Sótthiti barna – Hvenær er hætta á ferðum?
Hvers ber að gæta?
Hitastillir ungra barna er ekki fullþroskaður. Þetta þýðir að hitastig þeirra getur sveiflast upp og niður. Það þýðir einnig að hitastig barnsins verður fyrir áhrifum af innra og ytra umhverfi. Ef mjög heitt er í veðri er ráðlegt að vera á varðbergi og hafa barnið léttklætt, svo að það ofhitni ekki. Aftur á móti ef kalt er verður að halda á því hita með hlýjum klæðnaði.
Hvaða hitastig er barninu eðlilegt?
Ef hitinn er mældur í endaþarminum er eðlilegt hitastig milli 36,5 -38 gráður á selsíus.
Ef notaður er munnmælir er hitastigið u.þ.b. 0,5 gráðum lægra og það sama á við ef mælt er í eyranu.
Hitamæling í handarkrika er ekki nákvæm og nálægt 1 gráðu lægri en hitamæling í endaþarmi. Rannsóknir gefa til kynna að mest sé að marka endaþarmsmælingu – aðrir nota eyrnamæla þótt þeir séu vandmeðfarnari, sérstaklega þegar um smábörn er að ræða, og erfitt er að hitta á réttan stað. Ekki á að að mæla eyra barns sem legið hefur á heitum púða eða ef það er nýkomið inn úr kulda. Helst eiga að líða 10-15 mínútur áður en eyrnamæling er marktæk.
Hvernig mælir þú hitastig barnsins?
Hefðbundin endaþarmsmæling er nákvæmust. Hún hentar best fyrir börn undir þriggja ára aldri. Bæði má nota kvikasilfursmæla og stafræna mæla.
Ef notaður er kvikasilfursmælir verður að muna að slá honum niður fyrir 36 gráður, áður en mælt er. Ef barnið er yngra en 3 ára er ráðlegt að leggja það á magann á kné sér svo að þú hafir gott tak á því og sjáir vel hvað þú ert að gera. Örlítið vaselín er borið á mælinn og honum stungið varlega 1 1/2 sm inn í endaþarm barnsins. Honum er haldið kyrrum í 2 mínútur ef um kvikasilfursmæli er að ræða. Stafrænn mælir sýnir hitastigið eftir u.þ.b. 30 sekúndur og gefur frá sér hljóðmerki þegar hann er tilbúinn.
Ennismælar (renningar) hafa náð talsverðum vinsældum en þeir eru ekki sérlega nákvæmir eða áreiðanlegir og því ekki mælt með þeim.
Eyrnamæling er alveg nothæf mæliaðferð ef vilji er til að borga fyrir tækið. Eyrnamæling er fljótleg. Hún nýtur meiri vinsælda hjá eldri börnum en endaþarmsmæling. Eyrnamælirinn sýnir hitastigið eftir augnablik. Hitastigið er 0,5 gráðum lægra en endaþarmsmæling sýnir. Gæta skal þess að á mælinum eru nokkrar stillingar og að sjálfsögðu verður að vera stillt á barnastillinguna. Eyrnamælinn verður líka að nota rétt til að mark sé takandi á mælingunni. Lestu því leiðarvísinn vel áður en þú byrjar. Algengasta ástæða rangrar mælingar er að ekki er verið að mæla hitastig hljóðhimnunnar eins og á að gera, heldur einhvers staðar í eyrnagöngunum. Til að mæla rétt þarf að teygja eyrað aðeins upp á við meðan mælt er. Þannig er rétt aðeins úr s-laga eyrnagangi barnsins til að mæla hljóðhimnuna. Mælt er með að tilsögn sé fengin um notkun mælisins þar sem hann er keyptur.
Einnig má mæla hitastigið undir tungunni. Ekki er mælt með því fyrir lítil börn þar sem þau geta fundið upp á að bíta mælinn í sundur og slasa sig. Munnmælinum er stungið undir tunguna í 2-3 mínútur. Hann sýnir 0,5 gráðum lægri hita en endaþarmsmælirinn. Athugið að munnmæling er ekki áreiðanleg fyrstu 10 mínúturnar eftir að heitra eða kaldra rétta eða drykkja hefur verið neytt.
Loks má nefna handarkrikamælingu. Hún er ekki ráðlögð fyrir smábörn þar eð þau eiga erfitt með að liggja kyrr svo lengi og geta slasað sig á mælinum ef þau eru á of miklu iði. Mælinn á leggja djúpt i handarkrikann í 10 mínútur. Hitastigið sýnir 1 gráðu lægra en endaþarmsmæling.
Hvers vegna fær barnið sótthita?
Sótthiti eru varnarviðbrögð líkamans gegn veiru- eða bakteríusýkingu. Breyting á hitastigi líkamans hefur áhrif á vöxt baktería og veira, þetta er því ein af varnarleiðum líkamans gegn sýklum.
Hvernig bregstu við ef barnið fær hita?
Barnið þarf meiri vökva en vant er svo að það þarf mikið að drekka enda brennir það meiru og svitnar meira með háan hita. Gefðu barninu oft að drekka en lítið í einu. Aðeins eina teskeið í einu, ef þörf krefur. Ef barnið drekkur vel gerir ekki svo mikið til þótt það sé lystarlaust í nokkra daga.
Ef barnið er með háan hita þarf það líka að geta hvílst vel og sofið. Það þarf ekki að liggja grafkyrrt í rúminu ef það er nógu frískt til að leika sér en það á að eiga kost á að leggja sig.
Stundum er gripið til kælingar til að lækka hitann en áður verður að gefa hitalækkandi lyf. Ef hitinn er hár getur verið nóg að klæða barnið eingöngu í nærföt eða bleiu svo að það losni frekar um hitann. Gætið þess einnig að ekki sé of heitt í herbergi barnsins. Þar má gjarnan vera frekar svalt en ekki gegnumtrekkur.
Hitann á EKKI að svita út. Ef barnið er með kuldahroll meðan hitinn hækkar má það að sjálfsögðu fá sæng eða teppi yfir sig en þegar hitinn er kominn í jafnvægi og barnið er farið að svitna á að kæla það.
Ef þú vilt ná hitanum niður með lyfjagjöf er nauðsynlegt að hafa samráð við lækni. Hann ráðleggur hvað má gefa börnum og hversu mikið. Lyfjaskammtur ræðst bæði af aldri og þyngd.
Veik börn eru oft þreytt og ergileg. Þau sofa mikið og þegar þau eru vakandi vilja þau stöðugt hafa foreldra sína hjá sér. Þau geta verið rellin og lítil í sér. Það er í fínu lagi að sýna þeim blíðu og dekra svolítið við þau meðan þau eru lasin. Lesið fyrir þau, leikið við þau og verið hjá þeim. Þetta er ekki rétti tíminn til stífra uppeldisaðgerða. Börn jafna sig yfirleitt fljótt á veikindum og verða eins og þau eiga að sér.
Hvenær er hætta á ferðum?
Fylgstu náið með barninu og beittu heilbrigðri skynsemi. Virðist barnið máttfarið? Virðist það veikt? Er það öðruvísi en það á að sér? Ef sú er raunin áttu að hafa samband við lækni.
- Ef barnið er undir þriggja mánaða og fær hita yfir 38° ber að hafa samband við lækni.
- Ef barnið grætur látlaust og er óhuggandi og erfitt að vekja það á að hafa samband við lækni.
- Sótthita yfir 38,5° í meira en þrjá daga þarf að athuga.
Ef barnið hefur auk hitans einkenni, sem lýst er hér að neðan, skaltu hafa samband við lækni:
- stífur hnakki
- ofskynjanir
- rauð útbrot
- öndunarörðugleikar
- krampi
- langvarandi uppköst eða niðurgangur
- langvarandi hálsbólga
- sviði við þvaglát eða ör þvaglát
- aðrir sjúkdómar eða ef barnið hefur nýlega gengist undið skurðaðgerð