Sviti
Sviti og svitalykt eru hluti af okkar daglega lífi, við svitnum við líkamlega áreynslu, streitu og ef okkur verður of heitt.
Í líkamanum eru tvær megingerðir svitakirtla sem framleiða ólíkar gerðir af svita. Sviti er þunnur vökvi sem svitakirtlarnir seyta út á yfirborð húðarinnar.
Hann inniheldur vatn, sölt og úrgangsefni, til dæmis þvagefni.
Svitakirtlum má skipta í:
Fráseytnir svitakirtlar (e. eccrine sweat glands). Þeir eru smágerðir og dreifast nokkuð jafnt um alla húðina en þéttleiki þeirra er mestur í húð lófa og ilja. Meginhlutverk þeirra er að stuðla að kælingu líkamans. Við verðum ekki vör við þennan svita á meðan magnið er ekki meira en svo að hann nær að gufa upp. Ef svitamyndun eykst, til dæmis vegna mikils hita í umhverfinu eða mikillar líkamlegrar áreynslu, nær hann ekki allur að gufa upp en safnast þess í stað fyrir sem litlir dropar og við verðum vör við hann.
Toppseytnir svitakirtlar (e. apocrine sweat glands). Þeir eru í raun lyktarkirtlar. Sviti frá toppseytnum svitakirtlum er þykkari og límkenndari en sviti hinna svitakirtlanna enda inniheldur hann meira af lífrænum efnasamböndum. Báðar tegundir svitans eru lyktarlausar en þegar bakteríur á húðinni komast í snertingu við svita frá toppseytnu svitakirtlunum verður til efni sem er ástæðan fyrir svitalykt. Toppseytnir svitakirtlar koma ekki við sögu í kælingu líkamans. Seyting frá þeim hefst ekki fyrr en við kynþroska og eykst til muna við streitu og kynörvun. Oft er sviti frá þessum kirtlum kallaður kaldur sviti.
Það er afar persónubundið hve mikið við svitnum og hve mikil lykt fylgir. Hins vegar er ráðlegt að hafa samband við lækni ef:
Svitamyndun eykst eða það dregur verulega úr henni
Sviti hefur truflandi áhrif á daglegt líf
Nætursviti án skýringa
Skyndileg breyting á svitalykt
Helstu úrræði
Fara í sturtu/bað daglega.
Vanda valið á klæðnaði. Náttúruleg efni eins og bómull, ull og silki eru ákjósanleg vegna þess að þau hafa þann eiginleika að það loftar betur um húðina og dregur þannig úr líkum á ofhitnun. Víð áreynslu er ýmis íþróttafatnaður til sem er sérstaklega hannaður með það í huga að fjarlægja raka af húðinni.
Notaðu svitalyktareyði, helst án lyktar og ilmefna.
Slökun dregur úr streitu og þar með líkunum á því að svitna
Mataræði. Kaffi, og drykkir með koffíni, kryddaður og bragðsterkur matur. Allt þetta getur valdið aukningu á svita og þá um leið sterkari svitalykt
Höfundur greinar:
Guðrún Gyða Hauksdóttir, hjúkrunarfræðingur
Höfundur er hjúkrunarfræðingur
Grein af vef doktor.is