Fara í efni

VIÐTALIÐ: Fyrstur Íslendinga í mark í Laugavegshlaupinu

"Ég mæli með fyrir hvern sem er að hlaupa, að hlaupa Laugaveginn." segir Benoit Branger
Benoit Branger
Benoit Branger

"Ég mæli með fyrir hvern sem er að hlaupa, að hlaupa Laugaveginn." segir Benoit Branger sem kom fyrstur Íslendingar í mark í Laugavegshlaupinu.

 

Fullt nafn: 

Benoit Branger

Segðu okkur aðeins frá sjálfum þér og hvaðan ertu ?

Ég er 32 ára Frakki en bý í Reykjavík. Ég á 6 ára gamla dóttur og hef búið hér á Íslandi í 3 ár. Ég og Ísland eigum okkur þó miklu lengri sögu því ég steig fyrst hér fæti fyrir10 árum síðan.

Menntun og við hvað starfar þú í dag ?

Ég er með mastersgráðu í rafmagnsverkfræði sem ég öðlaðist við háskólann í Grenoble. Ég starfa sem verkfræðingur hjá Sabre Airline solutions sem er fyrirtæki sem séhæfir sig í upplýsingatækni í ferðaiðnaðinum.

Hver eru þín helstu áhugamál fyrir utan hlaupin ?

Ég er tónlistarunnandi og get hlustað á nánast hvað sem er og mér finnst gaman að fá tónlistalegar upplifanir á tónleikum og tónlistarhátíðum. Ég hef mikla unun af því að ferðast og ég er svo heppin að geta sinnt því áhugamáli í starfi mínu og þegar ég ferðast til að keppa í hlaupum.

Bakgrunnur í íþróttum ?

Frá 12 ára aldri æfði ég fótbolta og í nokkur ár spretthlaup. Milli 16 og 18 ára aldurs æfði ég víðavangshlaup. Í þrjú ár eftir það æfði ég Ultimate Frisbee en snéri mér alfarið að hlaupum eftir meiðsli í hné.

Hver var kveikjan að því að þú færir að æfa hlaup?

Ég hafði alltaf gaman að hlaupa en ég hafði meiri áhuga á hópíþróttum í mörg ár. Hlaup hafa alltaf verið í höfðinu á mér. Ég meiddist a hné árið 2009 og eftir aðgerðina og endurhæfinguna mældi læknirinn með því að ég hlypi til að styrkjast. Á sama tíma voru samstarfsfélagar mínir að hlaupa á hverjum degi í hádeginu. Ég ákvað að fara með þeim og þannig byrjaði það í raun.

Hvað er erfiðasta hlaupið sem þú hefur tekið þátt í og af hverju?

OCC (Orsieres-Champex-Chamonix) sem er hluti af UTMB í Chamonix. Það er 53 km langt fjallahlaup með samanlagðri 3.300m hækkun, hlaupið er í virkilega stórbrotnu landslagi.  Hlaupaleiðin sjálf er frekar erfið en samsetning af hita og hækkun gerir hlaupið ennþá erfiðara.  Til gamans má geta að magnið af vökva sem ég drakk í keppninni síðasta sumar var 7 lítrar á 6 klst og 27 mínútum.

Ef við snúum okkur að nýjasta afrekinu, Laugarvegshlaupinu þar sem þú varst í 3. sæti, hvað hefur þú hlaupið það oft og hver er best tíminn þinn á þessari vegalengd? Stefnir þú á Laugaveginn aftur næsta ár?

Þetta var þriðja Laugavegshlaupið mitt. Ég hljóp Laugaveginn fyrst árið 2013 þá á tímanum  6 klst og 2 mínútur.  Ég bætti mig svo um klukkutíma árið 2014 og hljóp á 5 klst og 7 mínútum. Í ár náði ég óvæntum tíma þegar ég hljóp Laugaveginn á 4 klst og 35 mínútum.  Ég hef ekki ákveðið hvort ég muni hlaupa Laugaveginn aftur að ári þar sem ég á eftir að setja niður markmið mín fyrir næsta ár.  Ég mæli með fyrir hvern sem er að hlaupa, að hlaupa Laugaveginn.

Hvað hleypur þú marga km síðustu 2 vikurnar fyrir hlaupið?

Ég hleyp ekki mikið magn miðað við aðra hlaupara. Dæmigerð vika fyrir Laugaveginn var 85km og 110km að hámarki.  Ég kýs frekar að hugsa um fjölda klukkustunda á hreyfingu en kílómetra. Ég held það sé betri mælikvarði fyrir fjallahlaup þar sem oft er mikil hækkun á þeim æfingum.

Ég reyni vanalega að minnka æfingamagnið um 20-30% síðutu vikuna fyrir keppni og svo 50-60% síðustu vikuna fyrir. En það fer eftir því hvernig mér líður hvort ég minnki magnið meira.  Markmiðið er alltaf að mæta ferskur á ráslínu.

Hvað borðar þú og drekkur á leiðinni?

Ég hef verið að nota GU gel í dágóðan tíma og þau henta mér vel. Ég er alltaf með kolvetnadrykki frá Overstim með mér fyrir langar vegalengdir.

Hvert er næsta stóra hlaup sem þú stefnir á og eru einhverjir viðburðir á döfinni á næsta ári?

Næsta stóra keppni verður líklega 55km fjallahlaup í Portúgal í lok október. Keppni sem er opin öllum er haldin samhliða heimsmeistaramótinu í fjallahlaupum.

Ég hef ekki skipulagt næsta ár, en mig hefur alltaf dreymt um að keppa í utanvegahlaupi í Bandaríkjunum. Kannski ég geri það á næsta ári.

Nefndu þrennt sem þú átt alltaf til í ísskápnum ?

Skyr, mjólk og smjör.

Hver er þinn uppáhalds matur & matsölustaður ?

Það er erfitt að velja einn ákveðinn en mér finnst kjöt ofsalega gott. Ég fer oft á Saffran til að borða en mér finnst Forréttabarinn frábær fyrir fínni máltíðir og tilefni.

Ert þú að lesa eitthvað þessa dagana og hver er besta bók sem þú hefur lesið ?

Ég les ekki mikið en ótrúlegt en satt þá var síðasta bók sem ég keypti og las um hlaup. Hún heitir: The Jack Daniel‘s method for running.

Ef þú ætlar að „tríta“ þig sérlega vel hvað gerir þú ?

Mér finnst einfaldlega frábært að fara í Laugardalslaug og fara í gufu og heitu pottana.

Hvað segir þú við sjálfa þig þegar þú þarft að takast á við stórt/erfitt verkefni ?

Ég minni sjálfan mig iðulega á vellíðunar- og hamingju tilfinninguna við að klára erfitt verkefni. Einnig finnst mér mikilvægt að einfaldlega minna mig á hversu mikil forréttindi það eru að geta gengið og hvað þá hlaupið.

Hvar sérð þú sjálfan þig fyrir þér eftir 5 ár ?

Mér finnst best að leyfa lífinu koma mér á óvart en ég vona svo sannarlega að ég muni áfram vera að njóta lífsins og hafa gaman af öllu sem ég geri.