Fara í efni

Sykurlaust jólakonfekt sem þú verður að prófa!

Sykurlaust jólakonfekt sem þú verður að prófa!

Hæhæ og gleðilegan desember!

Þar sem konfekt og sætindi munu skreyta hvert heimili og vinnustað þennan mánuð, fannst mér við hæfi að deila uppskrift af afar einföldum og ljúffengum marsipankonfektmolum!


Það er næstum lygilegt að þeir séu hollir og án nokkurs sykurs eða hveitis. Það er afar lítil fyrirhöfn með þeim þar sem ekki þarf að baka þá í ofni!  Þeirra má virkilega njóta með góðri samvisku sem er það besta!

Framundan held ég NÝ jólanámskeið sem hjálpa þér að upplifa vellíðan og ljóma yfir hátíðirnar! Námskeiðin hafa slegið í gegn og nú með nýjum uppskriftum og í hátíðarskapi! Sætin eru fljótt að fyllast, smelltu á dagsetninguna til að læra meira og trygga þér stað!

Á morgun þri 6.des Námskeið í Vegan og hátíðarhráfæðisréttum á Gló fákafen (nokkur sæti laus!)

Fimmtudag 8.des Námskeið í sykurlausri jóladesertum og konfekti,  Kea Hótel, AKUREYRI kl 19:00

Þriðjudaginn 13.des Námskeið í sykurlausri jóladesertum og konfekti á Gló fákafen, Rvk kl: 17:30!

Ég veit að þú munt ekki sjá eftir því þegar þú verður komin upp á lag með að nammigerð heima og sérð hversu einföld holl nammigerð getur verið! Allar uppskriftirnar gerum við saman, smökkum á öllu og deili ég með þér hvernig hægt er að útfæra hefðbundnar uppskriftir á hollan hátt, auk þess hvað ég geri til að viðhalda vellíðan og ljóma yfir hátíðirnar!

Í marsipanmolana nota ég nóg af lífrænum vanilludropum og sætugjafa frá hlynsírópi en einnig má skipta því út fyrir hráum kókospálmanektar (Raw coconutnectar).
Hlynsíróp kemur frá hlyntré og fæst víða. Hrár kókospálmanektar er aftur á móti nýlegur sætugjafi hér á landi en jafnframt einn af mínum uppáhalds. Hrár kókospálmanektar er fenginn úr safa frá blómum kókostrésins og er ofboðslega andoxunaríkur og lágur í frúktósainnihaldi. En þegar við veljum sætugjafa er einmitt mikilvægt heilsunnar vegna að velja kosti sem eru lágir í frúktósamagni.

Ég hef ekki ennþá prófað að nota steviu sem sætugjafa í uppskriftina en það má sannarlega prófa fyrir þá sem vilja sætugjafa án frúktósa. En til að halda í áferðina á marsipan konfektinu þyrfti eflaust að nota síróp til mótvægis við steviuna ef þess er valið.

 marsipankonfekt

Marsipan Konfekt

Marsipan:

2 bollar lífrænar möndlur án hýðis, malaðar (500 ml)

4 msk hlynsíróp eða hrár kókospálmanektar

1 msk lífrænir vanilludropar


Súkkulaðikrem:

4 msk kakó

1/4 bolli kókosolía

4 dropar stevia

Til þess að falleg hvít áferð náist er mikilvægt að nota afhýddar möndlur. Ef þær fást ekki keyptar er auðvelt að leggja möndlur með hýði í bleyti í 8 klst eða yfir nóttu, skola svo af þeim, kreista hýðið af og þerra örlítið.  Byrjið á að mala afhýddu möndlurnar í blandara eða kaffikvörn í fínt mjöl. Bætið sætugjafa og vanilludropum saman við þar til þétt marsipandeig myndast. Notið fingur til að mynda kúlur.

Útbúið súkkulaði með því að hræra öllu saman í blandara eða potti. Mikilvægt er að kókosolían sé í fljótandi formi hvort sem kókosolíukrukkan er lögð í heitt vatnsbað eða brædd í potti. Einnig má kaupa dökkt súkkulaði t.d sætað með steviu og bræða í potti.
Dýfið marsipankúlunum í súkkulaðið (ég nota skeið og fingur) og rúllið strax upp úr pistasíuhnetum eða kókosmjöli. Setjið á disk og geymið í kæli í hálftíma áður en þær eru borðaðar.

Þetta dásemdarkonfekt er fullkomið til þess að njóta með vinkonum og skapa minningar á góðum kvöldstundum!
Ég vona að þú prófir!

Ef þér þótti uppskriftin girnileg, endilega deildu henni með vinum á samfélagsmiðlum!

Heilsa og hamingja,
Júlía heilsumarkþjálfi

p.s Sjáðu hvað aðrir hafa að segja eftir námskeiðin:

,,Með uppskriftunum frá Júlíu hef ég bætt lífsgæði mín mikið. Ég hef tapað 10 kílóum og grætt í staðinn mikla vellíðan og öðlast trú á sjálfa mig. Ég hef loksins náð að koma reglu á mataræðið mitt. Í dag notast ég nánast eingöngu við hennar uppskriftir.” - Lára Ólafsdóttir   

,,Áður upplifðum við mjög oft þreytu og slen þrátt fyrir góðan nætursvefn og reglulega líkamsþjálfun. Uppskriftir Júlíu hafa aldeilis slegið í gegn á okkar heimili, með þeim finnum við betri líðan og orku ásamt þeim góða bónus að mittismál hefur minnkað umstalsvert. Við mælum hiklaust með uppskriftum Júlíu”. - Aðalsteinn Scheving   

„Námskeiðið sýndi mér hversu létt þetta er og lærði ég inná ýmis ný hráefni. Mjög góð upplifun og get ég mælt með námskeiðinu.” - Ragna Fanney Óskardóttir


Smelltu hér
 fyrir síðustu sætin á morgun í jóla og hátíðarnámskeiðið á Gló, örfá sæti laus!