Líkamsrækt í lok sumars
Nú þegar sumri fer að halla eru mjög margir með fögur fyrirheit í heilsuræktinni. Samviskubitið er farið að naga eftir allt sukkið í bjór og barbeque í sumar.
Áður en lagt er í hann er um að gera að skoða hvers vegna okkur mistekst oft að standa við fyrirheitin sem við settum okkur í sambandi við heilsuræktina.
Eftir áralanga reynslu við þjálfun og næringarfræðslu veit ég fyrir víst að a.m.k 50% þeirra sem fara af stað í heilsuræktina núna í september með mikil fyrirheit eru komin aftur í gamla “góða” lífsstílinn með hreyfingarleysi og hugsunarleysi í mataræðinu innan tveggja mánaða. Þessi pistill er sérstaklega ætlar þeim sem hafa margítrekað farið útaf sporinu og heilsan er bara eitthvað sem hægt er að huga að á morgun (eða jafnvel hinn).
Hvers vegna fer maður af sporinu í því að breyta lífsháttum sínum til betri vegar?
Líklegast er að margir fari útaf sporinu því að of geyst var farið af stað í byrjun t.d ætla margir að byrja að mæta í ræktina 5-6 sinnum í viku og sleppa algjörlega öllu sukki í mataræði. Til að halda þetta út verður maður að setja sér raunhæf markmið sem eru svo endurbætt þegar búið er að ná þeim og halda í þónokkrun tíma. Góð markmið fyrir þá sem eru að stíga sín fystu skref í heilsueflingu eru t.d að missa 0,5 kg á viku, borða morgunmat 5 sinnum í viku, hreyfa sig 3 sinnum í viku eða borða a.m.k 2 ávexti á dag. Þetta eru allt mælanleg og raunhæf markmið.
Ástæða þess að margir gefast upp á reyna koma sér til hollari vegar er einnig að gamli “góði” lífsstíllinn er bara svo helvíti góður vani. Það er auðvitað mun þægilegra að sitja við imbann með fjarstýringuna en að skella sér út í kuldann og fara að hreyfa sig. En til lengdar þá er þetta líklega það versta sem þú getur gert þér! Til að komast útúr þessum vana verður þú fyrst að upplifa það hvað líkamsræktin og holllara mataræði er að skila þér, þetta tekur oft nokkra mánuði.
Hérna erum við líka komin að aganum. Aginn sem við beitum til að koma okkur af stað í átt að heilbrigðari lífsháttum mun margborga sig. Það er vissulega erfitt í fyrstu en verður alltaf auðveldara og auðveldara eftir því sem mánuðurinir líða. Ef þú hefur agann þá verður hreyfing og hollt mataræði orðin nauðsynlegur hluti af þínu lífi áður en þú veist af. Gott slagorð sem ég minni mig of á segir “ Munurinn á þeim sem ná árangri og þeim sem ekki ná árangri er ekki skortur á styrk eða þekkingu, heldur miklu frekar skortur á vilja ” Vince Lombardi.
Margir springa líka á heilsuræktinni því það kom ein helgi í lok september þar sem dottið var helvíti vel í það og mat og drykk. Á sunnudegi í þynnku eða þynglyndiskasti er svo ákveðið að þetta “heilsukjaftæði” sé ekki fyrir ykkur og þið farið bara í gamla “góða” lífsstílinn á mánudeginum. Hérna er verið að gera verstu mistök sem hægt er að gera! Það eina sem hægt er að gera ef maður tekur hliðarspor er að fara aftur á beinu brautina. Nógu slæmt var nú að þú hafir tekið heila helgi í sukk en að þú ætlir að hætta að huga að heilsunni eru algjör afglöp.
Eitt að lokum. Að huga að heilsunni er elífðarverkefni sem þið eigið að njóta líkt og lífsins sjálfs. Heilsurækt í september er bara upphafið að heilbrigðum lífsstíl. Ekki láta ykkur detta í hug að þið getið bara sett tærnar upp í loft og étið á ykkur gat þó þið hafið staðið ykkur vel! Bestu verðlaun heilsuræktar eru að þið séuð búin að tileinka ykkur heilbrigðan lífsstíl.
Heimild: heilsugeirinn.is