Verkur í öxl - grein frá netsjúkraþjálfun
Algengt er að fólk finni fyrir verkjum í öxlum og má segja að margt geti verið að.
Sem dæmi má nefna:
- Axlarklemma (e.impingement)
- Frosin öxl
- Óstöðugleiki
- Slit í viðbeins-/axlarhyrnu lið (e. Acromioclavicular joint)
- Beinbrot
Mjög algengt er að fólk sé með axlarklemmu sem lýsir sér að viðkomandi fær verk við það að lyfta hendinni fram, aftur fyrir bak eða upp fyrir höfuð. Einnig má oft sjá minnkaða hreyfigetu og næturverki. Oft þarf lítið til að vandamálið byrji en við axlarklemmu getur myndast rifa í sinum á rotator cuff vöðvum axlargrindar og bólga í slímbelg(e. bursae).
Misjafnt er hvernig vandamálið þróast en oft aukast verkir smátt og smátt þar til hreyfingar eru orðnar mjög verkjaðar og jafnvel verkir á nóttunni.
Hvað er til ráða?
Best er að hætta þeim hreyfingum sem valda verkjunum til að erta “sárið” ekki meira. Þar næst er mikilvægt að leita til sjúkraþjálfara eða fagaðila til að meta ástandið og fá æfingar til að leiðrétta stöðu á axlargrindinni.
Í nær undantekningar tilvikum er um veikleika að ræða í vöðvum kringum herðablað og axlargrind. Líkamsstaða skiptir einnig mjög miklu máli og getur verið nóg fyrir marga að leiðrétta líkamsstöðuna til að auðvelda herðablaði og axlargrind sína eðlilegu vinnu.
Daði Reynir Kristleifsson, sjúkraþjálfari.