Bannað að geyma alla hanana og hænurnar í sömu körfunni
Það er viturlegt að dreifa áhættu og halda uppi fullu þjónustustigi fyrirtækja og stofnanna sama hvert verkefnið er hverju sinni.“
Þetta segir Tómas Hilmar Ragnarsson, framkvæmdastjóri Regus, í samtali við Fréttablaðið. Regus rekur fjóra skrifstofukjarna hér á landi og hefur yfir að ráða á þriðja hundrað skrifstofur sem bæði einstaklingar og fyrirtæki hafa nýtt sér í auknum mæli. Þá hefur hin skæða og alræmda kórónaveira haft áhrif á rekstur Regus en með heldur öðrum hætti en önnur fyrirtæki hafa fengið að kynnast. Þannig hefur þurft að setja heilu fyrirtækin í sóttkví en áhrifin kórónaveirunnar á Regus er þó með nokkuð öðrum hætti.
Fyrirtækjaeigendur hafa leitað til Tómasar sem nú býður fyrirtækjum hér á landi fram aðstoð sína vegna veirunnar. Tómas segir í samtali við Fréttablaðið að hin ýmsu fyrirtæki hafi gert samninga við Regus og þannig fengið aðgang að skrifstofuaðstöðu hjá Regus til bráðabirgða, í þeim tilgangi að fyrirtækin geti haldið áfram rekstri eins og ekkert hafi í skorist.
Tómas býður fyrirtækjum að vera með hluta af rekstrinum hjá Regus, þannig sé starfsemin á tveimur stöðum og áhættunni dreift. Ef ein starfstöð þarf að fara í sóttkví getur hin haldið ótrauð áfram. Fyrirtæki sem hafa leitað til Tómasar eru meðal annars fjármála- og þjónustufyrirtæki sem þurfa að halda uppi starfsemi allan sólarhringinn.
„Það er viturlegt að dreifa áhættu og halda uppi fullu þjónustustigi fyrirtækja og stofnanna sama hvert verkefnið er hverju sinni,“ segir Tómas og bætir við að hann búist við að fleiri fyrirtæki komi sér upp aðstöðu hjá Regus. Hann bætir við: „Með því að setja upp tímabundið aðra starfsstöð, fyrir hluta starfsfólks, þá má minnka líkur á því að rof komi í þjónustu fyrirtækja og stofnana. Þarna á nýyrðið vel við að geyma ekki alla hananna og hænurnar í sömu körfunni.“