Þunglyndi jafn stór áhættuþáttur fyrir hjartasjúkdóma og reykingar
Þunglyndi flokkast undir andleg veikindi. Það gleymist þó oft að þunglyndi hefur einnig mikil áhrif á líkamann og starfsemi hans og er meðal annars áhættuþáttur fyrir hjartasjúkdóma. Því er mjög brýnt að meðhöndla þunglyndi, sé það til staðar, og eru meðferðir við því oftar en ekki árangursríkar.
Flestir áhættuþættir hjartasjúkdóma eru líkamlegir eins og reykingar, aldur, offita, of hár blóðþrýstingur og fleira. Rannsóknir benda þó til að það sé allavega einn áhættuþáttur sem er andlegur og hefur ekkert minni áhrif, og það er þunglyndi.
Suma áhættuþætti er ekki hægt að vinna með til að minnka hættuna á hjartasjúkdómum, en þetta eru meðal annars þættir eins og kyn, fjölskyldusaga og aldur. Eldra fólk er í meiri hættu á að fá hjartaáfall, karlar eru í hættu á að fá hjartaáfall fyrr en konur (en hættan jafnast síðan út í lok breytingarskeiðs kvenna), og í sumum fjölskyldum hafa margir ættliðir fengið hjartaáfall fyrir þrítugt, fertugt eða fimmtugt.
Aftur á móti eru aðrir áhættuþættir sem vel er hægt að vinna með til að minnka áhrif þeirra. Hér má nefna reykingar, offitu, of háan blóðþrýsting/kólestról, hreyfingarleysi o.fl. Þetta á einnig við um þunglyndi.
Þunglyndi getur skert lífsgæði einstaklinga töluvert, valdið miklum erfiðleikum og haft töluverð áhrif á daglegt líf fólks. Þunglyndi hefur ekki aðeins mikil áhrif andlega heldur líka líkamlega. Það hvað þunglyndi gerir viðkomandi erfitt fyrir að halda uppi heilsusamlegum lífstíl, góðum svefni, góðu mataræði eða hreyfingu, getur haft töluverð áhrif á hættuna á sjúkdómum sem og framvindu þeirra. Þetta á einnig við um hjartasjúkdóma.
Í pistli á vefsíðu The Sydney Morning Herald ræðir Paula Goodyer, sem skrifar pistla tengda heilsu, við prófessor Gavin Lambert hjá Baker IDI Heart and Diabetes Institute. Hann segir þunglyndi vera áhættuþátt sem þurfi að taka jafn alvarlega og aðra áhættuþætti, þunglyndi hafi jafnvel jafn mikil áhrif á hættu á hjartasjúkdómum og reykingar. Hann segir þunglyndi ekki aðeins vera áhættuþátt fyrir því að þróa með sér þunglyndi heldur geti það einnig haft slæm áhrif á hjartasjúkdóm sem er til staðar fyrir.
Prófessor Lambert segir þunglyndi hafa lífeðlisfræðileg áhrif á hjartað með því að auka framleiðslu á stresshormóninu noradrenalíni sem hefur með „berjast eða flýja“ (e. fight or flight) viðbrögðin okkar að gera. Fari of mikið af þessu hormóni út í æðarnar yfir langan tíma þá geti það skemmt þær. Það getur þrengt æðarnar, líkt og reykingar geta gert, þannig að þær stíflist frekar.
Einnig getur þetta valdið öðrum breytingum sem auka hættuna á fituúrfellingum í æðum, þetta getur einnig aukið bólgur sem auka síðan líkurnar á blóðtöppum og getur einnig haft hækkandi áhrif á blóðþrýstinginn. Lambert segir að allt þetta aukna álag á æðarnar séu ekki einu áhrifin sem þunglyndi hefur, heldur geti þunglyndi einnig aukið líkurnar á að einstaklingur sé sinnulaus gagnvart heilsunni. Reyki, drekki of mikið, hreyfi sig ekki, borði óhollt eða taki ekki lyf sem hann á að taka.
Rannsókn sem gerð var í Noregi fylgdi um 63.000 einstaklingum eftir yfir 11 ára tímabil og er stærsta langtímarannsóknin sem skoðað hefur tengslin milli þunglyndis og hjartasjúkdóma. Á þessu tímabili fengu um 1500 þátttakendur hjartabilun. Niðurstöður sýndu að tengsl voru á milli þunglyndis og hjartabilunar. Hjá þeim sem voru með vægt þunglyndi voru 5% meiri líkur á hjartabilun í framtíðinni. Enn meiri tengsl voru þegar um ræddi miðlungs og alvarlegt þunglyndi, eða um 40% meiri hætta á hjartabilun. Rannsóknin var kynnt á árlegum fundi Evrópska Samfélagsins í Hjartasjúkdómafræði (e.the European Society of Cardiology) í apríl 2014 en hefur ekki verið birt í ritrýndu tímariti svo mikilvægt er að horfa á þessar niðurstöður sem frumdrög.
Þó niðurstöðunum beri að taka með fyrirvara, þá eru þær engu að síður áhugaverðar. Lisa Tuset Gustad megin rannsakandi rannsóknarinnar segir að sambandið sem rannsóknin hafi leitt í ljós virki þannig að því þunglyndari sem viðkomandi er, því meiri er hættan á hjartabilun. Þar sem þættir sem fylgja oft þunglyndi eins og hreyfingarleysi, reykingar, slæmt mataræði og fleira gætu verið að hafa áhrif á niðurstöðurnar, þá skoðaði rannsóknarteymið einnig hver áhrif þunglyndis voru þegar búið var að stjórna fyrir öllum þessum þáttum, þannig að þeir spiluðu ekki inn í niðurstöðurnar. Tengslin milli þunglyndis og aukinnar áhættu á hjartabilun voru sterk þrátt fyrir að áhrif allra þessa þátta væru fjarlægð.
Samkvæmt Gustad er ein af þeim kenningum sem gæti útskýrt þetta samband sú að þunglyndi hækkar stig stresshórmóna sem með tíð og tíma geta valdið bólgum og æðakölkun, sem geta valdið hjartasjúkdómum. Sambandið er þó aftur á móti hvorki skýrt né einfalt og aðrir þættir gætu verið að hafa áhrif, erfðaþættir og hormóna vanvirkni þar á meðal. Áhrif stresshormóna gæti verið undirliggjandi áhrifaþáttur bæði þunglyndis og hjartasjúkdóma og því ekki endilega annað sem veldur hinu. Frekari rannsókna er þörf til að skoða þessa kenningu betur, en bæði prófessor Lambert og Lisa Tuset Gustad tala um áhrif stresshormóna í þessu samhengi [3][4].
Rannsakendur vilja einnig leggja áherslu á það að þó niðurstöðurnar gefi til kynna tengsl, þá sé ekki hægt að segja til um orsök og afleiðingu þunglyndis og hjartasjúkdóma. Það geti jafnvel verið að þunglyndi valdi bara ákveðnum breytingum í líkamanum sem auki síðan hættu viðkomandi á hjartasjúkdómum.
Samkvæmt vef Landlæknisembættisins þjást um 12-15 þúsund manns af þunglyndi á Íslandi á hverjum tíma [5]. Það er mikilvægt að hafa í huga að þunglyndi veldur ekki aðeins gríðarlegri vanlíðan fyrir þann sem hrjáist af því heldur hefur það einnig töluverð áhrif á líkamlega heilsu. Því er ekki hægt að leggja nægilega áherslu á mikilvægi þess að grípa inn í sem fyrst, taka í taumana og fá aðstoð við að meðhöndla þunglyndi sé maður að glíma við það.
Einkenni þunglyndis geta komið fram á margan hátt, en yfirleitt er eitthvað af eftirfarandi einkennum til staðar:
Depurð og vanlíðan eða ánægjuleysi/áhugaleysi á því sem áður veitti ánægju.
Breyting á svefnmynstri; erfiðleikar með að sofa, halda sér sofandi, eða of mikill svefn.
Aukning í matarlyst eða minnkuð matarlyst.
Breytingar á hreyfanleika, hægagangur eða óróleiki
Orkuleysi, mikil þreyta.
Einbeitingarleysi, erfiðleikar með hugsun og ákvarðanatöku.
Sektarkennd.
Vonleysistilfinning.
Tómleikatilfinning.
Pirringur, stuttur þráður.
Stutt í tárin.
Tilfinning um að vera einskins virði.
Framtaksleysi.
Félagsleg einangrun, lítill áhugi á að vera meðal fólks.
Dauðahugsanir, hugsanir um sjálfsvíg.
Það er mikið í húfi, bæði fyrir líkama og sál, og mikið af árangursríkum úrræðum í boði. Sálfræðimeðferð hefur reynst sérstaklega vel við meðhöndlun þunglyndis, og sé þunglyndið alvarlegt er sálfræðmeðferð og þunglyndislyf oft notað saman með góðum árangri.
Gruni þig að þú sért að kljást við þunglyndi skalt þú ræða það við fjölskyldu og/eða vini ef þú treystir þér til. Einnig skaltu leita til fagaðila til að fá viðunnandi aðstoð. Andlegir erfiðleikar eru mjög algengir en yfirstíganlegir.
Taktu ábyrgð á eigin heilsu og leitaðu þér aðstoðar ef þig grunar að þú sért að glíma við þunglyndi
Heimild: hjartalif.is