Svala Björgvins í léttu viðtali
Svala Björgvins söngkona í hljómsveitinni Steed Lord býr í Los Angeles og er að gera góða hluti þar með sinni hljómsveit. Hún er einnig að hanna föt undir merkinu Kali og eru þau fáanleg á netinu.
Hvernig byrjar þú hefðbundin dag og hvað er í morgunmat ?
Ég vakna og tek inn vítamín og fæ mér yfirleitt ristað brauð með osti eða croissant og geng frá öllu og bý um rúmið og gef kisunum að borða. Svo byrja ég að vinna. Fer eftir hvaða verkefni eru í gangi þannig að hver dagur er mismunandi hjá mér.
Er eitthvað sem þú átt alltaf til í ísskápnum?
Pepsi. Rosa óhollt. En ég á alltaf til Pepsi og ískalt vatn. Ég bý í Los Angeles og ég er með filterað vatn í eldhúsinu sem ég set í flöskur og set það svo í ísskapinn. Það er ekkert rosa gott að bragðið en ef það er ískalt þá er það allt í lagi. Svo er alltaf til Parmesan ostur líka.
Nefndu mér þrjá hluti sem þú gætir ekki verið án?
Vatn. Matur. Eiginmaðurinn. En þetta eru ekki hlutir samt. Veit ekki hvaða hluti ég gæti ekki verið án. Er ekkert svaka tengd hlutum. Meira tengd fólki.
Ef þú vaknar extra úldin á morgnana hvað er þitt besta ráð til að ná ferskleikanum aftur ?
Köld sturta. Það hressir mann alltaf við. Kemur blóðinu af stað og roða í kinnar.
Hvaða tónlist er í græjunum þínum þessa dagana ?
Legend. Nýja platan með Justin Timberlake. Fleetwood Mac Greatest Hits. Duet 3 með Björgvini Halldórssyni.
Hversu oft í viku æfir þú og hvernig æfingar ertu að gera?
Ég æfi voða lítið en ég labba rosalega mikið. Fer í hike allavega einu sinni til tvisvar í viku hérna í LA. Ég tók Pilates æði fyrr á árinu og gerði það alveg 3 sinnum í viku. Ætla að fara gera það aftur bráðlega. Svo fer ég í saunu tvisvar í viku og hef alltaf gert frá því ég var bara lítil stelpa. Besta afslöppun í heimi og er líka svo gott fyrir húðina og blóðrásina. Maður hreinsar alveg sálina með að fara í saunur.
Hver er uppáhalds hönnuðurinn þinn ?
Balmain. Givenchy. KTZ. Aftur. Gæti haldið áfram því ég held uppá svo marga.
Hvernig ferð þú á milli staða? þá á ég við keyrandi, gangandi, hjólandi....
Við eigum bíl og keyrum mikið því LA er bílaborg og langt á milli staða en ég bý sem betur fer í æðislegu hverfi sem heitir Silverlake þar sem ég get labbað á hverjum degi. Labba útí búð, banka, kaffihús og pósthús. Frábært að geta það því ég elska að labba.
Kaffi eða Te ?
Kaffi stundum þegar ég er að vakna sjúklega snemma til að fara í verkefni með Steed Lord. Og te þegar ég hef misst röddina og þarf að syngja bráðlega. Annars drekk ég ekki mikið af te eða kaffi.
Ef þú værir beðin um að gefa eitt gott ráð til hóps af fólki, hvaða ráð væri það?
Gerðu það sem þú algjörlega elskar í lífinu!!