Skyndihjálp við bráðaofnæmi
Á heimasíðunni skyndihjalp.is má finna einfaldar leiðbeiningar um skyndihjálp auk þess sem Rauði krossinn hefur gefið út skyndihjálparapp.
Í appinu má nálgast allar helstu upplýsingar um skyndihjálp, prófa þekkingu sína í fræðunum á gagnvirkan hátt, skoða myndbönd og ef um neyðarástand er að ræða er hægt að hringja beint í Neyðarlínuna úr því.
Rauði krossinn býður upp á vönduð og hagnýt námskeið í skyndihjálp víða um landið, sem sniðin eru að þörfum hópa, s.s. almennings, fagaðila og fyrirtækjastarfsmanna, bæði hvað varðar lengd og efnistök.
Ofnæmi/bráðaofnæmi
Talað er um ofnæmi þegar líkaminn bregst harkalega við tilteknum efnum sem hann kemst í snertingu við. Algengar ástæður fyrir ofnæmi eru frjókorn, bit og stungur, latex og ýmsar fæðutegundir eins og egg, skelfiskur hnetur og mjólkurafurðir. Aðrir hlutir svo sem latex, bit vespa eða býflugna og sum lyf geta einnig kallað fram ofnæmisviðbrögð.
Viðbrögðin geta verið mjög mismunandi. Efni sem flestum eru skaðlaus geta valdið óeðlilegum viðbrögðum hjá sumum og efni sem valda vægum ónotum hjá einum geta verið lífshættuleg fyrir einhvern annan.
Húð, augu, öndunarvegur og meltingarvegur komast oft í snertingu við efni sem eiga upptök sín utan líkamans. Þessir líkamshlutar eru því sérlega viðkvæmir fyrir staðbundnum ofnæmisviðbrögðum.
Dæmi um ofnæmisviðbrögð eru ofsakláði, ofnæmisútbrot (exem) og sumar tegundir astma. Yfirleitt bregst líkaminn við ofnæmisvöldum á svipaðan hátt en stundum geta einkennin verið mjög alvarleg, svo sem miklir öndunarörðugleikar, bólga í hálsi eða svokallað bráðaofnæmi og þá þarf að bregðast strax við. Bráðaofnæmislost eru alvarleg ofnæmisviðbrögð sem leiða til þess að einstaklingur á erfitt með að anda, púlsinn verið hraður en veikur, blóðþrýstingur lækkar og meðvitundin skerðist.
Einkenni
- Ofsakláði.
- Útbrot, upphleypt rauðleit eða hvítskellótt húð.
- Bólgur (á tungu, í koki, á höndum eða fótum).
- Sljóleiki.
- Uppnám.
- Óþægindin hverfa ekki á nokkrum mínútum.
- Öndunarerfiðleikar, andnauð.
- Bráðaofnæmislost.
- Köfnunartilfinning.
- Meðvitundarleysi.
Skyndihjálp
Komir þú til hjálpar skaltu gera eftirfarandi: Ef þú telur að um bráðaofnæmi sé að ræða skaltu hringja strax í Neyðarlínuna 112.
- Alltaf skal hringja eftir hjálp ef um bráðaofnæmi er að ræða. Ef þú veist að sjúklingurinn hefur áður sýnt ofnæmisviðbrögð skaltu taka það fram í samtalinu við Neyðarvörðinn.
- Fjarlægðu ofnæmisvaldinn: Skolaðu munninn strax ef um er að ræða mat, taktu brodd geitungs úr húðinni ef um slíkt ofnæmi er að ræða osfrv.
- Hjálpaðu sjúklingnum að taka þau lyf sem hann á og hefur verið ávísað á hann af lækni. Gættu þess að skammturinn sé réttur. Gefðu aldrei lyf að eigin frumkvæði.
- Ef einstaklingurinn er með bráðaofnæmi (öndunarerfiðleika, lost eða skerta meðvitund) og á sinn eigin adrenalínpenna, ávísað af lækni, máttu aðstoða hann við að nota pennann. Það á ekki við í öllum tilfellum ofnæmis að nota adrenalínpenna.
- Hughreystu einstaklinginn á meðan beðið er eftir sjúkrabílnum.
Gunnhildur Sveinsdóttir, verkefnastjóri hjá Rauða krossinum, tók saman.