Fara í efni

Stattu með taugakerfinu - skrifaðu undir

Mænuskaðastofnun Íslands, SEM samtök endurhæfðra mænuskaddaðra, MS-félagið, MND félag Íslands, Lauf félag flogaveikra, Heilaheill, Geðhjálp og Parkinsonsamtökin óska eftir stuðningi íslensku þjóðarinnar við beiðni þeirra til aðalritara Sameinuðu þjóðanna, Ban Ki-moon, um að mæla fyrir því við fulltrúa aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna að þær samþykki að bæta við nýju þróunarmarkmiði sem snýr að því að efla rannsóknir á taugakerfinu og auka á þann hátt skilning á starfsemi þess.
Stattu með taugakerfinu - skrifaðu undir

Mænuskaðastofnun Íslands, SEM samtök endurhæfðra mænuskaddaðra, MS-félagið, MND félag Íslands, Lauf félag flogaveikra, Heilaheill, Geðhjálp og Parkinsonsamtökin óska eftir stuðningi íslensku þjóðarinnar við beiðni þeirra til aðalritara Sameinuðu þjóðanna, Ban Ki-moon, um að mæla fyrir því við fulltrúa aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna að þær samþykki að bæta við nýju þróunarmarkmiði sem snýr að því að efla rannsóknir á taugakerfinu og auka á þann hátt skilning á starfsemi þess.

 

 

 

Meginástæða þess hve erfiðlega gengur að finna lækningu við til dæmis mænu- og heilasköðum og taugasjúkdómum er sú að vísindasamfélagið hefur takmarkaðan skilning á virkni taugakerfisins.

Það eru gríðarlega miklir hagsmunir í húfi, félagslega, siðferðilega og efnahagslega. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni, WHO, er áætlað að yfir 1 milljarður manna um allan heim þjáist af sjúkdómum og skaða í taugakerfinu. Ekkert eitt líffærakerfi skapar meiri fötlun en taugakerfið. Auk heila og mænuskaða er fjöldi tauga- og geðsjúkdóma eins og Alzheimers, heilaskaði vegna heilablóðfalls, flogaveiki, MND, MS, Parkinson og heilaglöp. Samkvæmt WHO er tíðni ofangreindra sjúkdóma að aukast sem kallar enn frekar á áríðandi aðgerðir í þessum málum.

Með átaki Sameinuðu þjóðanna og stuðningi alþjóðasamfélagsins er hægt að stuðla að því að gera lækningu að veruleika. Til þess að það takist þarf að efla rannsóknir á alþjóðavísu á taugasjúkdómum og taugaskaða og sameina krafta sérfræðinga og vísindamanna á alþjóðavísu. Það myndi leiða til framfara í meðferð og lækningu, minnka andlega og líkamlega fötlun í veröldinni til muna og létta byrðum af langveikum, fjölskyldum þeirra og þjóðfélögum.

Íslenska þjóðin leggur til eftirfarandi:

  1. að „aukinn skilningur á virkni taugakerfisins“ verði samþykkt sem sjálfstætt þróunarmarkmið hjá Sameinuðu þjóðunum í september næstkomandi.
  2. að aðildarþjóðir Sameinuðu þjóðanna samþykki að leggja í sjóð vissa fjárupphæð árlega til ársins 2030. Féð skuli notað til að koma á fót alþjóðlegum starfshópi taugavísindamanna frá viðurkenndum háskólum víða um heim. Hlutverk starfshópsins verði að skoða hina stóru mynd alþjóðlegs taugavísindasviðs, meta stöðuna, koma á samvinnu og veita veglega styrki í þeim tilgangi að ná fram heildarmynd af virkni taugakerfisins.

Tillögur að ráðstöfunum til að stuðla að auknum rannsóknum á taugakerfinu:

Þróunarmarkmið 18: Efla rannsóknir á taugakerfinu – Aðgerðir svo finna megi lækningu við sjúkdómum og skaða í taugakerfinu.

18.1 Fyrir 2030, fækka um helming þeim sem verða fyrir lömun og skaða á taugakerfinu vegna áverka eða sjúkdóma.

18.2 Fyrir 2020, efla og styðja við alþjóðlegar vísindarannsóknir og klínískar prófanir til að auka skilning á taugakerfinu. Stuðla að aukinni alþjóðlegri samvinnu hvað varðar rannsóknir á taugakerfinu. Kortlagningu á taugakerfinu og virkni þess lokið.

18.3  Fyrir 2030, fjölga verulega framboði af árangursríkum meðferðum fyrir þá sem þjást af geðröskunum, taugahrörnunasjúkdómum svo sem, MS, MND, Parkinsons og flogaveiki, skemmdum í taugakerfinu svo sem heila og mænuskaða vegna slysa.

Það er von samtaka taugasjúkdóma og mænuskaddaðra á Íslandi að vel verði tekið í tillögu samtakanna á vettvangi Sameinuðu þjóðanna þannig að þjóðir heims vinni sameiginlega að því að læknavísindin finni lausn á þessu alvarlega og erfiða heilbrigðisvandamáli sem allra fyrst.

Edda Heiðrún Backman segir frá sinni greiningu í þessu myndbandi

Skrifaðu undir á síðu taugakerfid.is