Fara í efni

Túrbó-fjölskyldan

Flestir kannast efalaust við túrbó-vélar í bílum. „Túrbó” vél hefur þennan eftirsótta auka kraft, kemur farartækinu lengra og hraðar en aðrar vélar gera, í gegnum snjó og aur, upp brekkur og torfærur. Sem sagt gott til síns brúks.
Túrbó-fjölskyldan

Flestir kannast efalaust við túrbó-vélar í bílum. „Túrbó” vél hefur þennan eftirsótta auka kraft, kemur farartækinu lengra og hraðar en aðrar vélar gera, í gegnum snjó og aur, upp brekkur og torfærur. Sem sagt gott til síns brúks.

Gallinn er sá að þeir sem eiga ökutæki búnum slíkum vélum freistast oft til þess að leggja meira á heimilisbílinn en góðu hófi gegnir. Sem aftur þýðir að hann slitnar fyrr og bræðir jafnvel úr sér í einhverri torfærunni af því að eigandinn gáir ekki að sér.

Á vissan hátt er hægt að líkja mörgum nútíma, íslenskum fjölskyldum við túrbó-vélarnar. Ég hef stundum leyft mér að kalla þær „túrbó-fjölskyldur”. Hin dæmigerða íslenska túrbó-fjölskylda er með bensínið í botni og nýtir túrbó-kraftinn til fulls til að keyra sig áfram á hraðbraut nútíma samfélagsins. Og það er svo sannarlega margt sem kallar á kraftana. Flest hjón vinna bæði úti langan vinnudag, miklu lengri en gerist í nágrannalöndum okkar, enda launin lægri og neyslan meiri sem þarf að fjármagna. Og þetta byrjar snemma! Út um allt land eru framhaldsskólanemar útkeyrðir í skólanum, ekki vegna þess að þeir séu að lesa yfir sig, heldur vegna þess að þeir eru á haus í vinnu eftir skóla. Það er reyndar ekkert auðvelt að segja í vinnunni „nei nú ætla ég að hætta og fara heima að sinna fjölskyldunni minni”, því það er eins gott að hafa vinnuveitendur góða ef börnin veikjast. Þið munið, túrbó-fjölskyldan á bara sjö veikindaga á ári vegna barnanna. Svo þarf að kaupa í matinn, taka til og þvo þvott, borga skuldir, skutla börnunum í allskonar félagsstarf, já og kaupa handa þeim allar nýjustu græurnar (=meiri yfirvinna!), ef ekki er verið að sendast með þau milli „gæsluúrræða” í hádegispásunni. Ekki má gleyma að sinna líkamsræktinni, golfinu eða gleðskapnum með vinnufélögunum („næst tökum við makann með, ha!”). Og túrbó-fjölskyldan stendur sig vel, fyrirmynd annarra fjölskyldna.

En svo einn góðan veðurdag, öllum að óvörum, bræðir túrbó-vél fjölskyldunnar úr sér. Þá uppgötvast að það gleymdist að viðhalda því sem mestu máli skipti. Það er sambandi þeirra sem túrbó-fjölskyldan byggir á, sambandi pabba og mömmu. Þau áttu víst aldrei stund saman nema þegar þau voru að skipuleggja vaktina næsta dag. Svo voru allir þotnir af stað. Þau þekktust ekki lengur! Og þess vegna bræddi fjölskyldan úr sér.

Er ekki kominn tími til að skipta um gír og hugsa um það sem mestu máli skiptir?

Áður en allar túrbó-fjölskyldur landsins bræða úr sér?

Grein af vef doktor.is