Verðhækkun gerir sundfólk buslandi brjálað
Áform borgarstjórnar Reykjavíkur um að hækka staka miða í sund upp í 900 krónur um næstu mánaðarmót hefur valdið talsverðum bægslagangi á Facebook þar sem sundelskt fólk mótmælir hækkuninni hástöfum.
Sund er einhver hollasta og besta hreyfing og líkamsrækt sem völ er á og sundlaugarnar á Íslandi þykja sjálfsagður lúxus. Sundlaugarnar eru líka félagsmiðstöðvar þar sem samfélagsumræðan kraumar í heitu pottunum og mörgum þykir borgarstjórn með hækkuninni vega að einhverri heilsusamlegustu og bestu dægradvöl sem Reykjavík hefur upp á að bjóða.
Airwaves-foringinn Grímur Atlason er einn þeirra sem lýsir óánægju sinni á Facebook og segir það ranga forgangsröðun að reyna að lagfræra rekstur borgarinnar með því að hækka stakar ferðir í sund. "Hugsa aftur og gera það hratt en örugglega," segir Grímur sem ætlar þó ekki að hverfa frá stuðningi sínum við borgarmeirihlutann.
"Nú er sem sagt orðið dýrara að fara í sund í Reykjavík en í Kaupmannahöfn. Betri laugar hér samt," segir Flosi Þorgeirsson og Árni Snævarr skammar borgarstjóra: "Skammastu þín Dagur B. Eggertsson! Svona gerir maður ekki, sundlaugar Reykjavíkur eru heilög vé - og þessi hækkun er algjörlega fráleit enda þegar búið að hækka um hundruð prósenta á liðnum árum." Hann lýkur skammarræðu sinni með því að benda borgarstjóra á að svona geri jafnaðarmenn ekki.
Þorfinnur Ómarsson fær engan botn í hugmyndina um hækkunina: "Er þetta íslensk lýðheilsustefna í hnotskurn? - íslenska þjóðin verður æ feitari, hvað gerum við í því? - hækkum verð í sund! Sorry, krakkar, ekki eyðileggja það sem er einmitt mest sjarmerandi við Ísland, sjálfar sundlaugarnar. Bad move..."
Ásta Hrafnhildur Garðarsdóttir spyr hvort þetta sé í alvöru: "Hvaða flokkur er við stjórn- í alvöru?" Árni Sveinsson segir tiltækið "mjög fyrirsjáanlegt og mjög skúnkslegt." Séra Þórhallur Heimisson leggur orð í belg: "Furðulegt, ætti frekar að vera ódýrara," og Sigurður Bogi Sævarsson hafnar svona smáskammtalækningum: "SUND - Fráleitt á hækka verð á stökum sundferðum. Sundlaugarnar eru mikilvæg félagsmiðstöð og ekkert betra eftir langan vinnudag en að fara í sund. Fjárhag borgarinnar verður ekki bjargað með smáskammtalækningum. Þetta bítur sennilega mest á útlendingum sem borga fyrir hverja staka ferð. Íslendingar eru yfirleitt með kort til lengri tíma."
Aðrir benda á þá augljósu lausn að sækja sund í öðrum bæjarfélögum. "Isspiss. Ég fer bara í sund í Kópavogi í staðin," segir Lena Viderø og Ívar Gissurarson horfir til Mosfellsbæjar: "Þetta er út í hött! Hvað er eiginlega í gangi þarna niðri í Ráðhúsi þessa dagana. Maður getur þó huggað sig við það að í Mosfellsbæ er flott sundlaug og verðlag þriðjungi lægra en í höfuðborginni."