Tælensk massaman súpa frá Eldhúsperlum
…Og súpuæðið hjá undirritaðri heldur áfram. Massaman karrý er einhver besti matur sem ég veit um og undantekningarlítið verður hann massaman kallinn fyrir valinu þegar ég rek nefið inn á tælenska veitingastaði. Almennt þykir mér tælenskur matur bara alveg afskaplega góður og af hverju ég hef ekki farið til Tælands skil ég hreint ekki. Það er þó ansi ofarlega á óskalistanum og verður vonandi af því einhvern daginn. Það var svo á dögunum að ég fór í mat til vinkonu minnar sem eldaði fyrir okkur alveg dásamlega gott massaman karrý. Ég hef eiginlega verið að hugsa um það síðan svo það varð innblásturinn að þessari stórgóðu massaman karrý súpu.
Ég mæli með því að næla sér í gott massaman karrý mauk, það besta væri auðvitað að búa það til sjálfur en við skulum bara vera raunsæ hérna. Ég keypti það sem ég notaði í súpuna í tælensku búðinni við Hlemm en ég veit að það fæst líka mjög gott karrýmauk í Kolaportinu og örugglega víðar. Svo er svona mauk vissulega til líka í einhverjum stórmörkuðum. En heimsókn í tælensku búðina á Hlemmi, að ég tali nú ekki um í Kolaportið er svo skemmtileg að það ætti enginn að láta það hrindra sig í að búa súpuna til. En jæja, að uppskriftinni. Eins og með svo margar súpur er um að gera að nota það sem til er í ísskápnum hverju sinni. Ég átti til dæmis afgang af grilluðum kjúklingi eins og þessum hér, með bökuðum gulrótum. Svo átti ég lítið blómkálshöfuð í grænmetisskúffunni ásamt lauk og hvítlauk og kjúklingabaunadós í búrskápnum. Tiltölulega ódýr hráefni sem breyttust í þessa afar ljúffengu máltíð.
Tælensk massaman súpa (fyrir 4):
- 1 laukur
- 2 hvítlauksrif
- 3 msk kókosolía eða önnur matarolía
- 4 vænar msk massaman karrýmauk (meira ef þið viljið sterkari súpu)
- 2 msk hrásykur
- 2 kjúklingabringur skornar smátt eða t.d afgangur af elduðum kjúklingi
- 1 lítið blómkálshöfuð
- 1-2 Gulrætur eða það grænmeti sem til er
- 2 dósir kókosmjólk + 1 l vatn (meira vatn ef þið viljið þynnri súpu)
- 1 dós kjúklingabaunir
- 1 kjúklingateningur
- 2 msk sojasósa
Aðferð: Skerið grænmetið og kjúklinginn smátt.
Hitið olíu í potti og steikið laukinn og hvítlaukinn í 1-2 mínútur.
Bætið karrýmaukinu útá og steikið þar til það mýkist aðeins og byrjar að ilma vel.
Stráið sykrinum yfir, bætið svo kjúklingnum og grænmetinu saman við og steikið aðeins áfram (Athugið að ef þið notið hráan kjúkling þarf ekki að elda hann áður en þið setjið hann út í súpuna, gætið þess bara að sjóða hann í súpunni þar til eldaður í gegn).
Hellið kókosmjólkinni yfir ásamt einum lítra af vatni.
Setjið kjúklingabaunirnar saman við ásamt kjúklingakraftinum og sojasósunni. Hleypið suðunni upp og látið sjóða rólega við vægan hita í 5 mínútur.
Smakkið til með sojasósu eða sjávarsalti og e.t.v. hrásykri ef ykkur finnst þurfa meiri sætu. Berið fram rjúkandi heita. Súpan að vera braðgmikil og rífa vel í.
Birt í samstarfi við: