Þetta er ástæðan fyrir því að þú átt ekki að taka símann með þér á klósettið
Hér áður fyrr var ekki óalgengt að fólk tæki dagblöð eða tímarit með sér á klósettið en nú til dags er algengara að fólk hafi símann sinn með í för. Þetta segja sumir sérfræðingar áhyggjuefni enda kemst síminn í snertingu við alls kyns bakteríur og gæti meðal annars dreift salmonellu og E. Coli.
Verst er þegar fólk notar sömu hönd til að skeina sér, sturta niður, taka úr lás og snertir svo símann áður en það hefur þvegið sér um hendurnar. „Ef þú skeinir þér og tekur svo upp símann gætirðu allt eins sleppt því að þvo hendurnar því allar bakteríurnar sem fóru á símann munu enda aftur á höndunum þínum,“ segir Dr. Lisa Ackerley í samtali við Metro. Því leggur hún til að fólk sleppi því alfarið að taka símann með á klósettið því jafnvel ef síminn er látinn liggja á hillunni getur hann safnað að sér bakteríum. Misjafnt er eftir salernum hversu mikil smithættan er og sérstaklega varasamt að hafa síman með á almenningssalerni.
Þar sem bakteríur geta einnig farið á flug þegar sturtað er niður skiptir máli að loka klósettinu áður og ef þú stenst ekki mátið að hafa símann með á salernið er gott ráð að stinga honum í vasann áður en það kemur að því að þrífa þig. Dr. Ron Cutler, einn af þremur viðmælendum Metro, segir sýkla geta lifað í nokkra daga á símaskjánum.
Símar hitna örlitið sem skapar kjöraðstæður fyrir bakteríur. Ef fólk meðhöndlar sætindi og skilur eftir klístur á símanum er það enn betra fyrir bakteríur.
Ólíkt kollegum sínum heldur Dr. Val Curtis því fram að þetta sé ekkert stórmál og bendir á að bakteríur séu allt í kringum okkur. Við höfum svo miklar áhyggjur af hreinlæti að verði beinlíns skaðlegt. Við smitumst ekki af eigin bakteríum en skortur á hreinlæti geti valdið því að við smitum aðra og aðrir smiti okkur. Hins vegar segir hún að hið raunverulega áhyggjuefni séu óhreinar hendur, ekki óhreinir símar.