Víðavangshlaup ÍR – komdu og hlauptu með okkur
102. Víðavangshlaup ÍR fer fram venju samkvæmt á sumardaginn fyrsta þann 20. apríl og er boðið upp á hina hefðbundu 5 km hlaupaleið og einnig er hægt að taka þátt í 2,7 km skemmtiskokki sem er hugsað sem skemmtilegt fjölskylduhlaup.
Samhliða hinum aldarlanga viðburði fer Grunnskólahlaup ÍR fram í annað sinn en það er 2,7 km langt.
Víðavangshlaup ÍR var fyrst haldið á sumardaginn fyrsta árið 1916 og hefur síðan þá verið órjúfanlegur þáttur í hátíðarhöldum Reykjavíkurborgar, en enginn íþróttaviðburður hér á landi á jafn langa samfellda sögu og Víðavangshlaup ÍR.
Víðavangshlaup ÍR hefst kl. 12 en hin 10 mínútum síðar. Hlaupið um miðbæinn sem hefur skapað góða stemmingu meðal hlaupara og vegfarenda en auðvelt er að fylgjast með hlaupurunum alla leiðina en markið er við Hitt húsið á horni Pósthússtrætis og Austurstrætis. Víðavangshlaup ÍR er einnig Íslandsmótið í 5 km götuhlaupi og fyrsta hlaup sumarsins í Powerade hlauparöðinni. Það þýðir að flestir af bestu hlaupurum landsins láta sig ekki vanta í hlaupið og verður efalaust hart barist um hvert sæti og sekúndu.
Grunnskólamótið er keppni á milli grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu og er efnt til þess í annað sinn. Hlaupaleiðin er um 2,7 km löng en þátttakendur eru ræstir fyrir framan MR 10 mínútum á eftir þátttakendum í Víðavangshlaupinu, þeir hlaupa því seinni hluta hlaupaleiðar Víðavangshlaupsins. Í Grunnskólamótinu gildir að vera með og hafa gaman í góðra vina hópi. Sá skóli sigrar sem á hæsta hlutfall nemenda sem ljúka hlaupinu undir 25 mínútum.
Skemmtiskokkshluti Víðavangshlaups ÍR er til þess fallið að koma til móts við foreldra og börn sem vilja gera sér glaðan dag á fyrsta degi sumars og hlaupa saman um miðbæ Reykjavíkur en eru ekki alveg tilbúin í 5 km vegalengdina ennþá.
Þátttakendur eru hvattir til þess að mæta tímanlega á keppnisstað og hafa hugfast að það getur tekið nokkurn tíma að leggja bílum í miðbæ borgarinnar. Ráðlagt er að leggja í bílastæði Hörpunnar meðan rúm leyfir.
Forskráning er á hlaup.is en jafnframt er hægt að skrá sig í ÍR heimilinu 19. apríl á milli kl. 16:30 og 19 og síðan í Hörpunni á hlaupdag frá kl. 9:30 til 11.
Mætum sem flest í Víðavangshlaup ÍR og fögnum komu sumarsins saman.