VIÐTALIÐ: 3 ár að ná markmiðinu – Tonie Gertin Sørensen hlaupari
Í tilefni af Fossvogshlaupinu, sem fer fram 25. ágúst og valið var hlaup ársins 2015, þótti okkur hjá Heilsutorgi tilvalið að taka viðtal við Tonie G. Sörensen sem var hlaupstjóri í fyrra og stýrir hlaupinu einnig í ár.
Fullt nafn:
Tonie Gertin Sørensen
Segðu okkur aðeins frá sjálfri þér og hvaðan ertu ?
Ég er fædd og uppalin í Danmörku en flutti til Íslands árið 1995, 25 ára gömul, og hef búið hér síðan. Nú er ég nýorðin íslenskur ríkisborgari og má kjósa.
Menntun og við hvað starfar þú í dag ?
Ég er barnahjúkrunarfræðingur, sérhæfð í astma, ofnæmi og svefnrannsóknum barna og starfa á göngudeild barna, ásamt því að starfa hjá Astma- og ofnæmisfélagi Íslands.
Hver eru þín helstu áhugamál fyrir utan hlaupin ?
Ég hef mörg áhugamál. Fjölskyldan og vinir eru mér dýrmæt og ég hef mjög gaman af ferðalögum, hvort sem það er slökun á sólarströnd eða hlaupaferð með hlaupahópnum mínum. Nýjast var hjólatúr í Búlgaríu og Rúmeníu sem var mjög skemmtilegt en líka pínu krefjandi. Hægt er að mæla með svona ferð fyrir hjólahópa. Heima er ég með gróðurhús og ég hef fengið titilinn „jarðarberjabóndi“. Ég er að gera tilraunir með ýmsar plöntur, m.a. búlgarska tómata. Ég hef áhuga á að efla hreyfingu almennings. Það er gaman að sjá nýliða breyta lífsstílnum sínum og finna gleðina í því að koma sér í hreyfingu og fá útrás. Ég er nýhætt sem formaður Almenningsíþróttadeildar Víkings eftir að hafa gegnt formennsku í 2 ár, en þar erum við með hlaupa- og hjólahóp ásamt jógakennslu.
Ég er svolítill spennufíkill og mjög forvitin og opin fyrir nýjum hlutum. Af hreyfingu er ég farin að prófa skíðagöngu líka. Ég er búin að skrá mig í næstu áskorun sem verður Fossavatnsgangan í apríl 2017.
Bakgrunnur í íþróttum ?
Ég prófaði margt sem barn; sund, dans, fótbolta o.fl. Það var hins vegar handboltinn sem mér fannst skemmtilegastur. Sem unglingur komst ég m.a. í danska úrvalshópinn fyrir unglingalandsliðið á sínum tíma. Ég hætti þegar ég fór í menntaskólann en sakna þess alltaf pínu að halda á boltanum aftur og skora mark. Ég auglýsi hér með eftir „old girls“ liði ef það er til fyrir 46 ára.
Hver er sagan á bak við hlaupin þín frá því að vera enginn hlaupari en þjálfa þig síðan upp í að hlaupa Laugaveginn, maraþon og fleiri langhlaup ?
Ég byrjaði að hreyfa mig ca árið 2010 og þá ein. Ég fékk æfingaplan hjá Fríðu Rún Þórðardóttur vinkonu minni og hlaupara (sem nú er þjálfarinn minn hjá Víkingi). Ég æfði á hlaupabretti, skíðatæki (cross trainer), hjólaði, synti og hljóp úti til skiptist um það bil 3 sinnum í viku. Ég notaði tímann meðan börnin voru að stunda sínar íþróttir (fimleika og júdó). En í janúar 2012 fór ég á hlaupanámskeið hjá Torfa á hlaup.is. Það var mjög gagnlegt námskeið sem ég hef haft mikið gagn af og get mælt með. Torfi endaði námskeiðið með því að hvetja alla til að fara í hlaupahópa og halda áfram. Ég fór i Hlaupahóp Víkings í janúar 2012 (bý samt í Seljahverfinu) því þau tóku á móti nýliðum allt árið.
Fyrsta markmiðið mitt var 10 km í Reykjavíkurmaraþoni 2012. Næsta var þegar hlaupahópurinn fór saman til Amsterdam í október 2013 og þá tók ég næsta skref og stefndi á mitt fyrsta hálfa maraþon (21 km). Tók svo nokkur hálf maraþon árið 2014. Árið 2015 var svo „stóra“ hlaupaárið mitt, hlaupahópur Víkings fór saman til Edinborgar og var markmiðið mitt heilt maraþon (42 km) sem gekk vel, var mjög ánægð með tímann minn 4:02:59. Ég var sem sagt 3 ár að ná þessu markmið eftir ég hóf að hlaupa í hlaupahópi.
Í júlí sama ár (2015) fór ég Laugaveginn (55 km). Laugavegurinn á sér sérstakan stað í hjarta mínu, því ég labbaði hann árið 1992 (21 árs) og kynntist þá eiginmanni mínum. Það var einstakt upplifun að hlaupa/skokka þetta aftur 23 árum seinna. Þetta var krefjandi en með góðum undirbúningi og sérstaklega með stuðningi frá hlaupafélögum þá getur maður margt. Ég hef trú á að ég eigi eftir að hlaupa meira af utanvegahlaupum. Það mættu vera fleiri hlaup í boði í styttri vegalengdum í utanvegahlaupum.
Utanvegahlaupin heilla mig. Mér finnst mjög gaman að vera úti í náttúrunni og íslenska náttúran er stórkostleg. Ég fór í ágúst sl. í Jökulsárhlaupið sem er 33 km. Ég var hins vegar ekki nóg vel undirbúin því ég fékk mikla verki i hægra hné og endaði með að labba meirihlutann. En landslagið er svo flott og stórkostlegt og mig langar aftur, ekki spurning.
Félagsskapurinn í hlaupahópnum gerir það að verkum að mann langar meira að æfa saman til þess að ná sínum markmiðum. Hlaupahóp Víkings er mjög breiður hópur og góður félagsskapur með flotta þjálfara og flott plan. Allir geta verið með. Gaman er að fylgjast með samhlaupurum sífellt að ná sínum markmiðum og bæta tímana og á sama tíma losna við nokkur aukakíló og gera hreyfingu hluta af sínum lífsstíl.
Það gerir þetta eitthvað svo miklu auðveldara að vera fleiri saman að æfa, skiptir ekki máli hvort það er langt eða stutt. Stemningin að taka á móti félögunum og líka að láta taka á móti sér í markinu eftir hvert afrek er svo mikil vítamínbomba að mann langar i meira. Mikilvægt er líka að fá ráð frá þjálfara og æfingaáætlun.
Segðu okkur aðeins frá Fossvogshlaupinu, sögu þess og hvað þið gerðuð til að hljóta nafnbótina hlaup ársins 2015 ?
Þetta er sjötta árið sem Fossvogshlaupið er haldið. Það var sett af stað sem fjáröflun fyrir almenningsíþróttadeildina. Við fáum engan styrk til að greiða þjálfara laun eða gera eitthvað fyrir félaga svo sem fræðslukvöld og fl. Hlaupið hefur vaxið með hverju ári. Í fyrra breyttum við hlaupaleiðinni örlítið og færðum markið nær Víkinni en áfram er um sömu vegalengdir að ræða, 5 og 10 km í Fossvogsdalnum. Áherslan hefur alltaf verið á að hlauparar skemmti sér vel og sérstaklega eru 5 km vinsælir hjá nýliðum. Margir koma aftur næsta ár til að sjá hvort þeir hafi ekki bætt tímann sinn frá árinu á undan. Við höfum lagt mikla vinnu í útdráttarverðlaun og veitingar (t.d. ávexti, Hleðslu og „Víkingskökuna“).
Árið 2015 var Fossvogshlaupið kosið besta götuhlaupið af hlaupurum á hlaup.is. Það var stórkostleg viðurkenning en 60 manns úr hjóla- og hlaupahópi Víkings sjá um að tryggja öryggi hlaupara á hlaupaleiðinni og síðan að dekra við þá í markinu með veitingum og mögulega að þeir fari heim með útdráttarverðlaun.
Á Facebooksíðu hlaupsins (Fossvogshlaup Hleðslu 2016) má finna mikið af myndum sem endurspegla gleði þátttakenda í þessu skemmtilega hlaupi.
Eru einhverjar nýjungar á döfinni í sambandi við hlaupið eða haldið þið bara ykkar striki og bjóðið meðal annars upp á fjöldann allan af útdráttarverðlaunum eins og síðastliðin ár ?
Já, í ár erum við í samstarfi við Hleðslu (sem er góður íþróttadrykkur) og eiga hlauparar von á enn fleiri verðlaunum og glæsilegum veitingum. Við höfum bætt við verðlaunum fyrir fyrsta sæti í hverjum aldursflokk (20 verðlaun) fyrir utan hefðbundnu verðlaunin 1. ,2. og 3. sætið í hvorri vegalengd fyrir konur og karla. Við hlökkum mikið til.
Nefndu þrennt sem þú átt alltaf til í ísskápnum ?
Dagurinn minn byrjar alltaf með ABT og rúgbrauði (ekki sætu rúgbrauði heldur góðu dönsku, grófu rúgbrauði), svo er Hleðsla eða kókómjólk oftast í ísskápnum til að hafa með sér og drekka strax að lokinni æfingu. Það líður stundum of langur tími áður ég er komin heim af æfingu og farin að elda og borða.
Hver er þinn uppáhalds matur & matsölustaður ?
Af veitingastöðum sem bjóða upp á íslenska matargerð er Lauga-ás ofarlega á listanum mínum, annars elska ég kryddaðan mat, tælenskan og indverskan mat. Á föstudagskvöldum er ég mjög oft í sushi-skapi.
Ert þú að lesa eitthvað þessa dagana og hver er besta bók sem þú hefur lesið ?
Það er ekkert núna á náttborðinu. Er núna að nota aukatímana í Fossvogshlaupið.
Ef þú ætlar að „tríta“ þig sérlega vel hvað gerir þú ?
Nudd er gott og ég geri það of sjaldan.
Hvað segir þú við sjálfa þig þegar þú þarft að takast á við stórt/erfitt verkefni ?
Prófa að horfa á hlutina sem púsl, marga smáa hluti sem að lokum raðast saman og verður falleg mynd. En á hlaupum þá er það „YES!“ Þú getur þetta!
Hvar sérð þú sjálfa þig fyrir þér eftir 5 ár ?
Áfram að hlaupa og hjóla og margt fleira í góðum félagsskap innanlands og utan. Kannski verð ég orðin amma líka.