Tengsl milli svefnlengdar og holdafars hjá strákum á framhaldsskólaaldri
Tengsl eru milli svefnlengdar og holdafars hjá strákum á aldrinum 18−19 ára. Þeir strákar sem sofa styttra á virkum dögum eru líklegri til þess að vera feitari en jafnaldrar þeirra sem sofa lengur.
Þetta er meginniðurstaða lokaverkefnis til MS-prófs í íþrótta- og heilsufræðum sem Hrafnhild Eir R. Hermóðsdóttir vann undir handleiðslu dr. Önnu Sigríðar Ólafsdóttur dósents og Ingibjargar Kjartansdóttur MPH. Rannsóknin var jafnframt liður í rannsókninni Heilsueflandi framhaldsskóli. Úrtakið voru 262 unglingar á aldrinum 18−19 ára í tveimur framhaldsskólum á höfuðborgarsvæðinu, þar af 118 drengir og 144 stúlkur. Lagðar voru spurningar fyrir þátttakendur um svefnvenjur þeirra og hreyfingu auk þess sem gerðar voru mælingar á holdafari og þoli.
Hrafnhild segir að sérstaklega hafi komið í ljós fylgni milli stutts svefns stráka á virkum dögum og holdafars þeirra. „Við fundum neikvætt samband milli svefnlengdar á virkum dögum og holdafars hjá strákum þegar búið var að leiðrétta fyrir þoli og hreyfingu í frístundum. Þetta segir okkur að strákar sem sofa styttra á virkum dögum en hafa svipað þol og hreyfa sig álíka mikið í frístundum eru líklegri til að vera þyngri, hafa hærri líkamsþyngdarstuðul, meira mittismál, hærri fituprósentu og hærra hlutfall á milli mittismáls og hæðar en strákar sem sofa lengur.“
Hrafnhild telur að þörf sé á meiri fræðslu og umræðu um svefnþarfir. Eigi það sérstaklega við um unglinga en líka fullorðið fólk. Mikil áhersla sé lögð á fræðslu um hollt mataræði og hreyfingu en minna fari fyrir fræðslu um nauðsyn þess að sofa nóg. Hrafnhild segir að svefnþörf sé einstaklingsbundin en þó sé talið að meðalsvefnþörf heilbrigðs, fullorðins einstaklings sé um 7−8 tímar á nóttu. „Við eigum það til að vanmeta gildi svefns og fórna honum fyrir aðrar daglegar athafnir. Um þriðjungur þátttakenda í rannsókninni var ekki að sofa nóg á virkum dögum ef miðað var við meðasvefnþörf fullorðins einstaklings. Hins vegar ef miðað var við meðalsvefnþörf ungmenna, sem er talin vera um 9 tímar, þá voru 97% ungmenna í rannsókninni ekki að sofa nóg á virkum dögum“, segir Hrafnhild ennfremur.
Leiðbeinendur:
Anna Sigríður Ólafsdóttir, dósent við menntavísindasvið, og Ingibjörg Kjartansdóttir MPH .
Höfundur greinar:
Þorsteinn Magnússon
Upplýsingar um símanúmer og netfang hjá Hrafnhild:
Netfang: heh38@hi.is