Heiðar Austmann Dagskrástjóri og útvarpsmaður á FM957 tekinn í létt spjall
Hann Heiðar Austmann þekkja nú allir landsmenn. Hann er vinsæll útvarpsmaður á FM957 og einnig er hann dagskrástjóri stöðvarinnar. Heiðar hefur verið viðriðinn stöðina í ríflega 16 ár eða frá árinu 1998.
“Í þessum töluðu orðum er ég heima í barneignafríi þar sem ég eignaðist mitt annað barn á dögunum, stúlkubarn sem kom í heiminn þann 16. mars, daginn fyrir afmælið mitt. Dagarnir mínir og konunnar fara því bara í að kynnast þessum nýja einstakling, búa til venjur og sjá til þess að allir séu sælit og glaðir”.
“Það er mikil tilhlökkun til sumarsins enda margt og mikið sem verður í boði. Ekki nóg með að útvarpsstöðin mín FM957 heldur uppá 25 ára afmæli sitt með stórtónleikum David Guetta þann 16. júní næstkomandi, þá er svo margt annað skemmtilegt sem ég hlakka til að gera. Framundan í sumar er t.d. ættarmót hjá móðurfjölskyldu minni Þingholtsættinni í Vestmannaeyjum en þau eru haldin á 5 ára fresti og mikil tilhlökkun sem fylgir að hitta alla ættingjana og hafa gaman. Hvað útiveru, ferðalög, útilegur og bústaðaferðir varðar þá munum við láta minnstu dömuna um að stjórna því hversu mikið við ferðumst en ef allt gengur upp þá stefnum við á að ferðast og hreyfa okkur mikið”.
Hvernig hagar þú þínum morgnum ?
Morgnarnir mínir eru mjög einfaldir myndi ég halda. Þeir eru reyndar tvískiptir. Ef ég er með eldri dótturina mína hjá mér þá vöknum við saman, klæðum okkur og fáum okkur morgunmat. Ég leyfi henni að ráða hvað hún fær í morgunmat en valið stendur milli þess að fá hafragraut eða Cheerios. Það þarf varla að taka það fram að í flest skiptin hefur morgunkornið vinninginn en inná milli næ ég að lauma hafragrauti ofan í hana.
Minn morgunmatur er hinsvegar alltaf drykkur sem kemur í staðinn fyrir morgunmat. Tilbúið duft sem ég blanda í vatn, set einn banana með og beint í blandarann. Þegar við erum búin að borða þá klæðum við okkur en hún hefur t.d. mjög sterkar skoðanir á því í hverju hún á að fara hvern dag fyrir sig á leikskólann. Eftir það hendumst við í leikskólann sem tekur svona 5-7 mínútur í bíl. Latibær eða Strumparnir fá að óma í bílnum og það er ekkert sem pabbi getur sagt til að breyta því :) Þegar stelpan er ekki hjá mér þá sef ég aðeins lengur, vakna, hendi mér í sturtu, fæ mér drykkinn minn og bruna síðan beint í vinnuna.
Syngur þú í baði?
Reyndar þá geri ég það já. Hef ekki gert það síðustu 3 vikur eða svo þar sem litla barnið myndi væntanlega fá hræðilegar martraðir við að vakna við söng gamla mannsins en líkt og systir hennar þá er þetta eitthvað sem hún þarf að venjast. Ég á það til að syngja í nokkrum persónum meira að segja þegar ég syng í sturtu. Stundum er ég Skoti, kántrísöngvari og fleira sem mér dettur til hugar.
Ef þú þyrftir að velja eitthvað fernt sem þú mættir bara borða til æviloka, hvað myndiru velja?
Ef ég þyrfti bara að borða fernt til æviloka og það myndi ekki skaða mig segirðu? Þá yrði það pottþétt Hob Nobs kex með súkkulaði (stórt like á það), BBQ rif sem ég er nýfarinn að elska, Kjötbollur í brúnni sósu með kartöflumús ala pabbi og svo er ég mikill aðdáandi asískar matargerðar.
Ertu duglegur í hollustunni?
Ég er mjög misjafn þegar það kemur að hollustunni. Ég tek tímabil þar sem ég legg mikið upp úr hollustunni, troðfylli matardiskinn minn af grænmeti, borða mikið af ávöxtum, drekk mikið af vatni og þess háttar. Svo á ég það til að vera mjög kærulaus líka þar sem ekkert grænt kemur inn fyrir mínar varir í langan tíma. Ég held það sé bara fínt, þá fær maður ekki leið á grænmeti og endurnýjar kynnin við það reglulega.
Hvað gerir þú til að halda þér í formi?
Ég spila fótbolta. Er búinn að gera það hart nær í 30 ár þannig að það er sú íþrótt sem ég elska að stunda. Er líka svo heppinn að vera tiltölulega laus við meiðsli á mínum "knattspyrnuferli" þannig að líkaminn minn er greinilega að gefa mér grænt ljós á að halda tuðrusparkinu áfram sem ég þigg með þökkum. Einnig spila ég golf, badminton og hjóla slatta þó einkum á sumrin.
Hvaða ráðleggingu myndir þú gefa manneskju sem er að berjast við þunglyndi?
Ég sjálfur hef barist við minn skammt af þunglyndi. Eftir að ég missti besta vin minn í flugslysinu í Skerjafirði þá tók við langt tímabil hjá mér (nokkur ár) þar sem ég barðist við þunglyndi og mína innri djöfla. Það var ekki fyrr en ég viðurkenndi það að ég væri þunglyndur og leitaði mér aðstoðar sem hlutirnir fóru að snúast hjá mér. Án þess að telja mig vita að ein leið sé betri en önnur þá virkaði það allavega fyrir mig sem fyrsta skref að viðurkenna að ekki væri allt í lagi hjá mér. Næsta skref var að leita mér hjálpar og skammast mín nákvæmlega ekkert fyrir það. Minn ráðgjafi eða Sálfræðingur gaf mér nýja innsýn í lífið og hjálpaði mér að breyta mínum hugsunarhætti. Hann kenndi mér að finna alltaf það jákvæða í öllu, passa mig á neikvæðum hugsunum og dvelja ekki lengi við hluti sem ég get ekki breytt. Ætli það sé ekki mitt ráð.
Rétt hentur eða örvhentur?
Ég er örvhentur, örvfættur og svei mér þá ef ég er ekki örvaugaður líka :)
Besta lag allra tíma?
Held að það sé vonlaust að spyrja að þessari spurningu. Tónlist stjórnar tilfinningum. Ég á svo margar góðar tilfinningar og góðar minningar við mörg frábær lög að það er mjög erfitt fyrir mig að velja. Ég gæti nefnt svona 30 lög akkúrat núna sem ég held svakalega mikið uppá. Hinsvegar ef ég yrði að velja eitt lag þá væri það bara uppáhaldslagið mitt sem er Hotel California með Eagles, annars koma mörg til greina.
Ertu duglegur í heimilisstörfunm?
Já ég myndi segja það. Allavega er ég "Monica" á mínu heimili þar sem ég einhvernveginn verð að hafa allt hreint í kringum mig. Stundum er ég óþolandi gæjinn líka þegar það kemur að heimilisstörfum af því að ég vil hafa OF HREINT. Þá er mér góðfúslega bent á að anda með nefinu og fá mér göngutúr eða eitthvað :) Annars líður mér mikið betur á hreinu heimili.
Ef þú værir beðinn um að gefa gott ráð til hóps af fólki, hvert væri þitt ráð?
Ekki lifa lífinu í eftirsjá. Maður fær bara eitt tækifæri, ekki sóa því í neikvæðni. Ég hef þurft að horfa uppá fullt af fólki hverfa í blóma lífsins og það hefur kennt mér að lifa lífinu lifandi, njóta þess sem er í boði, ekki neita mér um neitt og ekki drekkja mér í áhyggjum. Ég er ríkur maður, á tvö börn og æðislega konu og ég ætla mér að njóta þess sem lífið hefur blessað mig með.