Það er gaman að fara í útileiki á sumrin ?
Spurningin er samt, kunna krakkar í dag að fara í útileiki?
Allir út að leika segjum við hér á Heilsutorgi. Sleppa því að hanga inni í tölvunni og fara og anda að sér ferskulofti og hreyfa sig.
Ég man eftir öllum þeim útileikjum sem ég, systkini mín og vinir fórum í fyrir “langa” löngu.
Leikir eins og Snú snú, brennó, yfir, eina krónu, Dimmalimm og fleiri.
Hvernig væri nú ef að foreldrar tækju sig til og kenndu börnum þessa skemmtilegu leiki?
Öll fjölskyldan saman úti í fersku lofti að hreyfa sig og hafa gaman.
Ekki þarf góð skemmtun alltaf að kosta mikla peninga og stundum þarf hún ekki að kosta neitt.
Tilvalið er að safna nokkrum ættingjum og/eða vinum á öllum aldri saman og fara út í garð heima eða í næsta almenningsgarð og leika.
Hægt er að kaupa ódýr sumarleikföng í flestum búðum og má nefna frisbídisk, snúsnúband, allskonar bolta, badminton- eða tennissett, húlahring, teygjóband og flugdreka.
En ekki þarf alltaf að hafa eitthver leikföng með sér því ýmsir skemmtilegir útileikir eru til fyrir litla sem stóra hópa þar sem engra leikmuna er krafist.
Prufið leiki eins og: Fallin spýta, hlaupa í skarðið, ein króna, brennó, eltingaleik, dimmalimm, yfir, köttur og mús, parís og pokahlaup.
Þessir leikir eru ekki endilega fyrir börn því vinahópar á öllum aldri geta komið saman og leikið þá og það kemur á óvart hversu skemmtilegt er að leika sér þrátt fyrir að aldurinn færist yfir.
Og muna svo að það tekur því ekki að vera tapsár.
Sendu okkur mynd á Instagram #heilsutorg