Þegar þú trúir ekki á neitt þá trúirðu - Guðni og hugleiðing dagsins
Þegar þú trúir ekki á neitt þá trúirðu
Okkur er tamt að tala um trúleysingja. En þeir eru ekki til. Sá sem trúir ekki á neitt trúir á þá hugmynd að hann trúi ekki á neitt. Sá sem getur dregið svona ályktun trúir.
Vissulega er hægt að staðsetja lífsviðhorf sín þannig að maður neiti að gangast inn á kreddur og reglur tiltekinna trúarbragða. Það er líka sjálfsagt og skiljanlegt að neita að gangast inn á hugmyndina um guð sem gamlan og skeggjaðan kall sem svífur um á hvítu skýi.
Við forðumst að taka lífið í eigin hendur og forðumst líka að treysta æðri máttarvöldum fyrir lífi okkar. Þetta er barátta á milli forræðishyggju og sjálf- stæðisbaráttu – við neitum að trúa því að við séum eingöngu fórnarlömb eigin aðstæðna, en neitum líka að bera fyllilega ábyrgð á þeim.
Við erum að slitna á milli þessara tveggja hugmynda en sjáum ekki að þær tengjast – þær tengjast með því að ég er guð og guð er ég:
Guð er besta mögulega útgáfa af mér. Guð er ég þegar ég skín í frelsinu. Guð er ég þegar ég er ljós.
Ekkert af þessu hefur með skipulögð trúarbrögð að gera. Þegar upp er staðið er hægt að sameina þessar tvær hugmyndir. Ég get sett mig í það hlutverk sem guði er ætlað í trúarbrögðum; ég get ákveðið að leggja mig til hvílu þar sem gott er að liggja, að hressa sál mína, að vera minn hirðir, að standa með mér, að vernda mig, að búa mér borð frammi fyrir fjendum mínum.