Staðfest mislingasmit - Einstaklingur með smitandi mislinga kom til Íslands frá Filippseyjum 14. febrúar síðastliðinn
Einstaklingur með smitandi mislinga kom til Íslands frá Filippseyjum 14. febrúar síðastliðinn en hann ferðaðist með vélum Icelandair (FI455) frá London til Keflavíkur og síðan Air Iceland Connect (NY356) frá Reykjavík til Egilsstaða 15. febrúar síðastliðinn.
Icelandair og Air Iceland Connect, í samvinnu við sóttvarnalækni, hafa sent farþegum ofangreindra véla nauðsynlegar upplýsingar og leiðbeiningar. Einnig hefur verið haft samband við þá sem hann hefur umgengst þessa daga eftir komuna til landsins og upplýsingum miðlað til heilbrigðisstofnana með áherslu á starfsmenn heilsugæslunnar.
Í þessum leiðbeiningum eru farþegar hvattir til að leita til sinna lækna fram til 7. mars nk. finni þeir fyrir einkennum sem geta bent til mislinga, sérstaklega ef þeir eru óbólusettir.
Einstaklingur er smitandi einungis eftir að einkenni koma fram og er smitandi í 7−10 daga. Einkenni mislinga koma yfirleitt fram 10–14 dögum eftir smit en að hámarki geta liðið 3 vikur.
Þeir einstaklingar sem hafa verið bólusettir eða hafa fengið mislinga þurfa ekki frekari bólusetningu en þeir sem ekki hafa verið bólusettir og ekki fengið mislinga geta fengið bólusetningu innan 6 daga frá hugsanlegu smiti. Eftir þann tíma er ólíklegt að bólusetning komi í veg fyrir sýkingu. Bólusetningu er hægt að fá á heilsugæslustöðvum.
Sóttvarnalæknir telur litlar líkur á útbreiddum faraldri hér á landi sé gætt að og farið eftir ofangreindum leiðbeiningum enda er almenningur á Íslandi ágætlega bólusettur gegn mislingum.
Sjá nánar:
- Almennt um mislinga Opnast í nýjum glugga
- Almennar bólusetningar barna Opnast í nýjum glugga
- Sjúkdómar sem bólusett er fyrir í almennum bólusetningum á Íslandi Opnast í nýjum glugga
- Farsóttafréttir. Október 2018 (m.a. fjallað um mislinga um borð í flugvélum)
Sóttvarnalæknir