Vatnið - hugleiðing dagsins frá Guðna
UM VATN
Ef fiskurinn er veikur skaltu skipta um vatn.
– Dr. Robert Young
Vatn er það mikilvægasta sem við setjum ofan í okkur. Þegar við erum orðin það fjarverandi að við tökum ekki eftir því að við erum þyrst erum við orðin sjálfum okkur hættuleg. Í vatnsskorti minnkar umbreytingarhæfni frumanna og öll starfsemi líkamans einkennist af skorti og þrengingum.
Vatn stendur líka í beinu samhengi við sýrustigið í líkamanum. Það er nauðsynlegt til að halda sýrustigi líkamans í jafnvægi, sérstaklega ef við erum að innbyrða fæðutegundir sem gera líkamann súran.
Ég mæli með því að þú drekkir vel af vatni á fastandi maga. Þannig hreinsarðu kerfið og undirbýrð það fyrir daginn. Sumir drekka soðið vatn sem er mátulega heitt til drykkjar, enn aðrir bæta sítrónu út í það.
Meltingin þarf frið til að starfa og því get ég ekki mælt með því að drekka vatn (eða aðra drykki) með mat. Augljóslega tek ég þó vatn fram yfir alla aðra drykki og bendi á að ekkert spendýr í náttúrunni drekkur vökva sem inniheldur orku.
Stundum er talað um muninn á vínberi og rúsínu. Við erum eins og vínber þegar við erum ung og náum að halda vökvanum innra með okkur, halda okkur rökum. En lífsstíllinn gerir það að verkum að við glötum þessum hæfileika smátt og smátt – við þornum innan frá og verðum eins og rúsínur fyrir aldur fram.