Fara í efni

Viðtalið - Þórdís Lilja, hún hefur meðal annars keppt á tvennum Ólympíuleikum – kíktu á skemmtilegt viðtal

Lesið skemmtilegt viðtal við hana Þórdísi Lilju, hún hefur m.a keppt á tvennum Ólympíuleikum en í dag hefur hún brennandi áhuga á uppeldismálum ásamt fleiru.
Viðtalið - Þórdís Lilja, hún hefur meðal annars keppt á tvennum Ólympíuleikum – kíktu á skemmtilegt …

Lesið skemmtilegt viðtal við hana Þórdísi Lilju, hún hefur m.a keppt á tvennum Ólympíuleikum en í dag hefur hún brennandi áhuga á uppeldismálum ásamt fleiru.

 

Fullt nafn: Þórdís Lilja Gísladóttir

Segðu okkur aðeins frá sjálfri þér og hvaðan ertu ?

Ég er fædd í Reykjavík og alin upp í Mávahlíð í Reykjavík.  Ég á  ættir mínar að rekja á Snæfellsnes þar sem móður mín var ættuð úr Kolbeinsstaðarhreppi og   faðir minn úr Staðarsveit.  Mér finnst gott að koma á Snæfellsnesið þar er góð orka. Snæfellsjökull býr yfir kingilmagnaðri orku.  Ég átti góða foreldra sem lögðu áherslu á góð gildi í uppeldinu, sterka siðferðisvitund, réttlætiskennd og vanda alltaf til verka í því sem maður tæki sér fyrir hendur og einnig að klára verk sem maður byrjar á. Ég er yngst í af fjórum systkinum.

Ég er gift Þráni Hafsteinssyni og eigum við tvær dætur Helgu og Hönnu.  Íþróttir eru fyrirferðamiklar í lífi fjölskyldunnar en ég og Þráin höfum starfað fyrir frjálsíþróttadeild ÍR sleitulaust í 20 ár og vorum þar áður hjá HSK uppeldisfélagi Þráins þegar við bjuggum á Laugarvatni og störfuðum við Íþróttakennaraskóla Íslands. Stelpurnar okkar eru báðar í frjálsum og yngri dóttir okkar Hanna leggur líka stund á körfubolta.

Menntun og við hvað starfar þú í dag ?

Er með BS próf í Íþrótta og heilsufræði, MS gráðu í mennta-og menningastjórnun og doktorsgráðu í Heislusálfræði.  Ég starfa sem verkefnastjóri hjá Reykjavíkurborg og er ný doktor við Háskóla Íslands.  Vinn nú að heildstæðri stefnu í heilsueflingu fyrir Breiðholtið undir heitinu Heilsueflandi Breiðholt.

Hver eru þín helstu áhugamál ?

Íþróttir er stór hluti af lífi mínu. Ég hef brennandi áhuga á uppeldismálum, menntun, heilsu og líðan.
Ég hef náð að mennta mig og starfa við mitt áhugamál og hef lengst af starfað við kennslu, þjálfun, stjórnun og stefnumörkun.
Ég hef mikinn áhuga á hönnun og finnst fátt skemmtilegra en að hafa fallegt í kring um mig og finnst bara gaman að taka til og breyta.

Bakgrunnur íþróttum og átt þú enn einhver Íslandsmet ?

Ég byrjaði að æfa frjálsaríþróttir með ÍR 12 ára gömul. Ég komst í úrslit í þríþraut FRÍ og Æskunnar og þar kom hin ötulli þjálfari ÍR-inga Guðmundur Þórarinsson auga á mig og bauð mér að koma á æfingu. Ég hef æft frjálsar íþróttir síðan. Keppti fyrir ÍR árin 1974-1985 þá skipti ég yfir í HSK og keppti fyrir þá í 10 ár og kom svo aftur heim til ÍR.  Mín sérgrein er hástökk en ég keppti einnig í fimmtarþraut, grindarhlaupi, langstökki og boðhlaupum.
Ég á Íslandsmetið í hástökki kvk  1.88m bæði inni og úti.

Ég keppti á tvennum Ólympíuleikum, sex  Heimsmeistaramótum, tveimur Evrópumeistaramótum og 13 Evrópubikarkeppnum.  Ég á  að baki  31 landskeppnir í frjálsíþróttum fyrir Íslands hönd.  Ég  er fyrsta íslenska konan til að vinna All American viðurkenningu í íþróttum og til að vinna Bandarískan háskólameistartitill í íþróttum.  

Hvaða tegund af heilsurækt stundar þú sjálf ?

Ég stunda frjálsar íþróttir ennþá, mest hlaup og lyftingar.
Er að þjálfa hjá ÍR og æfi stundum með krökkunum líka.

Hvað er heilsueflandi Breiðholt og hvenær er fyrirhugað að verkefnið hefjist ?

Heilsueflandi Breiðholt er útfærsla á forvarnastefnu Reykjavíkurborgar og stefnu borgarinnar um heilsueflingu sem byggir á samningi Reykjavíkurborgar og Embætti Landlæknis um samstarf til heilsueflingar og aukinnar lýðheilsu í Reykjavík. Stefnt er að því að Heilsueflandi Breiðholt nái til flestra stofnana Reykjavíkurborgar í hverfinu og allra aldurshópa; barna, unglinga, fullorðinna og aldraðra.

Verkefnið Heilsueflandi Breiðholt hefur það markmið að stofnanir og félagasamtök þrói með íbúum samfélagslegan ramma utan um markvissa heilsueflingu í hverfinu. Við þróun verkefnisins hef ég sem verkefnastjóri verkefnisins leitast við að ná til allra hagsmunahópa til að greina stöðu hverfisins og leitt vinnu við aðgerðaáætlanir leik-, grunn- og framhaldsskóla, félagasamtaka, félagsmiðstöðva, frístundaheimila og félagsstarfs eldri borgara.

Hvernig munu íbúar Breiðholts „finna fyrir því“ sem þið ætlið að gera í þessu verkefni ?

Góð líkamleg og andleg heilsa er mikilvæg fyrir farsæld samfélaga. Því er mikilvægt að skapa ákjósanlegar aðstæður þar sem fólk lifir sínu daglega lífi. Börn og unglingar verja tíma sínum að stórum hluta í skólum og í íþrótta-og frístundastarfi. Samhæft forvarnaverkefni allra stofnana ætti að stuðla að samhæfðari aðgerðum og þá markvissari árangri í samvinnu við heimilin.
Stofnanir munu vinna í  fjórum aðal áhersluþáttum hreyfingu, næringu, líðan og lífsstíl.  Einnig verður unnið að sértækum forvarnaverkefnum í Heilsueflandi Breiðholti.

Hvað stendur eplið í merkinu ykkar fyrir ?

Hönnuðurinn af merkjum HEILSUEFLANDI BREIÐHOLTS  heitir Björn Þór Björnsson (Bobby í Breiðholti). Eplið er hollt, fallegt og einfalt  og var það fyrsta sem kom upp í huga hans þegar hann var að vinna veggspjaldið.
Veggspjaldið er á vissan hátt „retro“, en stendur alltaf fyrir sínu, en það er einmitt sem Heilsueflandi Breiðholt á að gera það á að geta staðið ár eftir ár á sömu gildum.

Hverjir koma að verkefninu út frá faglegu sjónarhorni ?

Ég sem verkefnastjóri á Þjónustumiðstöð Breiðholts leiði verkefnið og vinn með fjölda fólks að innleiðingunni s.s kennurum og stjórnendum í skólunum, heilsugæslunni í Breiðholti, Embætti landlæknis og öðrum stjórendum í hverfinu.  

Munu fyrirtæki og stofnanir í Breiðholtinu sem vilja taka þátt í verkefninu fá stuðning frá ykkur ?

Eins og áður hefur komið fram koma allar helstu stofnanir Reykjavíkurborgar í Breiðholti að Heilsueflandi Breiðholti og fá fullan stuðning frá Þjónustumiðstöð Breiðholts.  Á nýju ári verður skoðað með hvaða hætti er hægt að virkja fyrirtæki í hverfinu í Heilsueflandi Breiðholt.

Hyggist þið deila ykkar reynslu af þessu verkefni með öðrum borgarhlutum  og sveitarfélögum ?

Já við höfum þegar gert það. Þar sem stýrihópur á vegum borgarstjóra um lýðheilsu og heilsueflingu barna og unglinga í leik-og grunnskólum, en ég er í þeirri nefnd til ráðgjafar fyrir stýrhópinn, hefur lagt til að hugmyndafræðinað Heilsueflandi Breiðholti verði höfð til hliðsjónar við heilsueflingu í öðrum hverfum borgarinnar. Uppsetning Heilsueflandi Breiðholts  hefur verið lögð fram sem dæmi að nálgun til heilsueflingar í skólum og frístundaheimilum í borginni. Hugmyndin er sett fram sem Reykjavíkurlíkanið til umfjöllunar hjá borgarráði. Reykjavíkurlíkanið er þá hugsað sem umgjörð Reykjavíkurborgar utan um heilsueflandi frístundaheimili, grunn- og leikskóla.

Nefndu þrennt sem þú átt alltaf til í ísskápnum ?

Ávexti, grænmeti  og ost.

Hver er þinn uppáhalds matur & matsölustaður ?

Fresco.

Ert þú að lesa eitthvað þessa dagana og hver er besta bók sem þú hefur lesið ?

Er að lesa Fiskarnir hafa enga fætur eftir Jón Kalmann Stefánsson.
Erfitt að velja bestu bókina en Brekkukotsannáll eftir Halldór Laxness kemur alltaf upp í hugann.
Ólafur Jóhann Ólafsson er líka í uppáhaldi.
Ein ljúfasta bók sem ég hef lesið er Bókmennta- og kartöflubökufélagið eftir Mary Ann Shaffer og Annie Barrows.

Ef þú ætlar að „tríta“ þig sérlega vel hvað gerir þú ?

Kósi kvöld með fjölskyldunni.

Hvað segir þú við sjálfa þig þegar þú þarft að takast á við stórt/erfitt verkefni ?

Áfram.

Hvar sérð þú sjálfan þig fyrir þér eftir 5 ár ?

Að vinna að verkefnum sem hafa jákvæð áhrif á samfélagið.