Tilfinning velsældar og allsnægta - hugleiðing dagsins
Þakklæti er uppljómun
Þakklæti er uppljómun. Þegar ég er sannarlega þakklátur upplifi ég sterka tilfinningu velsældar og allsnægta. Þá finn ég fyrir mér. Þá finn ég fyrir okkur í sál minni, finn fyrir öllum og öllu sem er, finn fyrir guði.
Ég er ekki að tala um að hugsa um þakklæti eða segjast vera þakklátur heldur að finna fyrir og upplifa þakklæti. Þegar það gerist er ég í núinu, í augnablikinu og upplifi sannarlega velsæld og finn mjög sterkt fyrir tíðni hjartans. Þegar ég finn fyrir þakklæti þá finn ég ekki fyrir neinu öðru – engum skorti, þunglyndi eða sjálfsvorkunn. Þakklætið tekur allt rýmið – ég er tendraður af þakklæti; upplýstur.
Í þakklæti vantar ekki neitt. Þá er það bara ég og heimurinn, allur, eins og hann leggur sig. Þannig skapar listamaðurinn – í núinu skapar hann í fullkomnu frelsi.
Ég er ekki upplýstur maður sem er fullur af vitneskju heldur er ég fullur af ljósi; heilögu ljósi núsins og alls heimsins.
Þakklæti er ljós – þar með er þakklæti þverrandi myrkur. Þar með er myrkur aðeins skortur á þakklæti – vanþakklæti – því að hið eina sanna er ljós; allt annað er blekking.
Andstæða þakklætis er höfnun, viðnám, sjálfsvorkunn, þreyta og skortur. Í nútíma samfélagi verjum við mikilli orku í að ætla að verða hamingjusöm og við verðum vissulega þakklát inn á milli – helst þegar við höfum náð tilteknum árangri eða mark- miðum. Við lítum oft á gjafir tilverunnar sem áreiti frekar en ábendingu; frekar en einfalda staðreynd í heiminum sem okkur býðst að fást við. Þannig gerum við lítið úr gæfu-gjöfunum og gerum bókstaflega ekkert úr ógæfu-gjöfunum; úr árekstrum sem hreyfa mikið við okkur. Samt felast mestu tækifærin í þeim atburðum sem opinbera okkur sjálf; þeim sem áreita okkur.
Þakklæti er ljós.
Vanþakklæti er skortur á ljósi.