Undirbúningur fyrir keppni - Punktar úr smiðju Fríðu Rúnar
Hér á eftir koma hollráð úr smiðju Fríðu Rúnar Þórðardóttur íþróttanæringarfræðingi og hlaupara úr ÍR. Hollráðin eru aðallega hugsuð fyrir hlauparann en geta einnig gagnast þeim sem taka þátt í annarskonar úthalds tengdri keppni hvort heldur sundi, þríþraut eða skíðagöngu. Einnig geta sum hollráðin gagnast við daglegar æfingar.
*Ætlaðu þér ekki að bæta upp fyrir æfingarnar sem þú ætlaðir að taka en tókst ekki með því að æfa extra mikið síðustu dagana fyrir. Æfðu frekar létt og skynsamlega og leyfðu líkamanum að hvílast vel og ná þannig fram sínu besta.
*Forðastu stress, það gerir þú með því að skipuleggja þig vel.
*Hafðu allt tilbúið kvöldið áður og gættu þess að standa klár á því hvernig flagan er fest við skóinn.
*Ekki prófa „neitt“ nýtt daginn fyrir og á hlaupadegi, þar sem orðið „neitt“ felur í sér búnað og næringu.
*Forðastu að borða of mikið að morgni keppnishlaupsins. Gættu þess vel að borða tímanlega, í rólegheitum og síðast en ekki síst, mat sem þú hefur borðað áður fyrir sambærileg hlaup eða fyrir æfingu.
*Mundu að ef þú ert að fara hálft eða heilt maraþon er vatn ekki næg næring og orka á leiðinni.
*Ef þú ert ekki vanur að hlaupa og drekka á sama tíma er oft gott að hægja á sér jafnvel alveg niður á röska göngu á meðan drukkið er.
*Stundum er gott að smyrja geirvörtur og staði sem mögulega geta nuddast í hlaupinu með vaselíni eða öðru mjög feitu kremi, það getur komið í veg fyrir nuddsár og sársauka í hlaupinu og eftir það.
*Vertu klár á hlaupaleiðinni, hvar klósettinu eru, hvar má leggja bílnum og hvaða götur eru lokaðar á leið þinni á hlaupastað. Gerðu ráð fyrir að vera mættur 45 mínútum fyrir startið. Ef þú hefur tök á því að hjóla á staðinn þá er það kostur og getur verið hluti af léttri upphitun.
*Gættu þess að skórnir þínir séu þurrir og tiltölulega hreinir þegar þú leggur af stað. Þó svo að skórnir séu í nokkurri fjarlægð frá höfðinu hefur ástand skónna töluverð áhrif á hugann og hvernig upplifunin er þegar þú leggur af stað.
*Vertu jákvæður og glaður, það er gaman að vera hlaupari og þú getur smitað jákvæðninni yfir til annarra.
*Reyndu að draga fjölskyldu og vini sem ekki ætla að hlaupa að hliðarlínunni, þeir munu meta það við þig að hlaupi loknu að hafa fengið að upplifa stemminguna með þér og öllum hinum.
*Númerið á alltaf að festast framan á þann fatnað sem þú ætlar að hafa sýnilegan þegar þú kemur yfir marklínuna.
*Ekki vera skvekktur þó svo að bætingartíminn komi ekki samkvæmt pöntun. Aðstæður eru svo mismunandi frá hlaupi til hlaups svo og dagsformið þitt. Njóttu þess að vera með og gera þitt besta þann daginn. Það má líka alltaf líta á þátttöku í hverju hlaupi sem frábæra æfingu sem seint verður toppuð og dýrmætt innlegg í sífellt stækkandi reynslubanka.
*Mundu að það er ekki aðeins þú sem ert að erfiða og finnur til, allir hinir líka, hver á sinn hátt.
*Skráðu niður hvernig þú hagar undirbúningnum frá föstudagsmorgni og fram að hlaupi. Einnig hvernig þér líður í hlaupinu og daginn eftir, þetta eru mikilvægir punktar fyrir næsta skipti.
*Settu þér nýtt markmið sem fyrst eftir að hverju hlaupi líkur og stattu við það eins og aðstæður og lífið býður uppá.
Fríða Rún Þórðardóttir