Vikumatseðill 1.vikan í febrúar - sparnaðaráskorun í gangi hjá Heilsumömmunni
Jæja, eins og glöggir lesendur hafa tekið eftir er Sparnaðaráskorun febrúar komin í gang hjá frúnni og þess vegna er ég svona súper skipulögð og búin að gera vikumatseðil fyrir fyrstu vikuna.
Mánudagur: Ég reyni yfirleitt að hafa grænmetisrétt á mánudögum (undir áhrifum meatless monday í Ameríkunni). Hnetubuff ásamt soðnu kínóa og apríkósuchutney (af því að ég á það síðan í síðustu viku) ...veit ekki alveg hvort allir í fjölskyldunni verði hamingjusamir en það kemur í ljós. Spurning að bjóða upp á að setja buffin í brauð og búa til Sollu-kokteilsósu (Sollu-mæjónes og Sollu-tómatsósa ásamt smá paprikukryddi) með fyrir yngri kynslóðina svo kvartkórinn verði ekki of hár.
Þriðjudagur: þriðjudagar eru orðnir hálfgerðir eggjadagar... það hefur bara þróast þannig, ýmist ommiletta eða spæld egg. Það er mjög vinsælt að skera niður langsum gúrku, papriku og gulrætur og borða með eða jafnvel nota kálblöð og rúlla utan um eggin.
Miðvikudagur: þar sem það þarf að skutla einni dömu í dans og annarri í fimleika á miðvikudögum er ekki í boði að vera með flókna eldamennsku. Grjónagrautur og lifrapylsa er á planinu. Lifrapylsan telst nú sennilega seint vera mikil hollusta en börnin elska hana og grjónagrauturinn er búin til úr hýðishrísgrjónum og heimatilbúnni möndlumjólk. Ég ætla að njóta þess að fá mér afgang frá mánudeginum og svo kannski smá grjónagraut í eftirmat
Fimmtudagur: fimmtudagar eru súpudagar, oft naglasúpa þar sem hreinsað er úr grænmetisskúffunni fyrir helgina. Stundum á ég í frysti fisk, lambakjöt eða kjúkling til að gera hana aðeins matarmeiri. Stefnan er sett á stafasúpu í þessari viku og planið að baka brauðbollur með henni og svo er voða vinsælt að sjóða egg og setja út í.
Föstudagur: föstudagar eru fjölskyldukvöld, undantekningarlaust eitthvað gott í matinn og bíókvöld með gríslingunum. Þar sem vikan er frekar létt er yfirleitt komin tími á kjötmeti að mati fjölskyldunnar. Mexíkómatur er alltaf vinsæll, hakk, tortillur eða skeljar eða jafnvel bara nota sallatblað til að vefja, fullt fullt af grænmeti, guatamole, heimatilbúið salsa ofl. Ég geri það stundum að sleppa hakkinu en krydda svartar baunir eða aduki baunir eins og hakkið og að mínu mati kemur það algerlega í staðinn fyrir kjötið (ef þið viljið draga úr því) eða blanda því saman Ég hvet ykkur til að skoða innihaldslýsingar á tilbúnum tacokryddum því þau innihalda oft bæði mikinn sykur og msg. Það er miklu auðveldara að krydda sjálfur hakkið með góðum og hreinum kryddum, t.d. papriku, cumin og cajun bbq kryddið frá Pottagöldrum er rosalega gott.
Laugardagur: PIzza, okkur finnst ágætt að gera stundum pizzu á laugardögum því það er meiri tími í dúllerí en á föstudeginum. Ég er oftast á fullu seinnipartinn að gera fínt fyrir helgina og því ágætt að elda eitthvað fljótlegra en pizzu. Þar sem ég er allt í einu farin að blása út af heimagerða speltbotninum er ég farin að búa til dásamlega glúteinlausa útgáfu af pizzu sem ég alveg elska og maginn minn líka.
Sunnudagur: Kornflexkjúllinn er fínasti sunnudagsmatur og allir virkilega sáttir. Sætar kartöflur með og niðurskorið ferskt grænmeti.
Ég ætla ekki að skrifa niður allar máltíðir vikunnar en fyrir morgunverð áætla ég að þurfa að versla:
- 1 Cheerios pakki ( því miður eru ekki allir að elska Chia grautinn jafn mikið og ég)
- Haframjólk og kókosmjólk
- Egg (1x í viku geri ég eggjabrauð eða ommilettu í morgunverð, yfirleitt á fimmtudögum eða föstudögum)
- chia fræ
- Möndlur (heimagerða möndlumjólkin er nauðsynleg fyrir chia grautinn)
- Frosin hindber
- epli
- A.m.k. 1 poka af grænkáli, engifer, epli og frosin ananas eða mangó fyrir græna morgunsjeikinn
Stelpurnar taka með sér nesti fyrir ávaxta/grænmetis hressingu í skólanum.
- gulrætur
- epli
- gul melóna
- perur
- rauð paprika
Seinniparts hressingin samanstendur yfirleitt af hristing og kannski 1 brauðsneið, eða eplum og hnetusmjöri, eða einhverju öðru tilfallandi. Stundum hef ég bakað bananabrauð eða amerískar pönnukökur ef gestir eru í heimsókn eða eitthvað sérstakt stendur til.
- Kókosmjólk (1-2 fernur)
- Frosið mangó
- Avakadó
- Epli
- möndlusmjör
- hnetusmjör
- Bananar
- gróft spelt (ef ég skyldi baka eitthvað)
Hádegismaturinn minn:
Samanstendur yfirleitt af afgöngum, ef ég á enga afganga er það yfirleitt salat með hinu og þessu.
Það sem ég kaupi fyrir þessa viku er:
- kál
- spírur frá Eco spíra
- vorlaukur
- pekan hnetur
- egg
Jæja, nú er planið komið á hreint en nú er spurning hvernig gengur að halda upphæðinni innan marka.
Kveðja Heilsumamman.