Þá er það ást - hugleiðing Guðna á sunnudegi
Þegar það fer ofan í mig, þá er það ást
Mín heitbinding gagnvart mat og allri næringu er mjög einföld:
„Þegar það fer ofan í mig, þá er það ást.“
Þetta felur í sér að að öllu jöfnu borða ég hollan, lifandi og lífrænt ræktaðan mat, ég neyti hans með athygli, þakklæti og kærleika, tygg vel og borða hóflega, því að annars ofbýð ég rými líkamans, fylli kamínuna sem er líkami minn og fæ meltingartruflanir sem draga úr velsæld. Eftir að hafa gert þetta lengi þekki ég fyllilega inn á líkama minn, ég heyri þegar hann kallar á næringu og ég greini líka stundum öðruvísi ákall – ákall á fjarveru.
Því stundum lætur skortdýrið á sér kræla og stingur þeirri hugmynd að mér að ég noti mat eða drykk til að fóðra sig. Og það biður ekki um lífrænt epli eða jurtate heldur vill það mikinn mat og brasaðan og helst gosdrykk með.
Gott og vel. Oftast hef ég nægilega heimild til að klappa skortdýrinu vinalega og þakka því fyrir framlagið. En það kemur fyrir að ég fer leiðina sem skortdýrið stingur upp á. Það kemur fyrir að ég leyfi dýrinu að ná tökum á mér og ét á mig gat af mat sem hentar vel skortinum og þjáningunni.
Þar kemur heitbindingin inn í.
Í svona aðstæðum á sér stað lítið kraftaverk. Óhollustan sem ég set ofan í mig verður ekki að leið til að refsa sjálfum mér.
Þegar það fer ofan í mig, þá er það ást. Ég sparka ekki í mig liggjandi og þjáist í skömm og fyrirlitningu yfir því að „svíkja“ eigin vitneskju um heilbrigðan mat. Ég skamma mig ekki í huganum á meðan ég bít í hamborgarann og dýfi frönskunum í sósuna.
Ég elska mig. Ég elska mig samt. Ég elska mig líka þegar ég ligg. Og ég hjálpa mér á fætur.