“Sú ferska” - Samloka með kjúklingabaunasalati og spírum
Ég veit ekki til þess að nokkur önnur samloka hafi slegið eins vel í gegn og þessi, enda er hún..
- einföld
- fljótleg
- fersk
- bragðmikil
- matarmikil
Það er því kominn tími til að ég deili henni með þér.
Kjúklingabaunasalatið er gott í kvöldmat, upplagt í nesti og einnig gott sem snarl á gott glútenlaust kex.
Þegar ég á annríka viku framundan finnst mér þægilegt að gera salatið á sunnudegi og eiga það út vikuna til að grípa í. Yfirleitt endist salatið þó ekki lengi.
Kjúklingabaunir og spírurnar innihalda gott plöntuprótein. Spírur eru sérlega næringarríkar, draga úr bólgum og efla meltingu og ónæmiskerfið.
Maðurinn minn ætlaði sko ekki að borða samloku með spírum! Ég fékk hann samt til að smakka á endanum og endaði hann með að klára samlokuna. Ekki dæma fyrr en þú smakkar samsetninguna. Hún er fullkomin að okkar mati.
“Sú ferska” - Samloka með kjúklingabaunasalati og spírum
Kjúklingabaunasalat
1 dós kjúklingabaunir (400gr t.d frá Biona), vökvinn tekinn frá og skolaðar
1 sellerístöngull
3-5 gulrætur, rifnar
½ rauð eða græn paprika, smátt skorin
4-5 súrar gúrkur (t.d. frá Sollu)
3-4 msk vegan majónes
1 tsk dijon sinnep eða sætt sinnep (t.d frá Biona)
3-4 msk sólblómafræ (t.d frá Sólgæti)
lúka ferskt basil
lúka af dill eða steinselju
salt og pipar
Samlokan
1 súrdeigsbrauð
vegan majónes eða geitaostur, til að smyrja
lífrænt epli, þunnt skorið
rausnarleg lúka blaðlaukspírur eða alfalfaspíur
1 avókadó, þunnt skorið (val)
klettasalat (val)
1. Setjið kjúklingabaunir í skál og stappið örlítið með gaffli eða kartöflustappara. Einnig er hægt að setja þetta í matvinnsluvél og púsla örlítið (hræra örlítið með pulse takkanum) varist að stappa of mikið.
2. Skerið grænmetið og kryddjurtir smátt og rífið gulrætur. Einnig er hægt að rífa gulrætur í matvinnsluvél. Bætið öllum innihaldsefnunum í skálina af kjúklingabaununum og hrærið saman og stappið með kartöflustapparanum
3. Ristið brauðið (val)
4. Smyrjið brauðsneiðarnar með majónesinu eða geitaosti, setjið baunasalatið á, eplasneiðar, avókadó, spírum og klettasalat og njótið.
Þessi uppskrift er nóg til að gera fjórar rausnarlega samlokur. Salatið geymist ferskt í 4 daga í kæli.
Viltu sunnudags-matarskipulagið mitt?
Ef þú hefur áhuga á fleiri uppskriftum og hugmyndum að því hvernig þú getur sparað þér tíma í eldhúsinu, þá mæli ég með að þú náir þér í matarskipulagið mitt sem er ókeypis hér!
Þetta skjal inniheldur nokkrar af mínum uppáhalds uppskriftum og ráðum sem ég nota sjálf daglega. Ef þú glímir við tímaleysi, skipulagsleysi og veist aldrei hvað þú átt að borða, get ég lofað þér að matarskipulagið mun koma þér af stað.
Smelltu hér til að skrá þig og fá matarskipulagið mitt! Endilega deilið á samfélagsmiðlum :)
Heilsa og hamingja,