Fara í efni

VIÐTALIÐ: Kristín Valdís Örnólfsdóttir skautadrottning - lestu um hennar frábæra árangur

Kristín Valdís Örnólfsdóttir skautadrottning náði þeim frábæra árangri á dögunum að ná hæsta skori sem íslensk skautakona hefur náð frá upphafi á mótaröðinni Junior Grand Prix þegar hún hlaut 90,49 stig í Riga í Lettlandi.
VIÐTALIÐ: Kristín Valdís Örnólfsdóttir skautadrottning - lestu um hennar frábæra árangur

Kristín Valdís Örnólfsdóttir skautadrottning náði þeim frábæra árangri á dögunum að ná hæsta skori sem íslensk skautakona hefur náð frá upphafi á mótaröðinni Junior Grand Prix þegar hún hlaut 90,49 stig í Riga í Lettlandi.

Fyrra met var 88,32 og hafði staðið frá árinu 2012.

Heilsutorg tók viðtal við Kristínu Valdísi og fara svör hennar hér á eftir.

 

Fullt nafn:

Kristín Valdís Örnólfsdóttir  

Segðu okkur aðeins frá sjálfri þér og hvaðan ert þú?

Ég er 19 ára gömul úr Garðabænum en bjó í Svíþjóð fram á 8 ára aldur þangað til ég flutti heim. Ég byrjaði að æfa skauta þegar ég var 7 ára gömul og hefur íþróttin síðan þá verið stærsti partur lífs míns.

Í hvaða skóla ert þú og á hvaða braut?

Ég er á líffræðibraut í Verzlunarskóla Íslands en á að útskrifast í vor.

Hver eru þín helstu áhugamál fyrir utan skautana og átt þú kannski bakgrunn í öðrum íþróttagreinum?

Helstu áhugamál mín eru að ferðast, íþróttir og heilsurækt yfir höfuð og að vera með vinum mínum og fjölskyldu. Ég hef prófað mjög margar íþróttir m.a. ballet, fimleika, fótbolta, frjálsar, sund o.fl. þangað til ég fann skautana.

Ef ekki skautar, hvaða önnur íþróttagrein þykir þér spennandi?

Ég held að ef ég væri ekki að æfa skauta þá væri ég í fimleikum eða dansi.

Hvað æfir þú oft í viku og getur þú gert nokkuð annað en að sinna skólanum og æfingum?

Um veturinn æfi ég uþb. 13 tíma á viku en það er mismunandi eftir vikum. Á sumrin æfi ég hins vegar upp í 20 tíma á viku.

Segðu okkur aðeins frá mótinu í Riga og hvaða þýðingu þessi árangur hefur fyrir þig?

Þetta var bara ótrúlega gaman og góð reynsla að fá að taka þátt í svona sterku móti en það er mjög góð tilfinning að byrja svona vel á keppnistímabilinu. Það gefur mér meira öryggi og sjálfstraust til að standa mig vel í vetur og að sjá að ekki er langt í að ég nái markmiðum mínum.

Hvað er næst á döfinni hjá þér?

Það er mót næstu helgi í Egilshöllinni og tvær alþjóðlegar keppnir fram að jólum auk þess sem Íslandsmótið er í lok nóvember en fram að því eru strangar æfingar á döfinni.

Nefndu þrennt matarkyns sem þú passar að eiga alltaf til heima?

Ávexti, mjólk og egg, hafra og banana

Hvað er skrítnasti matur sem þú hefur borðað?

Ég fékk að smakka krókódíl einu sinni þegar ég fór til Thailands. Hann var bara eins og kjúklingur á bragðið.

Hver er þinn uppáhalds matur & matsölustaður ?

Uppáhaldsmatur minn er mexíkóskar pönnukökur og lasagna. Culiacan, Lemon og Krúska eru í miklu uppáhaldi.

Ef þú ætlar að „tríta“ þig sérlega vel hvað gerir þú ?

Ég kaupi mér ný íþróttaföt eða eitthvað hollt og gott að borða.

Hvað segir þú við sjálfa þig þegar þú þarft að takast á við stórt/erfitt verkefni ?

Anda inn og út, Kristín þú getur þetta, taka einn hlut í einu, ég geri bara mitt besta, ef aðrir geta þetta þá getur þú þetta.

Hvar sérð þú sjálfa þig fyrir þér eftir 5 ár?

Í háskóla að læra eitthvað skemmtilegt, flutt að heiman, vonandi eitthvert til útlanda og búin að ná öllum markmiðum mínum sem ég hef lagt fyrir sjálfa mig á næstu 5 árum.