæmt hefðbundnar og hægt að nota við sjúkdómum án þeirra tilfæringa, ósanninda og særinga sem þarf til þess að ná fram áhrifunum sem yfirleitt eru kölluð lyfleysuáhrifin “placebo”.
Lyfleysuáhrifin byggja í mjög einfölduðu máli á trú og öryggistilfinningu viðtakandans. Til þess að ná þeim fram þá gefa (óhefðbundu) meðferðaraðilarnir sér góðan tíma til að leyfa viðfangsefninu að segja frá vandræðum sínum, fullyrða að þeir viti hvað er að og gefa greiningu og meira að segja meðal eða meðferð. Oftar en ekki nota þeir eitthvað töfrabragð eins og lithimnugreiningu eða maskínu til að láta líta svo út sem það seu vísindi á bakvið. Þeir nota fín og spennandi orð eins og “lífsorkusvið”, “streituvakaflæði” og jafnvel gervivísindaleg svakahugtök eins og “Quantum” og “tíðni”.
Viðfangsefnið fer heim með þægilega öryggiskennd, nafn á vandamálinu og lausn.
Ef við læknar gætum veitt slíka aukaþjónustu í hvert skipti sem einhver kemur til okkar með öll sín lífsvandamál. Þá væri nú virkilega gaman að lifa (fyrir okkur, ekki náttúrulæknana).
En… við getum ekki nærri því alltaf gefið sjúklingunum okkar hvorki von né meðul. Okkur skortir oftast tíma og ró og við getum ekki fyllt herbergið af ilmi og kertaljósum því þá mundu ofnæmissjúklingar fá kast og hætt væri við að kviknaði í sótthreinsunarspíranum.
Lögin um græðara áttu að auðvelda eftirlit með starfsemi óhefðbundinna meðferðaraðila en hafa í raun snúist upp í andhverfu sína og auðvelda þeim sölumennskuna þar sem þau draga mjög úr möguleikunum á að taka á vafasamri og jafnvel svikulli starfsemi.
Það væri nær að bæta aðstæður og styrkja alvöru heilbrigðiskerfið heldur en að láta það við gangast að haft sé fé af fólki með því að þykjast lækna og líkna.
Með virðingu
Björn Geir Leifsson
Undirritaður er læknir sem hefur kynnt sér þessi mál í þaula. Meðal annars vegna þess að margir sjúklingar hans hafa orðið fórnarlömb heilsuloddara.
Heimildir: upplyst.org