Fara í efni

Vefjagigt: Truflun í ósjálfráða taugakerfinu - Orsök eða afleiðing?

Starfsemi líkamans er stjórnað annarsvegar af viljastýrðum hluta taugakerfisins og hinsvegar af ósjálfráðum hluta (e. autonomic nervous system) þess en þessir tveir hlutar taugakerfisins starfa á afar ólíkan hátt.
Vefjagigt: Truflun í ósjálfráða taugakerfinu - Orsök eða afleiðing?

Starfsemi líkamans er stjórnað annarsvegar af viljastýrðum hluta taugakerfisins og hinsvegar af ósjálfráðum hluta (e. autonomic nervous system) þess en þessir tveir hlutar taugakerfisins starfa á afar ólíkan hátt. Ósjálfráða taugakerfið stjórnar öllum innri líffærum og gerir það án þess að við stjórnum því meðvitað.

 

Ósjálfráða taugakerfið skiptist síðan í tvær greinar annars vegar semjukerfi ( e. sympathetic nervous system) og hins vegar utansemjukerfi (e. parasympathetic nervous system), en þessir tveir hlutar vinna á gagnstæðan hátt þ.e. sympaticus hvetur meðan parasympaticus letur eða sefjar. Forsenda þess að viðhalda jafnvægi í starfsemi líffæra kerfi er hárfínt jafnvægi í stjórnun þessara tveggja greina ósjálfráða taugakerfisins. 

Ósjálfráða taugkerfið er staðsett sitthvoru megin hryggsúlu frá hálsi og niður með allri hryggsúlunni í einskonar perlufesti (mynd. 1). Það hefur síðan stjórnstöðvar sem eru staðsettar í mænu, heilastofni, undirstúku og thalamus kjarna í heila. Einnig hafa margvíslegir aðrir þættir áhrif á starfsemi þessa kerfis m.a. ýmis taugaboðefni.
Í vefjagigt er truflun í starfsemi ósjálfráða taugakerfisins áberandi og þessi truflun á stóran þátt í einkennamynd heilkennisins. Og athyglisvert er að í vefjagigt virðist aukin virkni í semjukerfinu vera einna mest í hvíld.

Hverju stjórnar ósjálfráða taugakerfið?

Ósjálfráða taugakerfið stjórnar starfsemi augna, tára- og munnvatnskirtla, húðar, lungna, hjarta og stjórnar blóðþrýstingi, meltingu, brisi, lifur, gallblöðru, nýrnahettum, þvagblöðru, æxlunarfærum svo eitthvað sé nefnt ( mynd 2.). 
Semjukerfið er oft nefnt streitu-hluti ósjálfráða taugakerfisins og utansemjukerfið róandi-hluti kerfisins, en báðir hlutar eru afar mikilvægir og þurfa að vera í jafnvægi. Í vefjagigt þá er ekki jafnvægi á milli þessara tveggja kerfa og er virkni í semjukerfinu áberandi meiri. Þessi aukna virkni kemur fram á ýmsan hátt og má sjá augljós merki þessarar ofvirkni m.a. í lítilli munnvatnsframleiðslu (munnþurrki), hækkuðum hvíldarpúlsi, meltingartruflunum, svima, jafnvægistruflunum. Jafnframt bendir margt til þess að svefntruflanir í vefjagigt megi rekja til þessarar of virkni í semjukerfinu og að þetta ofurvirka streitukerfi eigi einnig þátt í miðlægri verkjanæmingu. Semjukerfið á að virkjast við allt álag, erfiði og ógn með hraðari hjartslætti, hækkuðum blóðþrýstingi, aukinni svitamyndun og útvíkkuðum sjáöldrum. Aftur á móti sér utansemjukerfið um að róa líkamsstarfsemina með því að hægja á hjartslætti, lækka blóðþrýsting, hvetja munnvatnskirtla til framleiðslu munnvatns og stuðla að góðri meltingu. 

Hvaða áhrif hefur stöðug ofvirkni í semjukerfinu?

Þegar líkaminn er undir stöðugu áreiti frá semjukerfinu þá hefur það neikvæð áhrif á starfsemi innri líffæra; melting verður slök, þvagblaðra verður ofvirk og viðkomandi þarf að pissa í tíma og ótíma og í sumum tilvikum getur það valdið þvagtregðu. Þessi ofvirkni veldur stöðugri spennu í líkamanum, sem aftur veldur vöðvaverkju, stífum bandvef, þreytu og magnleysi í vöðvum – ofurspenntir vöðvar eins og t.d. í herðum verða hreinlega útkeyrðir. Virkni í semjukerfinu virðist vera hvað mest á nóttunni sem truflar svefninn, vekur fólk upp aftur og aftur, stuðlar að spennu í bitvöðvum sem og öðrum andlitsvöðvum, tanngnísti ofl..

Þessi stöðuga ofvirkni í semjukerfinu leiðir að lokum til þess að kerfið verður hreinlega útbrunnið, það er alltaf ofvirkt en getur ekki brugðist við álagi þegar á þarf að halda. Þannig að einstaklingar með langvarandi ofvirkni í streitukerfinu þola alltaf verr og verr álag.

Hvernig er hægt að draga úr virkni streitukerfisins?


Lyf sem draga úr virkni streitukerfisins eru lyf sem alla jafna eru ekki notuð nema í skamman tíma í senn til að róa taugakerfið (fyrir utan lyf sem notuð eru til að hægja á hröðum hjartslætti). 
Farsælasta meðferðin er fólgin í að virkja utansemjukerfið t.d. með slökun, hugleiðslu, djúpöndun eða öðrum sambærilegum meðferðarúrræðum, að greina þætti í daglegu lífi sem valda streitu og reyna að draga úr þeim. Allt sem áreitir líkamann stuðlar að ofvirkni í semjukerfinu, það er ekki bara rifrildi, ágreiningur eða slagsmál sem valda streitu - nei það getur verið hávaði, hiti, kuldi, matur, koffín, sykur, áfengi og reykingar, tímaskortur, skipulagsleysi ofl. ofl.

Þannig að það er afar mikilvægt fyrir hvern og einn að greina alla áreitisþætti og taka á þeim þáttum sem mögulegt er, stunda slökun, heit böð, rækta líkamann, temja sér jákvæða hugsun og það hjálpar að læra hugræna atferlismeðferð.

Birt í samstarfi við

Tengt efni: