Fara í efni

Skyndibitamenningin kynnir nýjungar

Í júlí síðastliðnum birtist grein á Heilsutorgi sem bar nafnið „Skyndibitinn er kominn til að vera – gott eða slæmt“ http://www.heilsutorg.com/is/moya/search/index/search?q=Skyndibitinn+ Síðan þá hafa um 6200 lesið eða gluggað í greinina á Heilsutorgi og yfir 4780 á Facebook, þetta eru ótrúlegar tölur en sannar.
Skyndibitinn er sannarlega ekki alslæmur
Skyndibitinn er sannarlega ekki alslæmur
 

Í júlí síðastliðnum birtist grein á Heilsutorgi sem bar nafnið „Skyndibitinn er kominn til að vera – gott eða slæmt“ Lesa má þessa grein HÉR.

Síðan þá hafa um 6200 lesið eða gluggað í greinina á Heilsutorgi og yfir 4780 á Facebook, þetta eru ótrúlegar tölur en sannar. 

Gríðarleg sala á skyndibita

Þessar tölur gefa til kynna að margir hafa áhuga á málefninu sem kannski tengist því að Íslendingar borða yfir höfuð mikinn skyndibita enda úrvalið fjölbreytt auk þess sem auglýsingar eru mjög áberandi. Það eru samt ekki aðeins Íslendingar sem borða mikinn skyndibita hérlendis, í frétt sem birtist meðal annars í Morgunblaðinu ( sjá hér ) kemur fram að erlendir ferðamenn snæddu skyndibita fyrir meira en 1.8 milljarð króna á síðasta ári! Hvað þýðir þetta? Er þetta staðfesting á því að skyndibitinn sé ódýr hér á landi? Um það skal ekki sagt hér en líklega hefur þetta eitthvað með það að gera að almennt þykir mörgum skyndibitamatur mjög bragðgóður, í öðru lagi má segja að skyndibitinn er hluti af menningu yngri aldurshópanna, skyndibitinn getur verið mjög til þæginda auka í hinu hraða samfélagi sem við búum í og síðast en ekki síst er skyndibitinn mjög áberandi í auglýsingum.
 
Er hollustu að finna þar inn á milli ?
 
Skyndibitinn er þó eins misjafn eins og staðirnir eru margir, allt frá mikið steiktum og unnum mat yfir í hollustu úr brakandi fersku hráefni – jafnvel íslensku. Þetta þýðir mikinn mun á hollustu en einnig verði sem hefur áhrif á marga hópa sér í lagi yngri kynslóðin og aðra sem hafa lítið á milli handanna þegar mánaðarmót nálgast. 
 
Hér á eftir verður ekki fjallað um verð og auglýsingar en aðallega bent á að innan um og saman við er hægt að finna hollan skyndibita. Í þessari grein er einnig markmiðið að kafa aðeins dýpra og sjá hvort að eitthvað sem við getum flokkað sem heilsusamlegt og næringarrík leynist í íslenskri skyndibitaflóru.
 
Brautryðjandi á ýmsum sviðum
 
Sjálfsagt sýnist sitt hverjum en það er alveg óhætt í þessu samhengi að hampa einum skyndibitastað öðrum fremur, en það er Nings. Það má gera á þeim forsendum að Nings er sannarlega fyrsti staðurinn á skyndibitamarkaðnum til að kynna til sögunnar hollari kolvetnagjafa eins og hýðishrísgrjón, bygg, tröllahafra og rauð hrísgrjón. Einnig voru þeir með þeim fyrstu til að birta upplýsingar um næringargildi þeirra rétta sem þar eru í boði
 
Á sínum tíma hefur Nings líklega verið fyrsti staðurinn þar sem margir smökkuð hýðishrísgrjón í fyrsta sinn og sama má segja um bygg og rauð hrísgrjón. Nings býður auk þessa upp á grænmetisríka rétti svo og fisk og skelfisk sem er ekki það algengasta á skyndibitamarkaðnum. 
 
Bókhveitinúðlur eru einnig í boði en slíkar núðlur, ásamt hrísgrjónanúðlum (rísnúðlum) hentar þeim sem eru með glútenóþol. Fyrir þá sem aðhyllast grænmetisfæði þá er til dæmis tófú í boði sem veitir ágæta uppsprettu próteina.
 
Skipir þetta einhverju
 
Hvert er annars gildi þess að borða hýðishrísgrjón (brún grjón) frekar en þau hvítu? Skiptir það einhverju máli þegar á heildina er litið? Til er einfalt svar við þessu. Já það skipir máli, allt skiptir máli. Við viljum borða meira af fæðutegundum sem innihalda sín upphaflegu næringarefni og það á við um hýðishrísgrjónin en þau innihalda trefjarnar, vítamínin og steinefnin sem búið er að fjarlægja þegar fæðutegundin heitir „hvít hrísgrjón“. 
 
Skipta trefjar, vítamín og steinefni einhverju ? Já þau gera það, trefjar eru mikilvægar fyrir meltinguna og einnig fyrir blóðsykurstjórnun en trefjar í fæðu hægja á upptöku kolvetna inn í blóðrásina en það gefur jafnari og meira langvarandi orku. Trefjar í fæði Íslendinga eru af skornum skammti hjá allt of mörgum þrátt fyrir töluverða fræðslu um heilnæmi þeirra og virkni. Vítamín og steinefni ættu að berast líkamanum gegnum neyslu á heilnæmri og fjölbreyttri fæðu sem inniheldur ríkulegt magn af grænmeti og ávöxtum, heilu korni, baunum, fræjum, hnetum og möndlum í bland við fisk, kjöt, egg og mjólkurvörur.
 
Sama má heimfæra upp á heila hafra og haframjöl þar sem ekkert er tekið burtu og engu bætt við. Grófleikinn er nokkuð misjafn en það byggir á mölunaraðferðinni sem breytir ekki hollustunni. Hafrar innihalda trefjar (10,6 g / 100 g), svokallaðar beta-glúkan trefjar sem sýnt hefur verið fram á að hafi jákvæð áhrif til lækkunar á kólesteróli, á insúlínviðám líkamans og blóðsykurvísi fæðutegunda sem þeim er bætt í. Hafrar innihalda hæsta hlutfall vatnsleysanlegra trefja af öllum korntegundum en slíkar trefjar hafa mjög góð áhrif á meltinguna og gefa góða mettunartilfinningu. Hafraprótein eru af góðum gæðum og ber saman við sojaprótein. 
 
Bygg, stundum kallað bankabygg, er korntegund sem inniheldur glúten eins og hveiti, speldi (spelt) og rúgur. Það er tiltölulega nýtt í íslensku mataræði og eitt sem það hefur fram yfir hafrana og hýðishrísgrjónin er að við Íslendingar getur ræktað það sjálf. Heilt bygg inniheldur trefjar (15,6 g / 100 g) og er það ma. betaglúkan. Kímið sem er prótein- og næringarríkt, er einnig til staðar svo og vítamín og steinefni. Nota má bygg eitt og sér á sama hátt og hýðishrísgrjón en einnig í grauta og ýmiskonar rétti, svo og í brauðbakstur. Rannsóknir hafa sýnt fram á að samanborið við máltíð með hveiti þá var blóðsykurstjórnun betri þegar bygg var borðað. Einnig að neysla á byggi getur lækkað blóðþrýsting, LDL (slæma) kólesterólið og þríglýseríð en veldur ekki lækkun á HDL (góða) kólesterólinu.
 
Rauð hrísgrjón eru einnig á listanum yfir heilsusamlegt hráefni sem hér verður til umfjöllunar. Rauð hrísgrjón eru rauðleit eins og nafnið ber með sér, þau hafa nokkurskonar hnetubragð og eru heilsusamleg þar sem hýði þeirra er sjaldnast fjarlægt. Því heldur grjónið næringarefnum sínum þar á meðal kíminu og trefjunum. Einnig svokölluðu anthocyanin sem einnig er að finna í t.d. bláberjum, trönuberjum og sumum hindberjategundum. Anthocyanin er öflugt andoxunarefni sem gott er að fá úr fjölbreyttri fæðu í einhverju magni til að efla varnir líkamans en ekki hefur þó verið sýnt fram á að efnið geti dregið úr líkum á krabbameini. 
 
Að lokum er það grænmetið og fiskfangið að ógleymdum ávöxtum sem setur punktinn yfir i-ið þegar snýr að hollustu matseðils sem matsölustaðir og skyndibitastaðir bjóða upp á.
 
Við sem neytendur höfum þó síðasta orðið hér. Veljum við hollustuna oftar en það sem óhollara getur talist, eða segjum við alltaf við sjálf okkur, „ég fæ mér hollustuna næst“ ?
 
Fríða Rún Þórðardóttir
Næringarfræðingur, næringarráðgjafi, íþróttanæringarfræðingur