VIÐTALIÐ - Hægt að þjálfa upp bjartsýni, þrautseigju og von!
Hugrún Linda starfar hjá Lausninni og er einn fyrirlesara á málþingi um meðvirkni mánudaginn 12. október frá 13-17 í Bratta, sal HÍ í Stakkahlíð.
Fullt nafn: Hugrún Linda Guðmundsdóttir
Segðu okkur aðeins frá sjálfri þér og hvaðan ertu ?
Ég er fædd í Reykjavík og alin upp í Smáíbúðahverfinu en á ættir að rekja til Vestfjarða. Ég er gift, á tvo stráka og eina stelpu og bý Kópavogi.
Menntun og við hvað starfar þú í dag ?
Ég er ein af þeim sem er alltaf að læra. Í dag er ég með meistaragráðu í félagsráðgjöf en það nám fór ég ekki í fyrr ég var búin að gera ýmislegt annað. Ég er með alþjóðleg réttindi sem markþjálfi ACC og svo var ég að klára nám á meistarastigi í jákvæðri sálfræði í september. Ég hafði áður lært rekstrar- og mannauðsstjórnun og starfaði í mörg ár í eigin rekstri. Ég er auk þess með Jóga Nidra kennaramenntun. Í dag starfa ég sem félagsráðgjafi og markþjálfi hjá Lausninni – fjölskyldumiðstöð.
Hver var kveikjan að því að þú fórst að vinna fyrir Lausnina?
Hjá Lausninni starfa margir vel menntaðir ráðgjafar með mikla reynslu og fjölbreytta nálgun sem mér þykir áhugavert. Það sem ég sá í Lausninni var gott andrúmsloft, starfsfólk með opinn huga fyrir nýjungum og tækifæri til að vinna með einstaklingum sem hafa einlægan vilja til að aðstoða fólk við að bæta líf sitt. Við erum þó með ólíka nálgun en það er einmitt það sem gerir okkur sterk.
Nú er Lausnin með málþing um meðvirkni í október, hvernig er þitt sjónarhorn á meðvirkni?
Hjá Lausninni starfa margir sérfræðingar um meðvirkni og hafa sumir starfað við að vinna úr meðvirknitengdum málum í mörg ár. Ég er ekki beinlínis sérfræðingur í meðvirkni en hef töluvert mikla þekkingu um það hvernig hægt er að bæta lífið og gera það betra. Þeir sem eru að kljást við meðvirkni kunna oft ekki að lifa lífinu til fulls, gera sér ekki grein fyrir styrkleikum sínum og getu og hafa neikvæðar skoðanir um sjálfan sig sem eru ekki réttar. Leiðin sem ég vel að nota byggir á þeirri vissu að hver og einn búi yfir sínum eigin gildum og styrkleikum en þurfi aðstoð við að koma auga á þessa hluti og stuðning til að þora að standa með sjálfum sér. Þessi vinna felur í sér hugarfarsbreytingu og þess vegna er svo mikilvægt að nota gagnreyndar aðferðir eins og jákvæða sálfræðin býður upp á. Þegar verið er að vinna með fólki þarf að hafa heildarsýnina að leiðarljósi, horfa á einstaklinginn út frá öllum hliðum, andlega, félagslega og líkamlega. Það þarf að skoða umhverfisþætti og utanaðkomandi aðstæður og meta þetta allt sem eina heild. Þegar búið er að ná yfirsýninni yfir stöðu einstaklingsins þá er hægt að fara að vinna að breytingum. Ég legg mikla áherslu á að vinna með fólki á jafningjagrundvelli og í sameiningu finnum við leiðir og lausnir.
Hvað er jákvæð sálfræði?
Jákvæða sálfræði má skilgreina sem nýlega vísindagrein innan sálfræðinnar sem byggir á gagnreyndum rannsóknum á jákvæðum hliðum mannsinns og þeim þáttum sem hafa áhrif á að lífið gangi vel allt frá vöggu til grafar. Rannsóknirnar snúa að þáttum eins og styrkleikum, hamingju og vellíðan og hvernig hægt er að auka áhrif þessarra þátta og annarra sem skipta mestu máli í velsæld og velgengni í lífinu. Í stað þess að einblína á veikleika er athyglinni beint að jákvæðum eiginleikum einstaklingsins, hvað hann hefur til brunns að bera og áhersluna á að auka og rækta þá hæfileika. Aðalmarkmið jákvæðrar sálfræði er að framkalla jákvæðar tilfinningar, þrautseigju, kraft og flæði, draga fram vellíðan og virkja einstaklinginn til árangurs.
Hvers vegna velur þú þennan starfsvettvang?
Einhvern veginn hefur áhuginn færst með árunum yfir á það hvernig hægt er að gera lífið betra og hvað það er sem gerir lifið þess virði að lifa því. Þessi áhugi jókst svo enn frekar eftir kreppuna þegar ég fór að taka eftir hvernig fólk fór að forgangsraða öðruvísi og hvernig álag birtist hjá fólki í ýmsum myndum. Þá fór ég að veita því athygli hvað það er sem í raun og veru skiptir máli í lífinu. Ég á líka frekar auðvelt með að sjá og greina styrkleika og getu hjá öðru fólki og oft á tíðum veit fólk ekki einu sinni af sínum styrkleikum, möguleikum og tækifærum. Oft er þetta einmitt fólkið sem elst upp í vanvirkum fjölskyldum og hefur ekki fengið jákvæða styrkingu í uppeldinu og hefur því lítið traust á eigin getu. Hér erum við farin að sjá svokallað lært hjálparleysi þar sem vaninn er farinn að stjórna því að við hættum að reyna á okkur og gefumst auðveldlega upp þegar á móti blæs. Með nálgun jákvæðrar sálfræði og aðferðum markþjálfunar er til dæmis hægt að læra og þjálfa upp bjartsýni, þrautseigju og von. Þegar ég sé fólk „vakna til lífsis“ og átta sig á hverju það getur áorkað og tekur stefnuna á að blómstra í lífinu þá er mínum markmiðum náð. Ég hef greinilega einhverja þörf eða ástríðu fyrir að hvetja fólk til að láta ljós sitt skína og standa með sjálfu sér.
Hver eru þín helstu áhugamál ?
Mín helstu áhugamál tengjast vinnunni minni mjög mikið, það er að segja allt sem snýr að vellíðan, andlegri, félagslegri og líkamlegri heilsu. Ég get sökkt mér í fróðleik um þetta efni og misst tímaskynið. Ég læt ekki bara þar við sitja heldur reyni að lifa lífinu lifandi. Mér finnst til dæmis mjög gaman að skipuleggja ferðalög og ferðast mikið. Helst vil ég sjá nýja staði og upplifa nýja hluti. Ég spila golf, fer á skíði og stunda jóga. Annars er best að vera í góðra vina hópi, hvort sem það er fjölskylda eða vinir og njóta tímans saman.
Bakgrunnur íþróttum og heilsurækt og stundar þú einhverja heilsurækt í dag?
Þessa dagana stunda ég mest jóga í Jógasetrinu og fer út að ganga með hundinn. Annars hef ég tekið hin ýmsu tímabil og verið að lyfta lóðum og í hóptímum á líkamsræktarstöðum, verið í Zumba og synt skriðsund. Ég þarf stundum að breyta til og leyfi mér bara að gera það. Ég reyni að gera hreyfinguna að lífsstíl og er hætt að fara í einhver átök en reyni frekar að njóta þess sem ég geri og hafa gaman af því.
Nefndu þrennt sem þú átt alltaf til í ísskápnum ?
Egg, fetaost og smjör.
Hver er þinn uppáhalds matur & matsölustaður ?
Sterkur og framandi matur er í uppáhaldi. Indverskur matur finnst mér mjög góður og það eru nokkrir góðir indverskir staðir hér á Íslandi. Annars borða ég mest af kjúklingi og eggjum heima hjá mér.
Ert þú að lesa eitthvað þessa dagana og hver er besta bók sem þú hefur lesið ?
Ég er núna með allt of margar bækur uppi við en flest allt eru þetta fræðibækur um hitt og þetta sem snýr að jákvæðri sálfræði, núvitund og hamingju. Ég les bara einn og einn kafla hér og þar eftir hentisemi. Annars hef ég alltaf lesið mikið af sögubókum og í fríum þá les ég mikið. Bækurnar Karítas án titils og Óreiða á striga eru eftirminnilegar.
Ef þú ætlar að „tríta“ þig sérlega vel hvað gerir þú ?
Gef sjálfri mér tíma til að dunda mér, fara í bað með olíu og salti, slaka á og annað þess háttar.
Hvað segir þú við sjálfa þig þegar þú þarft að takast á við stórt/erfitt verkefni ?
Eitt skref í einu.....svo sest ég niður og reyni að búta verkefnið niður í smærri einingar, alveg þangað til ég er búin að sjá fyrir mér hvernig verkið er best unnið og byrja svo á fyrsta skrefinu.
Hvar sérð þú sjálfa þig fyrir þér eftir 5 ár ?
Ég sé mig á svipuðum stað og í dag, ég held áfram að bæta við mig þekkingu sem ég nýti til að efla, styðja og styrkja aðra sem eru á þeirri vegferð að vilja fá sem mest út úr lífinu. Auk þess ætla ég að vera búin að ferðast mikið og sjá marga nýja staði. En fyrst og fremst vil ég sjá mig í góðu jafnvægi og sátta við lífið í hverju sem í því felst.