Viðtal - Arnrún Magnúsdóttir, nýr gestapenni
Við kynnum til leiks nýjan gesta penna hér á Heilsutorg.is en það er hún Arnrún Magnúsdóttir. Hún er menntaður leikskólakennari og er með óbilandi áhuga fyrir starfinu sínu og börnum yfirleitt. Hún er hugmyndasmiðurinn af forvarnarverkefninu FRÆÐSLA EKKI HRÆÐSLA og hefur heldur betur slegið í gegn. Hún gerði sér lítið fyrir og bjó til kennsluefnið Lausnahringinn sem notaður er á leikskólum til að kenna börnum að setja mörk.
Það er frábært að fá Öddu í liðið okkar og bjóðum við hana velkomna til okkar en hún mun birta hjá okkur efni reglulega. Fyrsta greinin hennar hjá okkur birtist í næstu viku, fylgist með.
Segðu okkur aðeins frá sjálfri þér og hvaðan þú ert?
Ég er Norðlendingur, nýorðin fimmtug, alin upp í sveit rétt fyrir utan Akureyri og er yngst 4 systkina. Gekk í Þelamerkurskóla, ýmist keyrð á milli í skólarútu eða í heimavist. Ég er sjálfstæð, dugleg og drífandi. Til að mynda flutti ég að heiman 16 ára og byrjaði þá að búa með eiginmanni mínum Friðrik V. Segja má að lífið hafi styrkt mig á einn eða annan hátt með þeim verkefnum sem hafa komið á mitt borð. Við hjónin rákum veitingastaðinn FRIÐRIK V í tæp 15 ár. Hvað veitingamennsku varðar þá hef ég lagt hana á hilluna, vil samt taka það fram að það er alls engin eftirsjá að hafa varið árum í þetta stórkostlega gefandi en á sama tíma, gríðarlega krefjandi ævintýri okkar hjóna, sem ég hefði ekki viljað sleppa. Við Friðrik V. eigum tvö uppkomin börn, þau Karen Ösp og Axel F, tengdabörnin Óskar og Öglu Rún, barnabarnið Markús Hrein og í okkar lífi eru hundarnir Nemó Breki og Kobe Bryant
Við hvað starfar þú í dag?
Ég útskrifaðist sem leikskólakennari árið 2000 og í dag starfa ég í leikskóla og hef ég mikla ástríðu fyrir því starfi. Frá árinu 2016 hef ég verið deildarstjóri í leikskólanum Brákarborg í Reykjavík. Næsta skólaár ætla ég að einbeita mér enn frekar að því sem hjartað mitt brennur fyrir að kenna börnum að setja mörk, að nota LAUSNAHRINGINN.
Hver eru þín helstu áhugamál?
Ég hef alla mína ævi haft mikinn áhuga á samskiptum. Það kom sér oft vel í veitingarekstrinum, að lesa í líðan viðskiptavinarins. Ég hef mikinn áhuga á leikskólastarfinu mínu, sérstaklega að aðstoða barnið við að „finna demantinn innra með sér“ sína sterku hlið, að sjá barnið blómstra í styrkleika sínum, nærast og vaxa úr grasi. Mér finnst við oft vera of fljót að setja „greiningarmerkimiða“ á börn sem síðan skilar ósköp litlu fyrir barnið, nema það er þá komið í ákveðin flokk, skólakerfið nær ekki að grípa alla. Ég á þann draum að styrkja unga fólkið okkar strax og þau hafi þroska til að setja mörk. Í dag brenn ég fyrir að efla allar forvarnir þó sérstaklega með áherslu á að setja mörk strax í leikskóla. Leikskólastjóri Brákarborgar hefur veitt mér mikið traust, ég hef fengið tækifæri til að þróa námsefni með börnum og kennurum. Það er fyrir börn, foreldra og kennara, það kallast Fræðsla ekki hræðsla.
Hver er þín helsta hreyfing?
Gönguferðir eru í miklu uppáhaldi og reynum við hjónin að ganga á hverjum degi. Einnig geng ég mikið í vinnunni, það eru forréttindi að starfa í leikskóla, útivera er stór hluti af deginum okkar.
Ertu dugleg að ferðast og áttu þér uppáhalds áfangastað?
Við vorum mjög dugleg að fara erlendis meðan við vorum í veitingarekstrinum. Lokuðum tvisvar sinnum á ári og fórum í frí erlendis. Við vorum í samstarfi við ítalska vínbændur og framleiðendur og við eigum marga vini þar og myndi ég segja að Ítalía væri mitt uppáhalds land.
Ég hef virkilega gaman af að ferðast, bæði hér innanlands og erlendis á staði sem ég hef ekki komið á áður. Ef ég ætti að nefna einhverjar ferðir sem standa upp úr, þá eru það ferðir með Friðrik og fjölskyldunni, minnistæðast er síðasta utanlandsferð 2019 okkar hjóna til Greve í Chianti Ítalíu.
Meðan sonur okkar og tengdadóttir bjuggu erlendis, þaðan á ég ótal dýrmætar minningar sem koma frá þeim heimsóknum og minnistæðast er þegar við fórum með ömmu og afastrákinn ásamt foreldrum hans í heimsókn til Axels F og Öglu Rúnar í London. Að verða vitni af uppgötvun hans um heiminn, þetta var hans fyrsta flugferð og utanlandsferð. Það er endalaust dýrmætt að staldra við, hlusta og horfa á börnin hvað hafa þau að segja og hvað sjá þau.
Ég hef verið heppin að fara í tvær skólaferðir, svokallaðar Erasmus ferðir, aðra til Zagreb og hina til Thessaloniku. Báðar þessar ferðir snérust um skólaskil milli leik-og grunnskóla, þar af leiðandi fór ég með samstarfshóp okkar í 104 Reykjavík. Eftir þessar ferðir er ég gríðarlega rík af tengslum og vináttu kennara frá mismunandi þjóðum, ég bý vel að því. Draumurinn er að starta evrópsku verkefni sem snýr að forvörnum gegn ofbeldi og byrja strax á leikskólastiginu, þverfaglegt á öll skólastig.
Segðu okkur frá Forvarnarverkefninu FRÆÐSLA EKKI HRÆÐSLA - hvenær kviknaði sú hugmynd?
Segja má að undirmeðvitund mín hafi byrjað löngu á undan sjálfri mér. Sérstaklega þegar kemur að mörkum gagnvart ofbeldi. Þegar ég er 9 ára heyri ég fyrst um kynferðislegt ofbeldi gegn barni, það var besta vinkona mín sem sagði mér frá. Ég gleymi því aldrei, viðbjóðnum og tilhugsuninni að brotið sé á barni með þessum hætti. Síðan þá hefur líf mitt mótast af margvíslegum verkefnum sem komið hafa inn í líf mitt. Ég hef stundum sagt að jarðvist mín sé til að bæta hag barna þegar kemur að forvörnum gegn ofbeldi.
Hugmyndin af Fræðsla ekki hræðsla, þróaðist eftir að ég byrjaði að vinna í leikskóla þá sem leiðbeinandi, ég varð oft vitni af óþægilegum frásögnum barna, sem stjórnendur vildu jafnvel ekkert gera meira með, mögulega vegna þess að þau vissu ekki hvað átti að gera með slíkar frásagnir. Út frá lífsreynslu minni þá fór ég að þróa Fræðslu ekki hræðslu til barna, lagði það upp líkt og umferðafræðslu, það sem okkur finnst eðlilegt að kenna þeim. Hvað er þá meira eðlilegt að læra um líkamann sinn og kenna börnum að setja mörk?
Eftir námið og starfsreynsluna, sá ég og fann hvað börn eru heiðarleg, einlæg, opin og skilja svo miklu meira en við fullorðna fólkið áttum okkur á. Að ræða við þau opinskátt um líkamann, útskýra starfsemi að þeirra þroska, fær þau til að skilja tilgang lífsins enn betur. Fá þau til að setja í orð tilfinningar og líðan sína skiptir gríðarlega miklu máli. Barn sem býr að sterkri tilfinninga og félagsfærni er töluvert meira tilbúið í framtíðina en barn sem þekkir alla stafina, getur reiknað eða kann litablöndun, þó svo það sé allt saman nauðsynlegt líka. Erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á að þeir einstaklingar sem eru sterkir félags og tilfinningalega, flosna síður upp úr skóla, eru komin í fasta vinnu í kringum 25 ára aldur og sýn þeirra á lífið er skýrari.
Hver er starfsreynsla þín á forvarnarvinnu?
Starfsreynslu mína í forvarnarvinnu hef ég mótað í gegnum lífsreynslu bæði í starfi og daglegu lífi. Ég hef lesið heilmikið, bæði erlent og innlent efni. Bækur, viðtöl, fylgst með hlaðvörpum og fleira sem gefur mér enn meiri innsýn. Það dýrmætasta er líklega öll þau námskeið sem ég hef farið með í leikskóla, átt samtal við nemendur, kennara og foreldra. Þar liggur fjársjóðurinn „í fólkinu á gólfinu“ þau vita hvað klukkan slær og geta speglað svo ótal margt sem brennur á mér hverju sinni. Að fá tækifæri til að ræða opinskátt og einlægt við nemendur mína um mikilvægi þess að setja mörk, æfa þau oft á dag, líkt og um umferðafræðslu eða tannhirðu væri að ræða, er ómetanlegt. Þau svara og segja frá sinni upplifun og geta fengið svör við þeim vangaveltum sem brenna á þeim hverju sinni. Árið 2019-2020 var ég kölluð til ráðgjafar nefndar á vegum Stjórnarráðs Íslands, um mótun stefnu í forvörnum og fræðslu um kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreiti. Ég er gríðarlega þakklát fyrir þá áheyrn og umræðu sem verkefnið mitt hefur nú þegar fengið.
Mín trú er sú að við sem þjóð verðum að endurskoða forvarnarstefnu heilt yfir. Við verðum að yfirfara mun betur menntun fjölmargra fagstétta. Skildi verið að kenna námskeið tengd forvörnum og viðbrögðum gegn ofbeldi sem skylt er að sitja? Ég tel að fjölmargar fagstéttir gætu fengið markvissari menntun í þessum málaflokki og þar af leiðandi verið undirbúin hvernig best er að efla forvarnir og eins að takast á við þegar ofbeldismál koma inná borð viðeigandi stétta.
Því miður upplifi ég enn mikið tabú í þjóðfélaginu og víða um allan heim.
Hvað áttu alltaf til í ískápnum
Smjör, egg og lauk
Hver er þinn uppáhalds matur?
Ég borða nánast allan mat og er náttúrlega mjög heppin með minn „einka“matreiðslumann. Að velja eitthvað eitt sem uppáhalds er erfitt, ég er hrifin af allskonar vegan mat en sonur okkar er Vegan og hefur opnað nýjan heim fyrir mig þar. Ef ég á að telja upp það helsta sem ég girnist þá er til dæmis, ferskt salat, hráskinka, ostar, ólífur og ítalskur matur, þar á meðal Anti Pasty, siginn fiskur, saltfiskur með hömsum, lambaskankar… svo eitthvað sé nefnt
Ert þú að lesa eitthvað þessa dagana og áttu þér uppáhalds bók?
Ég er nýbúin að klára bókina “Barnið í garðinum” eftir Sævar Þór Jónsson og Lárus Sigurð Lárusson. Mæli eindregið með henni, virkilega áhrifarík og einstök frásögn bernsku.
Á hvað ertu að hlusta þessa dagana, tónlist/podcast?
Podcast sem ég fylgist með um þessar mundir er Karlmennskan, Þekktu sjálfan þig, Uppeldisspjallið Viðja. Ég hlusta mikið á LP plötur, sérstaklega (tvöfalt albúm) sem fjölskyldan mín bjó til handa mér í 50 ára afmælisgjöf, ADDA Fimmtug & Fabjúlös, það inniheldur dýrmæt lög sem eru mér kær, fullt af dýrmætum minningum um góða tíma, einnig lög sem maki og börnin tileinkuðu mér. Einstök gjöf og dýrmæt, til að njóta hennar sem best þá gerði ég lagalista á Spotify til að hafa lögin ávallt með mér.
Ef þú ætlar að „tríta“ þig sérlega vel hvað gerir þú?
Nýt þess að vera með eiginmanni, börnunum mínum, fjölskyldum þeirra og eða góðum vinum. Bara að vera og njóta, að mínu mati þarf ekki flugeldasýningu til að búa til bestu stundirnar. Hugleiði mikið, þakka fyrir lífið og tilveruna.
Hvað segir þú við sjálfa þig þegar þú þarft að takast á við stórt/erfitt verkefni?
Bara byrja “go for no” Æfingin skapar meistarann! Spyr mig, hvað er það versta sem getur gerst? Ég get þetta eins og margt annað sem ég hef náð að gera.
Hvar sérð þú sjálfa þig fyrir þér eftir 5 ár?
Búin að byggja upp markvisst nám, sem nær til leik-, grunn- og framhaldsskóla landsins að efla börn á öllum aldri í að setja mörk, nota LAUSNAHRINGINN. Að allar stofnanir sem starfa með börnum (sama á hvaða aldri) séu meðvitaðar að útbúa eigin Forvarnaráætlun og einnig Aðgerðaáætlun hvernig bregðast skuli við ef grunur reynist um ofbeldi og vanrækslu. Mig langar að leggja mitt að mörkum að Ísland verði framúrskarandi í velferð barna og fjölskyldna þeirra.