Þarmaflóran og heilsa
„Allir sjúkdómar hefjast í meltingarvegi“. Þetta sagði Hippocrates fyrir meira en 2000 árum en við erum fyrst núna að skilja hversu mikið er til í þessum orðum.
Rannsóknir á undanförnum árum hafa leitt í ljós að heilbrigð þarmaflóra er gríðarlega mikilvæg fyrir almennt heilbrigði. Ójafnvægi á þarmaflórunni hefur sýnt sig að ýta undir allskyns sjúkdóma s.s. sykursýki, offitu, liðagigt, þunglyndi og aðra geðsjúkdóma.
Þarmaflóran telur um 100.000.000.000.000 baktería sem er 10 sinnum meiri fjöldi en allar frumur líkamans. Allur þessi fjöldi skiptist í um 1000 tegundir af bakteríum. Í raun getum við sagt að við séum miklu frekar bakteríur en menn!
Þegar við erum í móðurkviði erum við að mestu „steríl“ frá bakteríum en um leið og við komum í heiminn fáum við bakteríur í okkur og á frá umhverfinu. 95% af bakteríunum eru innan líkamans en 5% utan á honum. Sumir fræðimenn telja að það sé ekki af tilviljun að fæðingarvegurinn er svo nærri endaþarmi sem er svo bakteríuríkur. Þetta eru fyrstu kynni okkar af bakteríum og þar með verða þær órjúfanlegur þáttur í heilbrigði okkar allt til dauðadags. Án baktería væri þetta líf okkar ómögulegt .
Margir vísindamenn og heilbrigðisstarfsmenn eru farnir að trúa því að heilbrigð þarmaflóra og meltingarvegur sé einn mikilvægasti þáttur í að tryggja heilbrigði almennings á 21. öldinni. Þarmaflóran hefur m.a. þessi hlutverk í eðlilegri líkamsstarfssemi:
- Bakteríur þarmaflórunnar geta nýtt sér ómeltanlegar trefjar sem magi og smáþarmar hafa ekki ráðið við að melta. Gerjun á trefjunum fyrir tilstuðlan þarmaflórunnar stuðlar að myndun stuttkeðju fitusýra (short chain fatty acids). Þarmaflóran nýtir svo þessar fitusýrur til orkumyndunar og stuðlar því enn frekar að heilbrigðri þarmaflóru.
- Hjálpar til við framleiðslu á mikilvægum vítamínum (B og K).
- Heilbrigð þarmaflóra heldur sér í jafnvægi , berst gegn óhagstæðum bakteríum og viðheldur heilbrigðri þarmaslímhúð.
- Viðheldur heilbrigðu ónæmiskerfi. Þarmaflóran inniheldur um 75% af ónæmiskerfi okkar. Heilbrigð þarmaflóra veitir vernd gegn sýkingum og ýmsum sjúkdómum.
- Stjórnar ýmsum efnaskiptum.
- Heilbrigð þarmaflóra í jafnvægi er semsagt lykillinn að eðlilegri meltingu og almennu heilbrigði.
Því miður er nútíma lífsstíll með hreyfingarleysi og óhollu mataræði að gera margt til að skemma góða þarmaflóru. Má þar nefna:
- Sýklalyf, blólgueyðandi lyf og gigtarlyf. Sérstaklega eru sýklalyf hönnuð til þess að berjast gegna bakteríum í líkamanum, jafnt góðum sem slæmum. Geta langvarandi og endurteknir sýklalyfjakúrar gengið að heilbrigðri þarmaflóru dauðri!
- Mataræði sem inniheldur mikið af unnum matvælum, hvítu hveiti og hvítum viðbættum sykri. Getur valdið „leaky gut“ eða lekandi þörmum. Lek þarmaslímhúð er opin leið fyrir ýmsar óæskilegar bakteríur og annað sem getur skaðað heilsu okkar.
- Mikil kjötneysla
- Langvarandi streita og svefnleysi
- Hreyfingarleysi
- Mengun
En hvað getum við gert til þess að stuðla að sem heilbrigðastri þarmaflóru?
- Augljósasta og fyrsta skrefið í að viðhalda heilbrigðri þarmaflóru er að forðast eða draga sem mest úr því sem nefnt er hér að ofan og er talið skemmandi fyrir þarmaflóruna. En auðvitað getur verið erfitt að stýra ýmsu t.d. mengun í umhverfi okkar eða erfðum okkar. Við getum heldur ekki stjórnað því hvort móðir okkar hafði okkur á brjósti eða hversu heilbrigt uppeldi við höfum fengið.
- Reyna að borða sem freskastan mat án allra aukaefna. Veljum mat í sinni ferskustu mynd t.d. appelsínuna í stað appelsínusafans.
- Borðaða trefjaríka fæðu s.s. gróft kornmeti, grænmeti og ávexti.
- Borða gerjuð matvæli eins og t.d. jógúrt, AB-mjólk , LGG, súrkál og/eða neyta hágæða „probiotic“ fæðubótarefna.
- Hreyfa sig rösklega a.m.k. 30 mínútur á dag. Nota hversdaginn til að hreyfa sig.
- Gera ráðstafanir til að stjórna streitu og ná góðum svefni á hverri nóttu.
Þó við sjáum ekki þarmaflóruna og þær bakteríur sem þar lifa verðum við að fara að haga lífi okkar þannig að þessi mikilvæga flóra fái að blómstra og þar með líka heilsa okkar.
Skrifað af Geir Gunnari Markússyni, ritstjori@nlfi.is
Heimild: nlfi.is