Strákar, tölum um grindarbotninn
Það er einhvernveginn þannig að umræða um grindarbotninn snýst að mestu leyti um konur. Þið strákar á öllum aldri hafið kannski hugmyndir um að konur þurfi að gera æfingar til að draga úr líkunum á þvagleka og að fæðing hafi áhrif á ástand grindarbotnsins.
Það er allt saman rétt og við konur erum nokkuð vanar því að fara í krabbameinsskoðun með tilheyrandi sýnatöku, sónarskoðun á eggjastokkum og legi og þreifingu hjá kvensjúkdómalækni þar sem kannað er hvort allt sé í lagi með okkar kvenlægu líffæri.
Þegar kemur að karlmönnum er flestum ljóst að með hækkandi aldri borgar sig að athuga ástand blöðruhálskirtils reglulega, bæði með blóðprufu og með þreifingu hjá lækni.
Þegar kemur að karlaheilsu eru nokkrir hlutir sem við þurfum að tala um. Þessir hlutir eru oftast undir yfirborðinu og þið eruð sennilega ekki duglegir að tala um þá, sennilega ekki fyrsta umræðuefnið á golfvellinum, í gufunni eftir körfuboltatímann, í veiðiferðinni, né á kaffistofunni á vinnustaðnum. Kannski hef ég rangt fyrir mér, ég spila ekki golf en hef þó lengi spilað körfubolta en oftast með kynsystrum mínum. Fer lítið í veiðiferðir en meira í fjallgöngur. Kannski eruð þið duglegir að ræða ykkar heilsumál, það er að minnsta kosti von mín. En sennilega eruð þið ekkert öðruvísi en konurnar sem ekki ræða sín á milli um þvaglekann eða verkina sem þær hafa við samfarir (samt er sú umræða aðeins að opnast).
Vitið þið að ristruflanir karla milli 40 og 70 ára ná 52% algengi í nokkrum rannsóknum? 8% karla þjást af krónískum verkjum í grindarbotni (verki sem hafa verið í minnst eitt ár). Þessi tala er sennilega vanmetin því líklegt er að fæstir leiti sér læknis vegna þessa einkenna. Þvagleki, loft- og hægðaleki karla eru algengari en flestir halda. Vöðvarnir í grindarbotninum hafa stóru hlutverki að gegna hvort sem við ræðum um reisn, verki eða leka.
Og hvað gerum við í þessu? Er best að gera bara fullt af grindarbotnsæfingum? Já og nei. Sterkir og heilbrigðir grindarbotnsvöðvar hjálpa til að viðhalda góðri reisn (rannsóknir hafa sýnt fram á það) og styrking vöðvanna því oft nauðsynleg. Of spenntir grindarbotnsvöðvar eru hins vegar oft vandamál og geta valdið verkjum í typpi, pung, spönginni (svæðið milli pungs og endaþarms) og endaþarmi. Spenntir vöðvar geta þrýst á taugar og slíkir verkir breiðst út í nára, kvið og aðlæg svæði. Verkir í grindarbotni geta líka átt uppruna sinn á öðrum svæðum, t.d. baki. Það er hægt að vera með veika og of spennta grindarbotnsvöðva, í því tilfelli þarf oft að slaka fyrst á vöðvunum áður en þeir eru styrktir. Jafnvægi líkamans skiptir hér öllu, við ættum alltaf að leita það uppi, fyrir sál og líkama.
Ekki eru allir verkir í grindarholi karla frá blöðruhálskirtli, þeir eiga oft uppruna sinn í stoðkerfinu eins og ég nefndi hér að ofan. Röng beiting líkamans, einhæfar hreyfingar eða hreyfingarleysi og streita eru óvinir. Í dagsins önn gleymum að slaka á kvið og grindarbotni, anda djúpt inn og sleppa takinu.
Ef þið strákar kannist við eitthvað af þessu ættuð þið að hugleiða að gera eitthvað í málinu. Tala við lækni ef þið hafið áhyggjur. Einnig geta sérhæfðir sjúkraþjálfarar á þessu sviði hjálpað.
Höfundur greinar : Tobba Sig og Hér má sjá bloggið hennar.