Fara í efni

VIÐTALIÐ: Svala Björgvins opnar sig um sönginn, lífið og kvíðann

Svala er einlæg, hún er afbragðs söngkona og segir okkur aðeins frá sínu lífi með kvíða og hvað henni finnst best að gera til að slaka vel á.
Mynd: Saga Sigurðardóttir
Mynd: Saga Sigurðardóttir

Svala er einlæg, hún er afbragðs söngkona og segir okkur aðeins frá sínu lífi með kvíða og hvað henni finnst best að gera til að slaka vel á.

 

Fullt nafn:

Ég heiti Svala Karítas Björgvinsdóttir og ólst upp í Hafnarfirði og úti á Seltjarnarnesi. 

 

Segðu okkur aðeins frá sjálfri þér og hvaðan þú ert ?

 Ég útskrifaðist úr Kvennaskólanum af félagsfræðibraut. Ég hef unnið eingöngu við tónlist síðan ég útskrifaðist úr menntaskóla og er lagahöfundur og söngkona, hef gefið út margar plötur og tónlistarmyndbönd og túrað út um allan heim.  Ég var dómari í The Voice og var með mína eigin fatalínu sem heitir KALI í 3 ár, ég hannaði líka fatalínu fyrir H&M árið 2007. Ég vann Söngvakeppnina með lagið mitt Paper árið 2017 og keppti fyrir hönd Íslands í Kiev. Ég flutti aftur til Íslands síðasta sumar eftir að hafa búið í 9 ár í Los Angeles.

Hver eru þín helstu áhugamál ?

 Mín helstu áhugamál eru bíómyndir, útivist, dýr, fara á tónleika, lesa góðar bækur, vera með fjölskyldunni, ferðast um heiminn og borða góðan mat.

Bakgrunnur í íþróttum ?

Ég var í ballet í Þjóðleikhúsinu frá því ég var 9 til 15 ára.  Ég ætlaði að verað ballet dansari og dansinn átti hug minn allan. En ég slasaðist í hnjánum og átti mjög erfitt með að æfa seinustu árin mín í skólanum, það var annað hvort að fara í hné aðgerð og svaka endurhæfingar eða hætta.  Ég ákvað að hætta og fór þá á kaf í tónlistina eftir það.

Þú er frábær og vinsæl söngkona, hvað gerir söngurinn fyrir þig ?

Æ takk fyrir það. Söngurinn færir mér endalausa hamingju og þegar ég er að syngja þá líður mér eins og ég sé alveg 100%  og ég finn fyrir mínum tilgangi í heiminum. Það er ekki til betri tilfinning en að syngja fyrir framan fullan sal af fólki og snerta sálir þeirra með röddinni sinni. Það er ekki hægt að lýsa þeirri tilfinningu.

Nú hefur þú talað um kvíða, ertu búin að berjast lengi við kvíða ?

Já, ég var stundum kvíðin sem barn og svo aukst kvíðinn þegar ég fór í menntaskóla og ég varð mjög veik meðan ég var í menntó. Fékk kvíðaköst á hverjum degi og gat ekki borðað og átti erfitt með að vera innan um fólk.

Ég skammaðist mín mikið fyrir þetta og það voru bara fáar nánar vinkonur mínar sem vissu þetta og svo fjölskyldan mín og þáverandi kærasti. Ég hélt að ég væri að verða geðveik á tímabili því þetta var alla daga og stundum í marga mánuði, svo hætti kvíðinn í nokkrar vikur en kom svo aftur miklu verri. Þetta var ótrúlega erfitt tímabil og ég var svo hrædd og týnd og vissi ekki hvað var í gangi með mig.

Á þessum tíma var ég samt mjög mikið erlendis að taka upp tónlistina mína og var mjög mikið að syngja á Íslandi líka því ég var í mjög vinsælli hjómsveit á þessum tíma. Þannig að ég var í menntaskóla og með tónlistarferil sem var á fullri ferð og með kvíðaröskun sem var mjög alvarleg. Ég var bara á hnefanum alla daga og barðist áfram.

Það var ekki fyrr en ég varð 25 ára sem ég leitaði mér hjálpar og fór til geðlæknis og fékk kvíðalyf sem hjálpuðu mér mjög mikið. Á þessum tíma var ég orðin 43. kíló og var bara ein taugahrúga. Ég var nýflutt frá LA því ég flutti þangað í fyrsta skipti um leið og ég útskrifaðist úr menntaskóla því ég skrifaði undir mjög stóran plötusamning í Bandaríkjunum og ég varð að flytja þangað og var þar í rúmlega 2 ár að gefa út mína fyrstu sóló plötu og túra um alla Ameríku og Evrópu með mína fyrstu plötu. Um leið og ég er sett á lyfin þá róaðist kvíðinn mikið og ég var í viðtalstímum í hverri viku sem hjálpuðu mikið. Ég átti fimm rosa góð ár þar sem kvíðinn gerði ekkert vart við sig, en svo flutti ég aftur til LA árið 2009 og bjó þar í 9 ár. Kvíðinn fór að gera vart við sig aftur 2010 og þá varð ég að leita að öðrum leiðum til að díla við hann, breyta um mataræði, hreyfingu og hugarfar og atferlismeðferðir. Lyfin eru bara tímabundinn plástur og er ekki lausnin við vandamálinu. 

Finnur þú fyrir betri andlegri líðan þegar þú ert að syngja ?

Ég finn aldrei fyrir neinum kvíða þegar ég er að syngja, hvort sem það er í stúdíói eða fyrir framan fólk. Þá kemur bara innri ró og friður og mér líður svo vel og líður eins og allt sé ok.

Hvað finnst þér virka best til að ná niður kvíðaköstum ?

Mér finnst best að tala við mína nánustu og fá stuðning frá þeim. Hlusta á tónlist, gera öndunaræfingar eða pilates æfingar. Og svo eru jákvæðar hugsanir líka mjög góðar í kvíðakasti, hugsa “þetta líður hjá, mér mun ekki líða svona að eilífu” og muna að kvíðakast varir aldrei of lengi. Þetta er tímabundið ástand sem mun líða hjá. Og muna að kvíðakast er ekki hættulegt og ég mun ekki deyja eða verða geðveik. Þetta er bara heilinn á mér að senda vitlaus boð og líkaminn minn er að finna fyrir því. Þetta hjálpar mér allavega mjög oft. Stundum samt getur kastið verið svo slæmt að ég verð bara að leyfa því að koma og vera og bíða þangað til það er búið.

Finnst þér að fólkið í kringum þig skilji hvað þú ert að berjast við ?

Já það skilja það allir mjög vel. Enda margir í minni fjölskyldu sem díla við kvíða. Ég er heppin að fá mikinn stuðning frá öllum mínum nánustu.

Nefndu þrennt sem þú átt alltaf til í ísskápnum ?

Smjör, tómatsósa og salat dressing.

Hver er þinn uppáhalds matur & matsölustaður ?

Ég elska sushi og Sushi Stop í LA er minn uppáhalds staður. En ég elska líka pizzur og mér finnst Castello í Hafnarfirði með alveg geggjaðar pizzur.

Ert þú að lesa eitthvað þessa dagana og hver er besta bók sem þú hefur lesið ?

Ég er að lesa The Passage bækurnar sem eru framhaldsbækur, vísindaskáldsögur. Ég les mest þannig bækur. Ein af mínum uppáhalds bókum er The Girl With All The Gifts. Geggjuð bók sem ég las tvisvar sinnum.

Ef þú ætlar að „tríta“ þig sérlega vel hvað gerir þú ?

Þá elska ég að fara í sána og er þar bara allan daginn og er bara að sjóða mig í sánunni hehehe. Fer í sturtu mikið á milli og drekk mikið af köldu vatni. En ég elska sána og ég veit ekki um meira endurnærandi og róandi en það.

Hvað segir þú við sjálfa þig þegar þú þarft að takast á við stórt/erfitt verkefni ?

Að muna að njóta og gera mitt allra besta. Muna að ég er mannleg og það mun taka á að taka að sér stórt verkefni en alltaf að njóta og hafa gaman líka.  Og koma inn í verkefnið með opnum hug og jákvæðu hugarfari.

Hvar sérð þú sjálfa þig fyrir þér eftir 5 ár ?

Vonandi með eitt barn og fallegt hús í Hafnarfirði. Og að gefa út tónlistina mína og að syngja fyrir fólk.

Svala vildi bæta því við að hún er að halda eigin tónleika 5.apríl í Bæjarbíói með sinni hljómsveit og einnig nokkrum góðum gestum. 

 

Miðasala er á midi.is

Sjá umfjöllun: https://midi.frettabladid.is/tonleikar/1/10772/Svala_Bjorgvins_ta_og_nu_I_Bajarbioi

Allar ljósmyndir eru teknar af Sögu Sigurðardóttur.