Elsku pabbi, ég ætla að kveðja þig núna
„Elsku pabbi. Í gegnum tíðina hef ég verið mjög ósátt, full af skömm, sorgmædd og reið vegna upplifana úr mínu uppeldi, og þá sérstaklega reið yfir þeirri staðreynd að þú fórst frá mér án þess að útskýra fyrir mér af hverju hlutirnir voru eins og þeir voru, og án þess að segja að þér þætti leitt að hafa lagt svona mikið á mig og systkini mín“, skrifar kona á Lausnin.is. Hún heldur áfram:
Ég geri mér grein fyrir því að flest ef ekki allt sem miður fór í uppeldinu má rekja til óreglu þinnar. Allt ofbeldið milli þín og mömmu sem fylgdi óreglunni, alveg frá því ég var lítil stelpa, og gerði mig svo hrædda og óörugga. Rifrildin þegar þú varst edrú og skelltir hurðum og braust eitthvað, öskraðir á okkur, notaðir ljót orð sem sitja eftir í sálinni, og fórst svo kannski til vinnu, og ég man hvað ég kveið fyrir að koma heim þegar þú værir búinn að vinna.
Svo situr mjög í mér tíminn eftir fylleríin þegar þú varst búinn að vinna mömmu aftur á þitt band, t.d. með því að kaupa eitthvað fyrir hana, þá gleymdirðu alltaf að hugsa um okkur, börnin þín, sem vorum búin að upplifa „hrylling“ . Við sátum alltaf eftir svo vonsvikin, hrædd og kvíðin fyrir næsta fylleríi, og þú útskýrðir ekkert fyrir okkur, baðst okkur ekki fyrirgefningar, sagðir okkur aldrei að þú elskaðir okkur, og þetta væri ekki okkur að kenna.
Ég man reyndar eftir alla vega tveimur skiptum þegar þú varst búinn að vera týndur dögum saman og birtist svo allt í einu heima með lítinn hvolp, sem ég held að hafi verið þín leið til að segja fyrirgefðu. En þú varst svo veikur að þú áttaðir þig ekki á því að VIÐ fjölskylda þín vorum líka svo veik og í engu jafnvægi til að taka að okkur uppeldi á hundi, höfðum nóg með okkur sjálf, og því var gleðigjafinn fljótlega sendur í sveit.
Gleymdir sjálfum þér og fjölskyldunni
Í dag skil ég að þú varst mjög sjúkur alkóhólisti sem áttir svo erfitt með að horfast í augu við þinn sjúkdóm, sem hafði síðan mjög slæmar afleiðingar á þig og fjölskylduna þína. Þú varst mikil tilfinningavera, og máttir ekkert aumt sjá, varst alltaf tilbúinn að hjálpa þeim sem áttu bágt, en gleymdir kannski sjálfum þér og fjölskyldu þinni, sem voruð hvað mest hjálparþurfi.
Þegar ég lít til baka í dag finnst mér eins og ég hafi ekki verið þátttakandi í fjölskyldulífinu, mér finnst ég hafa verið áhorfandi. Ég veit ekki hvernig ég get útskýrt þetta öðruvísi, en mér finnst ég ekki hafa tengst ykkur mömmu tilfinningalega, eina manneskjan úr uppvexti mínum sem ég finn í hjarta mínu að elskaði mig var amma. En mér þykir mjög vænt um þig og met mikils það góða sem ég tel mig hafa fengið úr uppeldinu frá þér.
Ég fann það svo sterkt þegar þú lást banaleguna og það var svo ótrúlegt að á milli þess sem þú varst sárkvalinn, varstu að segja okkur sögur úr fortíð þinni, og mig langaði svo til að snerta þig eða nudda á þér fæturna eins og systir mín gerði, en ég var ekki viss um að þú vildir að ég gerði það. Það var alltaf einhver tilfinningaleg fjarlægð á milli okkar.
Ég var alltaf hrædd við viðbrögð þín.
Ég er ekki að skrifa þetta bréf til þín pabbi til að viðhalda reiðinni, því síður. Ég er að reyna að vinna mig út úr þessari hræðilegu lífsreynslu að alast upp við alkóhólisma og ofbeldi sem hafði þau áhrif á mig að ég varð mjög meðvirk og lét ykkar þarfir, þínar og mömmu hafa forgang, ég var alltaf að reyna að láta ykkur líða vel, og ég tel mig ekki hafa haft neinar forsendur til að láta mínar þarfir skipta einhverju máli eins og heimilislífið var þegar ég var barn og unglingur.
Ég fór því út í lífið með mjög brotna sjálfsmynd, fannst ég einskis virði og ekki skipta máli, en ég man eftir einni tilfinningu sem var mjög sterk, FRELSISTILFINNINGIN, mér fannst ég loksins vera frjáls, að vera laus frá ykkur og heimilinu, en svo áttaði ég mig fljótlega á því hversu erfitt er að fóta sig í lífinu með þessa fortíð á bakinu.
Þannig að ég hef verið að reyna að axla ábyrgð á sjálfri mér og leita eftir hjálp, gengið misvel. Tel mig loksins hafa fundið þá hjálp sem ég þurfti á að halda, eða kannski er ég loksins nægilega þroskuð til að takast á við sjálfa mig, veit það ekki. En ég er sem sagt hér í Lausninni sem eru sjálfsræktar samtök, og þar er ég að vinna í meðvirkninni, reiðinni, sorginni, skömminni og fleiru sem hjálpar mér svo smátt og smátt að ganga betur að takast á við lífið.
Elsku pabbi ég ætla að kveðja þig núna og veit það innst inni að þér líður betur og gengur betur að takast á við hlutina. Ég vil að þú vitir að ég er sátt við þig og fortíðina og trúi því að þú hafir gert eins vel og þú gast miðað við aðstæður þínar.
Kveðja, þín dóttir.
Skiptum okkur af. Stöðvum heimilisofbeldi.