Fara í efni

VIÐTALIÐ: Ásgeir Valur – karlmenn geta líka verið hjúkrunarfræðingar

Lestu afar áhugavert viðtal við hann Ásgeir Val sem er hjúkrunarfræðingur. Hann segir frá starfi sínu og fleiru áhugaverðu.
VIÐTALIÐ: Ásgeir Valur – karlmenn geta líka verið hjúkrunarfræðingar

Lestu afar áhugavert viðtal við hann Ásgeir Val sem er hjúkrunarfræðingur.

Hann segir frá starfi sínu og fleiru áhugaverðu.

 

Fullt nafn: 

Ásgeir Valur Snorrason

Segðu okkur aðeins frá sjálfum þér og hvaðan ertu?

Fæddist í Reykjavík árið 1961, flutti í Kópavog 4 ára og ólst þar upp. Pabbi var rafvirkjameistari og ég vann í mörg ár sem aðstoðarmaður og verkfæratöskuberi. Hefði alveg getað farið í rafvirkjun og það kom alveg til greina.

Af hvaða braut í menntaskóla/fjölbrautarskóla útskrifaðist þú og var það góður grunnur fyrir hjúkrunarnámið,hvað er hjúkrunarnámið annars langt nám?

Var í Menntaskólanum í Reykjavík. Sennilega var það góður grunnur fyrir hjúkrunarnámið en vafalaust ekkert betri grunnur en aðrir skólar. Sennilega hafa nemendur úr sjúkraliðabrautum fjölbrautarskólanna besta grunninn og bestu forsendurnar til að sjá hvernig starfið hentar þeim. Hjúkrunarnámið er 4 ár í háskóla, síðan er svæfingahjúkrun nú 2 ára nám. Svo tók ég meistaranám og þar bættust við 2 ár.

Hvað fékk þig til að fara í nám í hjúkrun?

Amma mín fékk krabbamein og dó á Landspítala. Maður var að snuddast mikið þarna sem aðstandandi og þarna var frábær hjúkrunarfræðingur sem beinlínis tók mig með í aðhlynninguna, snúning, sogun og þess háttar. Þá ákvað ég að læra eitthvað heilbrigðisfag. Reyndi við lækninn sem gekk ekki. Fór að vinna á Kópavogshæli og var jafnvel að hugsa um að læra þroskaþjálfun. Fór í hjúkrun til að læra geðhjúkrun og varð svo á endanum svæfingahjúkrunarfræðingur.

Hvað eru margir karlmenn að vinna við hjúkrun?

U.þ.b. 2% hjúkrunarfræðinga sem útskrifast eru karlmenn. Karlkyns svæfingahjúkrunarfræðingar eru sex auk eins sem er í námi. Heildarfjöldi karlmanna gæti ég trúað að væri um 90.

Hvaða hjúkrunartengda sérnám geta hjúkrunarfræðingar farið í, bæði hér heima og erlendis?

Um er að ræða mikla sérhæfinu og margs konar sérnám er í boði. Bæði þverfaglegt en einnig alfarið hjúkrunartengt. Þar má nefna: Svæfingahjúkrun, skurðhjúkrun, gjörgæsluhjúkrun, geðhjúkrun, barnahjúkrun, skilunarhjúkrun, öldrunarhjúkrun, hjúkrun aðgerðarsjúklinga, ljósmóðurfræði og örugglega miklu fleira.

Af hverju eru mun fleiri konur en karlar í hjúkrun í dag og hvar starfa þeir helst?

Erlendis er hlutfallið ekki eins brenglað og hérlendis. Það tengist líklega svolítið hernum. Ég þekki t.d. einn sem fór inn í belgíska herinn sem rafvirki og kom út úr honum sem hjúkrunarfræðingur.

Lengi vel var mikill meirihluti svæfingahjúkrunarfræðinga í Bandaríkjunum karlmenn en það hefur breyst. Við hjúkrunarfræðingar þurfum að berjast við staðalímyndir sem fólk hefur af okkur og starfinu okkar.

Í fjölmiðlum er oftar en ekki talað um hjúkrunarkonur frekar en hjúkrunarfræðinga, frá blautu barnsbeini er ýtt undir þessar staðalímyndir á þann hátt að læknirinn er yfirleitt karlmaður en hjúkrunarfræðingurinn kona. Fram á síðustu ár hefur verið litið á karlinn sem fyrirvinnu heimilisins. Þetta viðhorf hefur sem betur fer breyst en það hafa launin því miður ekki gert.

Stór hópur hjúkrunarfræðinga eru á þeim aldri að þessi gömlu viðhorf voru ríkjandi þegar þeir völdu sitt framtíðarstarf. Þannig veitti hjúkrun sveigjanleika, fólk gat unnið hlutavinnu, tekið vaktir í samræmi við þarfir fjölskyldunnar en launin voru lág og lítil von um framgang í starfi. Þannig hefur þjóðfélagið mótað slík viðhorf gagnvart starfinu að það þarf sterka karlmenn til að fara í þetta. Þetta er ekki á færi hvaða karlmanns sem er.

Það að vera í þínu starfi, hefur það einhver áhrif á þinn hugsanagang um þína eigin heilsu og heilbrigði?

Já, vissulega en ég efast um að hjúkrunarfræðingar lifi heilsusamlegra lífi en aðrir. Margir  hjúkrunarfræðingar hugsa mikið um heilsuna, borða hollt og lifa vel. Á hinn bóginn er margt í starfinu sem vinnur gegn þessu.

Vaktavinna er í eðli sínu mjög óholl, fólk borðar á óreglulegum tímum, sefur óreglulega og líkamsklukkan er alltaf í einhverju tjóni. Vinnan bíður ekki upp á reglubundnar matarvenjur og oft borðar fólk á hlaupum. Á næturvöktum er ekkert í boði á spítalanum þannig að fólk kaupir í vandræðum sínum samloku í sjálfsalanum og drekkur með því Pepsi max.

Vinnuaðstæður eru oft ekki æskilegar. Verið er að sinna sjúklingum í yfirþyngd inni á litlum sjúkrastofum eða klósettum. Fólk er að bogra við sáraskiptingar, nálauppsetningar, þvagleggjauppsetningar í lítilli birtu, skakkt og snúið. Það er ekkert skrítið þótt mikill hluti hjúkrunarfræðinga séu með stoðkerfisvandamál og önnur heilsutengd vandamál.

Sem kennari við hjúkrunarfræðbraut sérð þú einhverjar breytingar á þeim hópi sem sækir í námið sl. ár, er mögulega einhver fjölgun karlnemenda?

Það hafa komið inn nokkrir sjúkraflutningamenn og bráðatæknar sem eiga eftir að vinna stéttinni mikið gagn. Gallinn er sá að þeir hafa ekki efni á að vinna við hjúkrun, hafa unnið sig upp innan slökkviliðsins en byrja á botninum í hjúkrun.  Þannig hefur karlhjúkrunarfræðingum fjölgað og þessum mönnum mun etv. ganga betur en okkur hinum að gefa faginu blæ karlmennsku og hetjudáða.

Nú hefur komið fram í fréttum að það komi til með að skorta hjúkrunarfræðinga í nánustu framtíð og jafnvel innan fárra ára. Er eitthvað því til fyrirstöðu að fjölga nemendum eins og hefur verið gert í læknisfræðinni ? Er námið sem er að fara af stað á Akureyri ekki nauðsynlegt skref?

Það sem er verið að gera er of lítið og of seint. Hjúkrunarstéttin er afar mannmörg stétt og stórir hópar að fara á eftirlaun innan fárra ára.  Til að bæta gráu ofan á svart hefur launum verið haldið niðri miðað við viðmiðunarstéttir og þess vegna hefur  fólk með þessa eftirsóttu menntun sótt í önnur störf.

Það er ekki eðlilegt að eftir tveggja ára sérhæfingu í skurðhjúkrun og alls sex ára nám sjái fólk hag sínum betur borgið að vinna hjá Flugleiðum sem flugfreyjur eða flugþjónar, þótt ég beri mikla virðingu fyrir starfi flugliða. Hjúkrunarfræðingur sem hafði unnið að innleiðingu tölvukerfa var ráðin á deild innan spítalans sem sá um tölvumál. Hún hafði enga formlega tölvumenntun að baki. Það kom til greina að ráða hana þar inn sem hjúkrunarfræðing en það kom betur út fyrir hana launalega að ráða sig þar inn sem starfsmann án formlegrar menntunar.

Það er fátt gert til að gera starfsvettvanginn aðlaðandi eða eftirsóttarverðann. Það hefur með húsnæðismál, tækjamál, almennan aðbúnað s.s. starfsmannaföt, matinn í matsalnum að gera og allt þetta litla sem fólk ræðir við skólafélaga og í fjölskylduboðum.  Þetta gerist á meðan bráðalvarlegur skortur er á hjúkrunarfræðingum, ekki bara hérlendis, heldur er um alheimsvandamál að ræða.

Það þarf að stórfjölga nemum. Það þarf líka að viðurkenna að hjúkrun er í eðli sínu dýrt háskólafag, sérstaklega ef farið yrði út í mikla fjölgun nemenda. Vandinn tengist verknámi. Fólk áttar sig e.t.v. ekki á mikilvægi og umfangi verknáms og verklegrar þjálfunar í hjúkrun.

Spurningin er hversu marga nemendur er mögulegt að hafa í verkþjálfun á Landspítala og öðrum stofnunum. Það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að bjóða nemendum, starfsfólki en þó sérstaklega sjúklingum upp á.  Að hluta má leysa það með herminámi en það mun aldrei koma að fullu í stað verknáms á deildum. Hermiaðstaða er dýr og hver leiðbeinandi getur aðeins kennt fáum í senn, ekki meira en 5-8 nemendum. Verð á sjúklingahermi er á bilinu 3-16 milljónir og sú aðstaða sem þarf að byggja upp í kringum hann kostar annað eins. Þannig útheimtir fjölgun nema mikinn kostnað við þjálfun sem til þessa hefur fallið á spítalann og aðrar heilbrigðisstofnanir. Þetta er þó vandi sem þarf að leysa og er hægt að leysa. Það þarf að hækka launin og bæta starfsumhverfi. Það þarf að fá þá aftur í vinnu sem sáu hag sínum betur borgið við að starfa annars staðar.

Þetta gerðist í hruninu, þá kom fólk til baka og sennilega hefur sjaldan verið betur mannað en þá. Það þarf að bjóða upp á góða aðlögun og möguleika til símenntunar. Síðan þarf að útskrifa fleiri hjúkrunarfræðinga og tryggja að þeir sjái sér hag í að starfa við fagið.

Eitthvað minnistætt atvik sem þú mátt segja okkur frá sem gerst hefur í vinnunni?

Þegar ég var hjúkrunarnemi var ég að sinna gömlum manni sem var að miklu leyti búinn til úr varahlutum. Hann var auðvitað með gervitennur, heyrnartæki, gervifót og svo var hann með gerviauga. Ég var að gera hann klárann fyrir nóttina, tók af honum fótinn, burstaði tennurnar og svo þurfti að þvo augað. Ég reyni að gera þetta eftir öllum kúnstarinnar reglum – hafði aldrei gert þetta áður en lesið mér til um það og fengið munnlegar útskýringar. Það gengur illa að ná auganu og ég er farinn að beita afli (sem er ekki mælt með að gera þegar auga á í hlut).

Farinn að horfa hýru auga til teskeiðar sem lá á borðinu, hugleiddi að renna henni undir kantinn á auganu og ná því út. Heyrist þá í karlinum: „Það er hitt augað“.

Aðeins á persónulegum nótum.

Hver eru þín helstu áhugamál?

Flugsaga, flugvélar úr Seinni heimstyrjöld, tónlist frá 1930-1945, hjúkrun, herminám, endurlífgunarkennsla. Erum tvö með lítið fyrirtæki sem heitir Bráðaskólinn og við kennum endurlífgun, skyndihjálp, herminám o.fl. Höfum á margan hátt verið leiðandi í kennslu og þjálfun hjúkrunarfræðinga, t.d. boðið upp á námskeið í meðhöndlun brunasjúklinga og annað í meðhöndlun sjúklinga með heilaáföll. Þessi námskeið hafa verið haldin í samvinnu við okkar bestu sérfræðinga. Síðan fluttum við inn leiðbeinendur í herminámi frá SAFER hermisetrinu í Stavanger og buðum upp á fyrsta leiðbeinendanámskeið í hermiþjálfun sem hér var haldið. Sami hópur hefur síðan komið tvisvar sinnum á vegum Landspítala. Þannig er vinnan mitt aðal áhugamál og mikill hluti frítímans fer í þessa hluti.

Hvaða tegund af heilsurækt stundar þú?

Hjartahnoð í endurlífgunarkennslu. Styrktaraðili í líkamsræktarstöð. Labba oft á Úlfarsfell og stundum á Esjuna, helst á sumrin. Á veturna meðfram Nauthólsvík.

Nefndu þrennt sem þú átt alltaf til í ísskápnum?

Pepsi max, ostur, rjómi

Hver er þinn uppáhalds matur & matsölustaður?

Perlan (skandall að verið sé að loka þeim frábæra stað), nautalund. Nú þegar Perlunni verður lokað er það Grillmarkaðurinn. Svo held ég upp á Ítalíu og Jómfrúna

Ert þú að lesa eitthvað þessa dagana og hver er besta bók sem þú hefur lesið?

Er að undirbúa námskeið sem heitir Svæfingar bráðveikra og er mikið á netinu á UpToDate og öðru þess háttar. Les eiginlega engar bækur frá upphafi til enda, les greinar. Besta bók sem ég hef lesið er sennilega Watchful care sem er um sögu svæfingahjúkrunar í Bandaríkjunum. Bók sem tilheyrir flugvéladellunni sem ég held mikið upp á er The dam busters sem fjallar um 617. sprengjuflugsveitina. Er lítið fyrir skáldsögur.

Ef þú ætlar að „tríta“ þig sérlega vel hvað gerir þú?

Fæ mér gott í gogginn.

Hvað segir þú við sjálfa þig þegar þú þarft að takast á við stórt/erfitt verkefni?

Ef ég er í vinnunni er bara að hella sér út í þetta. Ef ég er heima að vinna í fyrirlestri eða námskeiði vaknar spurningin:

Er nokkur leið til að fresta þessu?  Er mögulegt að skipta því í minni einingar?  Er ekki örugglega eitthvað annað sem þarf að gera fyrst. Svo þegar öll sund virðast lokuð og engar afsakanir finnast lengur er bara að kýla á það.

Hvar sérð þú sjálfan þig fyrir þér eftir 5 ár?

Sennilega bara að svæfa og því til viðbótar að kenna endurlífgun og skyndihjálp. Og vera svo með barnabörnum að labba upp á Úlfarsfell.