Fara í efni

Það er til lítils að hlaupa ...

... ef hlaupið er í vitlausa átt.
...ef hlaupið er í vitlausa átt
...ef hlaupið er í vitlausa átt

... ef hlaupið er í vitlausa átt.

Þennan málshátt fékk ég fyrir nokkrum árum í páskaeggi.  Ég var þá á krossgötum í mínu starfi og var búin að leggja mikið á mig í að ná árangri en farin að efast um að ég vildi tileinka mér þessa braut til framtíðar. Þessi málsháttur hreyfði við mér og ég tók skref til breytinga sem hefur reynst mér mjög farsælt.

Ég er að velta fyrir mér hvort þetta eigi ekki líka við um alla þessa matarkúra sem hellast yfir þjóðfélagið hver á eftir öðrum með tilheyrandi fjaðrafoki. Við hlaupum upp til handa og fóta, eltum árangur einhvers annars, tökum út  sykurinn... kolvetnin... gerið ... nei glútenið... prófa föstukúr... hvað með alla  þessa safa, þeir laga víst allt...  Skemmst er frá því að segja að sjaldnast hafa kúrarnir í för með sér þann árangur sem við væntum. Eftir sitjum við með aðeins aumari sál og sannfærð um að við getum aldrei náð þeim árangri sem við viljum. Höfum bara fengið enn eina staðfestinguna á að við erum „looserar“.  Þetta er ekki mjög góður staður að vera á.

Við vitum alveg hvað er hollur matur og hvað er gott fyrir okkur. Við vitum að það er æskilegt að borða meira grænmeti, minna af gosi og skyndibita, borða hreinan mat, borða reglulega, borða morgunmat, hreyfa okkur...

Já, en ég get ekki verið með hollan mat þegar unglingarnir á heimilinu vilja hann ekki, ég elda ekki af því ég bý ein, ég  er alltof  þreytt eftir vinnuna til að geta farið að hreyfa mig, ég er ekki með pössun, ég á ekki skó, mér finnst grænmeti ekki gott, ég hef enga lyst á morgnana, ég hef ekki tíma til að borða svona oft, hollur matur er svo dýr... ég gæti talið upp endalausan lista af óyfirstíganlegum hindrunum sem þessum sem ég  hef heyrt um dagana.  

Við upplifum þetta sem raunverulegar hindranir og óbreytanlega staðreyndir sem við stöndum frammi fyrir... en hvernig ætlum við að bregðast við?  Stóra málið er að  við eigum alltaf val, þó það virðist ekki alltaf blasa við.  Hugarfarsbreyting er fyrsta skrefið. Ef við tökum þá ákvörðun að standa með sjáfum okkur, skoðum okkar aðstæður og leitum lausna, fáum aðstoð til að komast af stað, þá er ekkert sem kemur í veg fyrir að við náum árangri.

Við í Heilsuborg mælum með því að leggja upp í ferðalag í átt að heilbrigðum lífsstíl. Ekki hlaup, heldur langferð sem við tökum skref fyrir skref.  Skoðum hvar við erum stödd og hvaða ferðafélagar eru með okkur.  Sumir eru hjálplegir aðrir ekki og við þurfum aðgera upp hug okkar gagnvart þeim. Skoðum hvert við viljum fara.  Við skoðum hvaða farartæki við höfum og gerum ráðstafanir til að auðvelda okkur ferðina, hvort við þurfum aðstoð og þá hvernig. Gerum ferðaáætlun, bæði langtímaáætlun og hvernig við brjótum leiðina upp í minni einingar með reglulegum áfangastöðum. Við stöldrum reglulega við og skoðum hvort við erum á réttri leið. Hvort við þurfum að breyta stefnu, hvíla okkur eða hægja á okkur vegna utanaðkomandi aðstæðna, hvort við viljum taka á sprett... en umfram allt  þá njótum við ferðarinnar og  höfum gaman á leiðinni, bíðum ekki eftir að lífið byrji þegar við erum komin á áfangastað.

Tökum fyrsta skrefið. Það getur falist í því að spyrja til vegar.  Við í Heilsuborg erum alltaf tilbúin að aðstoða þig við að skipuleggja ferðalagið og skoða hvaða skref gæti verið næsta skref fyrir þig.

Erla Gerður Sveinsdóttir, læknir Heilsuborgar