„Úr eigin reynslubrunni“
Tengsl fæðuofnæmis, fæðuóþols og brjóstagjafar
Inngangur:
Það er algengt að börn glími við svokallaða „magakveisu“ þegar þau eru á aldrinum 1 – 4 mánaða. Þetta er mis alvarlegt hjá börnum og þó svo að dragi úr kveisunni og hún gangi yfir í flestum tilfellum er ekki þar með sagt að móðirin geti ekki gert eitthvað til þess að draga úr óþægindum barnsins. Mín reynsla sem móður er sú að þessi magakveisa stafi oft af einhvers konar fæðuofnæmi eða fæðuóþoli.
Ég er ekki menntuð sem sérfræðingur á þessu sviði og er ekki að halda því fram að alla magakveisu hjá ungbörnum megi rekja til fæðuofnæmis eða fæðuóþols, en ég hef lært að fæða móður sem er með barn á brjósti getur haft mikil áhrif á líðan barnsins. Þetta er líka vitneskja sem er vel þekkt úr fræðunum. Með framlagi mínu hér á Heilsutorgi hyggst ég veita úr mínum viskubrunni.
Sagan okkar:
Dætur mínar tvær hafa báðar greinst með fæðuofnæmi og fæðuóþol. Þær greindust mjög ungar, eða um 1 mánaða gamlar. Sú eldri var ekki nema 6 vikna gömul þegar við fengum staðfestingu á því að hún væri með mjólkur- og sojaóþol. Barninu leið mjög illa, hún var öll út í úbrotum, grét mikið og þurfti ég að leita eftir hjálp stórfjölskyldunnar við að sinna henni þar sem hún kastaði öllu upp. Auk þess þá þurfti að ganga með hana í stórum dýfum um öll gólf svo henni liði betur og það tók á.
Hins vegar þegar ég tók mjólkur- og sojaafurðir út úr mínu mataræði lagaðist hún mikið, þó svo að ýmsir aðrir kvillar væru að gera henni lífið leitt. Ég átti sjálf mjög erfitt með að taka út allar matvörur sem innihéldu mjólk- og sojaafurðir því það er mjög mikil vinna að vera á slíku sérfæði. Ég þurfti einnig að hafa orku til að sinna öðru ungu barni auk þess sem ýmislegt dundi á fjölskyldunni á sama tíma. Á endanum gafst ég upp og ráðfærði mig við ofnæmislækni og var ákveðið að setja dóttur okkar á Nutramigen en hún var þá um 2 mánaða gömul. Ég hætti því með hana á brjósti og þótt ég hefði alls ekki séð eftir þeirri ákvörðun var ég ákveðin í að reyna með næsta barn að hafa það á brjósti ef upp kæmi fæðuofnæmi eða -óþol.
Árið 2011 eignaðist ég svo aðra stelpu. Í byrjun var hún allt öðruvísi, mjög vær og góð og leið vel en fór þó fljótlega að fá ofnæmiseinkenni í andlit og kastaði oft upp eftir gjöf. Ég hætti strax að neyta mjólkurvara og sá mikinn mun á henni við það eitt. Hún var samt enn frekar þrútin í framan og rauðflekkótt og reyndi ég að taka út allt sem mér datt í hug að gæti valdið þessu.
Hvað var til ráða ?
Ég byrjaði á því að taka út alla mjólk, fisk, egg, soja og hnetur. Hún losnaði við öll einkenni við það. Eftir 2 vikur á alveg hreinu fæði fór ég smátt og smátt að bæta inn afurðum. Fyrst prófaði ég að setja aftur inn soja og síðan egg, en þá sá ég og fann breytingu á henni. Ég tók því eggin út aftur og hélt áfram að bæta hinum matvælunum inn. Ég hélt brjóstagjöf áfram og var hún á brjósti þar til hún varð eins árs. Hún fór í ofnæmispróf 6 mánaða og kom þá í ljós að hún var með mjólkurofnæmi en eggin komu ekki fram í prófinu og fór ég því heim og prófaði að fá mér egg. Hún fékk útbrot og því ákvað ég að halda áfram að sleppa öllum eggjaafurðum. Brjóstagjöfin gekk mjög vel en ég viðurkenni þó alveg að það reyndi oft á að þurfa að hætta að borða allt sem innihélt mjólkur- og eggjaafurðir. Það hjálpaði mér þó að hugsa til þess að þetta var aðeins tímabundið og einnig hjálpaði að vita að með þessu væri ég að tryggja barninu mínu betri heilsu og líðan. Enda var það svo að á fyrsta árinu varð hún nánast aldrei lasin og dafnaði mjög vel.
Reynslunni ríkari:
Eftir þessa reynslu mína get ég því mælt bæði með því og á móti að halda áfram brjóstagjöf ef ungbarn greinist með fæðuofnæmi- eða óþol. Breytingin á mínu mataræði gekk vel þegar aðstæður buðu upp á það og ég var vel undirbúin þ.e. þegar ég var búin að prófa slíkt mataræði áður og vissi því upp á hár hvað ég mátti borða og hvað ekki. Í tilfelli yngri dóttur minnar voru aðstæður líka góðar að því leyti að allir aðrir á heimilinu voru heilsuhraustir og heimilið í góðu jafnvægi. Það hjálpaði einnig mikið hvað hún var vær þrátt fyrir ofnæmið. Ég sé alls ekki eftir því að hafa hætt með þá eldri á brjósti eins snemma og raun bar vitni það var nauðsynlegt; hún þyngdist illa, heimilisaðstæður voru erfiðar og ég sjálf kunni ekkert á svona mataræði. Það var líka mikill munur á því að taka út egg- og mjólk heldur en soja- og mjólk, að taka út soja- og mjólk fannst mér nánast ómögulegt.
Reynslan sýndi mér líka að fæðuóþol getur orðið mjög erfitt viðureignar, jafnvel erfiðara á köflum en að glíma við fæðuofnæmi. Barnið sem var með fæðuóþol gekk í gegnum miklu erfiðari veikindi en sú sem var með fæðuofnæmi, henni leið mun verr og það var mjög erfitt að fá greiningu á því hvað var að hrjá hana. Það er því ekkert til sem heitir að vera „bara með fæðuóþol“.
Niðurlag:
Ef að barnið þitt er með útbrot í andliti eftir að hafa legið á brjósti, það kastar mikið upp, er með ungbarnakveisu eða er óvært, ekki hika við að ráðfæra þig við lækni eða hjúkrunarfræðing. Það getur vel verið að þetta séu skýr einkenni þess að barnið er með fæðuofnæmi eða fæðuóþol og því gæti verið nauðsynlegt að grípa til viðeigandi ráðstafana. Það er í flestum tilfellum það að útiloka ofnæmis/óþolsvaldinn úr fæðu barnsins, jafnvel brjóstamjólkinni. Ef þú ert með barn á brjósti þýðir það að þú þarft að útiloka þessa ofnæmis- eða óþolsvalda úr þinni fæðu því það sem þú nærist á kemur fram í brjóstamjólkinni
Báðar dætur mínar glíma enn við mjólkuróþol. Hjá yngri dóttur minni var ekki hægt að greina lengur mjólkurofnæmi um eins og hálfs árs aldur en hún er ennþá mjög viðkvæm fyrir mjólkurvörum. Einkenni dætra minna eru nánast eins í dag, þau lýsa sér þannig að ef þær fá mjólkurvörur fá þær mikla magaverki, stundum útbrot, það verður mikil slímmyndun í hálsi og munni og þær veikjast oft í kjölfarið, exem á húð, slæmt skap, svefn raskast og margt fleira. Dagarnir eru þó misjafnir eins og þeir eru margir og við „stelumst“ oft til að gefa þeim mat sem inniheldur mjólkurvörur, sérstaklega ef við erum í veislum eða heimsóknum. Það eru sem betur fer ýmis úrræði í boði til þess að halda einkennum í lágmarki. Til dæmis hefur okkur reynst ágætlega að gefa þeim lactasatöflur rétt áður en þær neyta matvæla sem innihalda mjólkurvörur. Lactasatöflunnar fást í apótekum og heilsuverslunum og þær hjálpa til við að brjóta niður mjólkursykurinn og hindra því að einstaklingurinn fái verki og óþægindi af völdum mjólkurinnar. Þessar töflur virkar þó aðeins gegn mjólkuróþoli, en hafa ekki áhrif á mjólkurpróteinin.
Gangi þér vel!
Stefanía Sigurðardóttir