Tannverndarvika 2016. Hreinar tennur – heilar tennur
Embætti landlæknis og Tannlæknafélag Íslands standa fyrir árlegri tannverndarviku 1. – 7. febrúar 2016.
Tannverndarvikan árið 2016 er helguð því að hvetja landsmenn til að þess að bursta tennur með flúortannkremi að lágmarki tvisvar á dag í tvær mínútur og aðstoða börn til 10 ára aldurs.
Kjörorð vikunnar er hreinar tennur – heilar tennur.
Fleiri börn njóta lægri tannlækniskostnaðar. Öll börn sem sem verða sex og sjö ára á þessu ári bætast í hóp þeirra barna sem fá gjaldfrjálsa tannlæknisþjónustu. Tannlækningar barna frá 6 til og með 17 ára auk þriggja ára barna eru nú greiddar að fullu af Sjúkratryggingum Íslands, að frátöldu 2500 kr árlegu komugjaldi.
Ábyrgð samfélagsins í tannverndarviku
Fyrirtæki sem flytja inn og selja tannhirðuvörur eru hvött til að nýta sér tannverndarvikuna til að kynna vörur sínar. Stjórnendur verslana eru hvattir til að bjóða afsláttarkjör af tannhirðuvörum og hollri matvöru, s.s. ávöxtum og grænmeti og afnema jafnframt afsláttarkjör af sælgæti.
Stjórnendur leik-, grunn- og framhaldsskóla eru hvattir til að leggja áherslu á fræðslu, umfjöllun og viðburði sem tengjast tönnum og tannheilsu. Landsmenn eru hvattir til þess að hirða tennurnar að lágmarki kvölds og morgna og draga úr neyslu sætinda og sykraðra drykkja því þannig má stuðla að betri heilsu og betri tannheilsu.
Hólmfríður Guðmundsdóttir, tannlæknir.
Af vef landlaeknir.is