Verði það sem verða vill - hugleiðing dagsins
Það er mjög ríkjandi skoðun að „lífið eigi að hafa sinn vanagang“. Við höfum ákveðið, í sameiningu, að það sé rómantísk hugmynd að láta sig svífa um í lífinu, eins og lauf í vindi:
„Verði það sem verða vill – verði þinn vilji, ekki minn.“
Þess vegna finnst mörgum – þó ekki öllum – mjög órómantísk hugmynd að skipuleggja lífið. Samt er það að lifa lífinu það stærsta og mikilvægasta sem við tökum okkur fyrir hendur. Við erum til í að gera áætlanir fyrir ferðalagið, námsferilinn, fjármálin og alls kyns smærri einingar lífsins – en við erum ekki fús til að setjast niður og skrá hjá okkur hvert við viljum stefna og á hvaða forsendum – í hvaða tilgangi.
Þetta er tvískinnungur. Þetta er flótti undan ábyrgð og velsæld. Þetta er val okkar um að velja ekki eigin örlög. Og skortdýrið stjórnar þessu vali um að velja ekki.