VIÐTALIÐ: Í tilefni þess að þann 29. September n.k er Alþjóðlegi Hjartadagurinn þá tókum við viðtal við Ásgeir Þór Árnason hjá Hjartaheillum
Ásgeir Þór segir okkur frá Hjartaheillum, Alþjóðlega Hjartadeginum og hvað honum finnst skemmtilegast að gera til að halda sér í formi.
Fullt nafn:
Ásgeir Þór Árnason
Segðu okkur aðeins frá sjálfum þér og hvaðan ert þú?
Ég er fæddur 14. maí 1956 á fæðingadeild Landspítalans við Hringbraut en foreldrar mínir bjuggu á Seltjarnarnesinu. Þar ólst ég upp til ársins 1962 en þá fluttu foreldrar mínir inn í Kleppsholtið í hús við Hjallaveg 46.
Ég var mikið fyrir það að fara vestur í Grundarfjörð en þaðan eru báðir foreldrar mínir ættaðir – og má eiginlega segja það að ég hafi alist að miklu leiti upp þar fram yfir fermingu.
Menntun og við hvað starfar þú í dag ?
Ég er lærður húsasmiður og starfaði við smíðar allt til ársins 1990 – lenti þá í vinnuslysi sem gerði það að verkum að ég hafði lítið í smíðarnar að gera. Ég starfaði hjá Byggingavörudeild Sambandsins, Húsasmiðjunni og hjá Póst og síma til ársins 1999 er ég var ráðinn sem framkvæmdastjóri Landssamtaka hjartasjúklinga sem heita í dag Hjartaheill.
Hver eru þín helstu áhugamál?
Ég var alæta á íþróttir frá blautu barnsbeini. Ég æfði handbolta, körfubolta, frjálsar íþróttir – aðallega spjótkast og fótbolta. Fljótlega þróaðist fótboltinn meira og meira hjá mér og varð mín aðal íþróttagrein fram til 35 ára aldurs – en þá fékk ég það alvarlegt hjartastopp og hjartaáfall sem gerði það að verkum að ég varð að hætta fótboltanum.
Af hverju fórst þú að starfa fyrir Hjartaheill og hvað getur þú sagt okkur um samtökin?
Í byrjun árs 1992 þá hálffertugur fór ég að finna fyrir óvenju miklum slappleika, þreytu og úthaldsleysi án þess að nein skýring fyndist á því þó ég færi í allskonar rannsóknir. Því kom það sem þruma úr heiðskíru lofti þann 11. maí 1992 er ég fór að finna til mikilla verkja, kaldsvita og máttleysis sem leiddu til þess að ég var sendur í hendingskasti á bráðamóttökuna í Fossvogi. Rétt í þann mund sem ég kom á sjúkrahúsið fór ég í fyrsta hjartastoppið og fylgdu nokkur á eftir, en frábært starfsfólk sjúkrahússins vann sannarlega kraftaverk að halda mér lifandi.
Í framhaldinu fór ég í æðavíkkun með þræðingu en stoðnet voru ekki komin til sögunnar á þessum tíma. Ég varð fyrir skemmdum á hjartavef, en mér hefur verið haldið við síðan með verulegri lyfjagjöf, auk stöðugs eftirlits og opinnar hjartaaðgerðar árið 2010 – aðgerðin gekk mjög vel. Lengst af hefur þetta gengið þolanlega en með mun minni getu til átaka.
Þegar ég komst almennilega til ráðs og rænu fór ég að leita uppi samtök hjartasjúklinga. Þar kynntist ég stofnendum og forustufólkinu innan Landssamtaka hjartasjúklinga (Hjartaheill í dag) og má eiginlega segja að þar hafi ég eignast mikið af ömmum, öfum og góðum vinum – flest þeirra sem þarna voru, voru komin á síðari hluta vinnuævinnar og því kærkomið að fá ungann áhugasaman einstakling inn í starfið – ég varð strax vel virkur í starfi samtakanna og tók að mér ýmis störf sem þarf að vinna sem sjálfboðaliði.
Árið 1999 lét af störfum fyrsti formaður og framkvæmdastóri samtakanna Ingólfur Viktorsson og var þá leitað til mín að taka við keflinu af Ingólfi. Ég var svolítið smeykur að blanda saman áhugamálinu og vinnunni en þetta hefur gengið afskaplega vel með góðri aðstoð stjórnar og starfsmanna Hjartaheilla.
Árið 2004 var nafni samtakanna breytt úr Landssamtök hjartasjúklinga í Hjartaheill og var það einn þáttur í því að opna félagið fyrir þeim sem vilja starfa með okkur án þess endilega að vera sjúklingar.
Í dag er hefðbundinn félagsandi (ungmennafélagsandinn) liðinn og þeim mun fyrr sem félagasamtök gera sér grein fyrir því og breyta í samræmi við það stefnu og starfi sínu þá munu félagasamtök ná sér á strik aftur.
Hjartaheill eru ein stærstu sjúklingasamtök á landinu með 11 deildir um land allt. Samtökin eru málsvarar hjartasjúklinga og aðstoða eftir fremsta megni þá sem minna mega sín, veita yfirvöldum ráð um það sem betur má gera og aðstoða þau við að halda hjartalækningum á Íslandi meðal þess albesta sem þekkist í heiminum, en á hverjum degi látast á Íslandi að meðaltali þrír einstaklingar af völdum hjarta- og æðasjúkdóma.
Heilsufarsmælingarnar eru liður í fjölþættu forvarna- og fræðslustarfi Hjartaheilla.
Samtökin hafa frá árinu 2000 staðið fyrir fræðslu, blóðfitu-, blóðsykurs- blóðþrýstingsmælingum og súrefnismettunarmælingum. Hefur þetta framtak mælst afar vel fyrir en mælingar hafa verið gerðar á 131 stöðum um land allt og hafa um 14.400 einstaklingar notið slíkrar þjónustu.
Ljóst er að þessar forvarnir hafa bjargað mannslífum - með hverjum einstaklingi sem forðað er frá sjúkrahúsinnlögn og kemst undir læknishendur tímalega, sparast gríðarlegir fjármunir.
Við mælingarnar er kappkostað að hafa samstarf við fagfólk s.s. lækna, hjúkrunarfræðinga eða meinatækni á nærliggjandi sjúkrahúsi eða heilsugæslu til að tryggja að þeir einstaklingar sem greinast með of há gildi verði kallaðir aftur inn til framhaldsmeðferðar.
Þannig hefur þessi forvarnarvinna Hjartaheilla þróast frá árinu 2000 og ávallt bætist við mælingarnar s.s. lýðheilsuspurningar og öndunarprófsmælingar.
Segðu okkur aðeins frá Alþjóðlega hjartadeginum og hver eru megin markmiðin með deginum?
Alþjóðlegur hjartadagur er haldinn 29. september ár hvert en það er Alþjóðahjartasambandið (World Heart Federation) sem hvetur aðildarfélög sín um allan heim til að halda upp á Hjartadaginn. Á Íslandi sameinast Hjartavernd, Hjartaheill, Neistinn og Heilaheill um að halda daginn hátíðlegan.
Í tenglum við daginn fór fram ellefta hjartadagshlaupið laugardaginn 23. september s.l. frá Kópavogsvelli - hlaupið var 5 og 10 km að venju.
Á sjálfan daginn 29. september 2017 kl. 17:00 verður hjartagangan – lagt verður af stað frá göngubrúnum við gömlu rafstöðina í Elliðaárdal og gengið um Elliðaárdalinn undir forystu Hjartaheilla. Gangan er um 4 km að lengd.
Heilbrigður lífsstíll er mikilvægasta forvörn gegn hjarta- og æðasjúkdómum - þema hjartadagsins í ár er „Share the Power“.
Finnst þér fólk vera almennt meira vakandi yfir hjartasjúkdómum í dag en áður?
Nei það get ég ekki sagt – hjartaáfall kemur fólki alltaf jafn mikið á óvart og því miður þá eru erfðaþættirnir mjög sterkir – það er ekki hægt að forðast ættarsöguna – en með heilbrigðu lífi er hægt að seinka komu sjúkdómsins.
Hvað er best fyrir okkur að gera til að huga vel að hjarta og hjartaheilsu?
Muna að við eigum bara eitt heilbrigt hjarta sem þarf reglulega hreyfingu, hollt matarræði – og hæfilega hvíld líka. Ræða ættarsöguna við þá sem yngri eru og benda þeim á að láta fylgjast með sér og muna það að bregðast strax við brjóstverki með því að fara til læknis þ.e. láta líkamann (hjartað) njóta vafans – það vill enginn að vélin okkar STOPPI.
Hvernig stendur Landspítalinn að vígi er snýr að meðferð og tækni við hjartasjúkdómum?
Hjartasviðið allt á Landspítalanum er mannað fjölbreyttu velmenntuðu starfsfólki sem allt leggur mikið á sig að lækna þá sem þangað leita og nú á síðari árum hefur tækjabúnaður batnað mikið þó alltaf sé hægt að gera betur í þeim efnum.
Ég hef aftur á móti verulegar áhyggjur af grunnþjónustunni þ.e. heilsugæslustöðvunum um land allt – það gengur ekki upp í núverandi mynd ef hún á að vera fyrsti viðkomustaður þess sem veikist.
Hvernig sérð þú íslenska heilbrigðiskerfið fyrir þér að fimm árum liðnum?
Ég hef ávallt haft mikla trú á heilbrigðiskerfinu okkar og fólkinu sem við það starfar og veit að það er allt gert til að lækna fólk en mun ekki sjá fyrir mér miklar breytingar á því eftir fimm ár – frá því að ég byrjaði að fylgjast með sem sjúklingur árið 1992 er ennþá verið að ræða sömu vandamálin og ætli það verði ekki svo að fimm árum liðnum.
Hvað áttu alltaf til í ísskápnum – nefndu eitthvað þrennt?
Sódavatn, mjólk og ávexti.
Göngutúr út í guðsgrænni náttúrunni eða inni á líkamsræktarstöð á göngubretti?
Göngutúr í guðsgrænni náttúrunni á sumrin og þá að spila golf – er heltekinn af þeim góða vírus og inni á líkamsræktarstöð um vetur.
Ef þú ætlar að gera virkilega vel við þig, hvað verður fyrir valinu?
Útigrillið heima er einn minn besti vinur og svo auðvitað þegar ég bíð börnunum og þeirra fjölskyldum í mat vel ég eitthvað gott á grillið, en síðastliðið sumar þá fengum við hjónin okkur húsbíl – þar geri ég virkilega gott við mig.
Hvar sérð þú sjálfan þig fyrir þér eftir 5 ár?
Ég vona heilsulega séð að ég sé ennþá starfandi fyrir Hjartaheill en um leið þá farinn að huga að arftaka mínum í starfi framkvæmdastjóra Hjartaheilla því það er nú farið að styttast í að ég gefi keflið frá mér til nýs arftaka árið 2026.