Þorskur undir krydduðum osta- og rasphjúp
Mér finnst ég allt of sjaldan setja fiskuppskriftir hingað inn. Það er ekki það að ég eldi sjaldan fisk heldur frekar að hann er svo óspennandi hjá okkur.
Krakkarnir fá ekki leið á soðnum fiski og ég læt það allt of oft eftir þeim að hafa soðinn fisk með kartöflum, smjöri og tómatsósu í matinn. Síðan erum við öll mjög hrifin af bleikju og með henni höfum við ýmist kartöflubáta í ofni, salat og hvítlaukssósu eða soðnar kartöflur, gulrætur eða brokkólí og brætt smjör. Þess á milli höfum við plokkfisk, steiktan fisk eða fiskibollur og ef ég fæ að ráða reyktan fisk með soðnum kartöflum og bræddu smjöri.
Mér þykir það æðislega gott en er því miður ein um það hér á heimilinu.
Það gerist síðan inn á milli að ég hristi upp í hlutunum og geri fiskrétt og þá þykir mér upplagt að setja uppskriftina hingað inn. Eins og þennan þorskrétt sem allir voru hæstánægðir með. Þetta er nokkurs konar uppskrift af fiski í raspi, nema án vesenisins við að velta fiskinum upp úr eggi og raspi og steikja á pönnu. Einfalt, fljótlegt og stórgott!
Þorskur undir krydduðum osta- og rasphjúp (uppskrift frá Familjekassen)
- um 600 g þorskur (eða ýsa)
- 1 dl raspur
- 100 g rifinn ostur
- 1 hvítlauksrif
- 2 msk fínhökkuð steinselja
- salt og pipar
- smjör
Hitið ofninn í 150°. Leggið fiskinn í smurt eldfast mót. Saltið og piprið. Blandið raspi, rifnum osti, steinselju og pressuðu hvítlauksrifi saman og setjið yfir fiskinn. Setjið smjör yfir, annað hvort brætt smjör sem er dreift yfir eða skerið sneiðar (t.d. með ostaskera) og leggið víðs vegar yfir rasphjúpinn. Bakið í um 10 mínútur, hækkið þá hitann í 200° og bakið áfram í 5 mínútur til að rasphjúpurinn fái fallegan lit.
Ef þú vilt hafa samband þá er ég með netfangið svavag hjá gmail.com
Bestu kveðjur, Svava.
Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í